20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Aðeins örfá atriði. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög.

Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um það mikið hér síðast að menn hefðu orðið vitrir eftir á. Satt er það að vísu. Hins vegar man ég mætavel hvenær þessi orð voru sögð sem ég hafði eftir aðstoðarmanni ráðherra, Jónasi Elíassyni. Þau voru sögð á fundi um sjávarútvegsmál í ársbyrjun 1976. Þá var Kröfluvirkjun ekki mjög langt komin og engar byggingar hafnar og sennilega hægt, að mér er sagt, að afturkalla kaup á túrbínum. En hvað um það. (RA: Þá var stöðvarhúsið risið, hv. þm.) Stöðvarhúsið var ekki risið þá.

Hér kom fram áðan að slátrun hefði átt sér stað á túrbínu 2. Svo er ekki að ég síðast vissi. Ég spurðist sérstaklega fyrir um það fyrir ekki mjög löngu og mér var sagt að það væri til í hana svo til allt sem með þyrfti. Ég hafði heyrt þetta líka og hafði áhyggjur af því, en það mun ekki vera ástæða til að hafa áhyggjur af því. Hún mun vera nokkurn veginn í lagi.

Auðvitað er ljóst að það fækkar atvinnutækifærum á þessu svæði við þetta. Ég reikna með að það fækki þarna fólki. Mér skilst að nú sé búið að endurráða 11 manns af u.þ.b. 17 sem fyrir voru. Hitt er svo annað mál að heimamenn í Mývatnssveit eru svo sem ekkert að kæra sig um að haldið sé uppi þar atvinnubótavinnu fyrir einhvern ákveðinn mannfjölda ef það er hagkvæmt að reka þetta fyrirtæki með minni mannafla.

Annað varðandi heimaaðila, Mývetninga. Þeim var sérstaklega tryggt að við alla samninga yrði staðið og það var þeim mikils virði, sérstaklega í sambandi við gufusölu til Hitaveitu Mývatnssveitar sem nú á haustdögum hefur verið stækkuð um þriðjung. Þá var það mjög mikils virði fyrir þá að við þá samninga yrði staðið.

Varðandi eitt atriði enn sem hv. þm. Sveinn Jónsson nefndi áðan, að hvað snerti svokallaða leiðréttingu kósínus pí, sem er verkfræðilegt hugtak, sé Kröfluvirkjun ákaflega vel staðsett. Það er rétt eins og er, en þessi kostur við virkjunina mun minnka með tilkomu Blönduvirkjunar af eðlilegum orsökum.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson talaði um að ræðumenn hefðu skellt skuld á Kröflunefnd. Ég kannast ekki við að ég hafi gert það, en hann hefur sennilega tekið það svo. Ég veit ekki hvaða ræðumenn hann átti við að öðrum kosti í fleirtölu.

Hann vildi fá að vita um rannsóknakostnað, hvað væri eiginlegur rannsóknakostnaður. Það er áreiðanlega mjög erfitt að meta það. Það verður sjálfsagt aldrei hægt að meta t.d. hvað snertir svokallað sjálfskaparvíti hversu mikið rannsóknargildi sú hola hafði, en hún kostaði milljón dollara eða meira. Eins og menn kannske muna sprakk hún í loft upp og myndaðist leirhver þar sem hún var. Eitt er þó öruggt, að Kröfluvirkjun hefði orðið dýrari og skuldirnar meiri ef eigendur hefðu gert jafnstrangar kröfur til jarðhitaréttinda og þeir hafa gert sums staðar annars staðar á landinu.

Ég skildi ekki heldur eða öllu heldur fannst mér það ekki koma málinu beint við þegar hv. þm. fór að tala um hvernig stæði með sölu á orku til annarra hluta, til álvers og þar fram eftir götunum. Ég held að það hafi kannske ekki átt heima í þessari umræðu þó að það megi vel vera.

Þetta var það sem ég vildi hafa tekið fram í þessari umræðu.