20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ástæða sölunnar er margþætt. Í fyrstu var gert ráð fyrir að Kröfluvirkjun yrði byggð af Norðurlandsvirkjun og var ákvæði þess efnis í lögum frá 1974 sem heimilar byggingu virkjunarinnar. Norðurlandsvirkjun hefði að stofni orðið til við samruna Laxárvirkjunar og smærri virkjunarfyrirtækja á Norðurlandi. Af stofnun hennar varð ekki en Laxárvirkjun gekk í þess stað inn í Landsvirkjun og var heimild fyrir þessu í lögunum um Landsvirkjun frá upphafi vega. Þegar Laxárvirkjun var orðin hluti af Landsvirkjun og hlutverk Landsvirkjunar sem virkjunaraðila nær yfir það hlutverk sem upphaflega var ætlað Norðurlandsvirkjun er það í anda laganna frá 1974, laga nr. 21/1974, að Landsvirkjun taki við Kröfluvirkjun. Þetta er nánar rakið í grg. með frv.

Kaupverðið og kaupskilmálar allir miðast við að raforkuverð til almennings þurfi ekki að breytast frá því sem verið hefði ef Landsvirkjun keypti ekki Kröfluvirkjun. Kaupverð þannig fundið er 1170 millj. kr. og greiðist með skuldabréfi til 25 ára. Ríkissjóður yfirtekur skuldir Kröfluvirkjunar sem voru alls 3207 millj. kr. eða 2037 millj. kr. umfram kaupverð.

Það þarf ekki að tíunda fjárhagslegt tjón ríkissjóðs af framkvæmdum enda ástæðulaust að vekja upp þær deilur sem staðið hafa um Kröflu í meira en 10 ár. Á hitt ber að líta að jafnvel þótt hærra verð hefði fengist fyrir virkjunina er Landsvirkjun fyrirtæki allra landsmanna sem ekki getur greitt hærra verð fyrir einstakar virkjanir en orkuvinnslan stendur undir öðruvísi en með því að senda landsmönnum reikninginn fyrir það verð sem umfram er í formi hærra raforkuverðs. Strax í upphafi þessarar samningagerðar sem nú er lögð fyrir Alþingi var það meginforsenda að hækka ekki raforkuverð til almennings.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi framsöguorð fleiri, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.