20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

121. mál, sala Kröfluvirkjunar

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Því miður er hv. 5. þm. Norðurl. e. ekki hér í salnum.

Það var eitt, sem hann vék að, sem ég get ekki annað en haft örfá orð um. Hann undraðist það í minni ræðu þegar ég minntist á orkusölu til stóriðju og í sömu andránni minntist ég á erlenda aðila. Ég veit ekki betur en allverulegur hluti þessara umræðna byggist m.a. á því hversu stór hluti af orkuframleiðslu okkar er ekki nýttur og fjárhagur Landsvirkjunar mótast ekki síst af því. Lagt hefur verið í miklar fjárfestingar, eins og kunnugt er, sem ekki nýtast. Að mínum dómi er því augljóst að eftir því sem orkunýtingin er betri og meiri, þeim mun meiri líkur eru á því að byggt verði undir góðan fjárhag Landsvirkjunar og þar með landsmanna allra. Af þessum sökum ekki síst taldi ég eðlilegt, m.a.s. við þessa umræðu, að fram kæmu einhverjar upplýsingar um hvað næst stæði um frekari orkunýtingu, hvað væri fram undan.

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins drepa á þetta og tel fullkomlega eðlilegt að á það sé minnst við þessar umræður.