20.11.1985
Efri deild: 16. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

127. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, en frv. um það efni hefur verið lagt fram á þskj. 140.

Eins og þingheimi er kunnugt var þessi skattur fyrst á lagður á árinu 1979. Skatturinn hefur síðan verið við lýði í nær óbreyttri mynd þó svo honum hafi í fyrstu aðeins verið ætlað að greiða úr tímabundnum fjárhagsvanda ríkissjóðs. Í umræðum um fjárlagafrv. fyrir næsta ár hefur komið fram að nauðsynlegt er, með tilliti til þess vanda sem við blasir í efnahagsmálum þjóðarinnar, að seinka a.m.k. ýmsum fyrri áformum um lækkun skatta þar sem svigrúm til slíks er ekki fyrir hendi við þessar aðstæður. Með hliðsjón af þessu, svo og í samræmi við fyrri forsendur fjárlagafrumvarpsins, verður ekki hjá því komist að leggja til að framhald verði á sérstakri skattlagningu á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Samkvæmt fjárlagafrv. er áætlað að álagning skattsins nemi um 110 millj. kr.. en innheimta nemi um l00 millj. kr. á næsta ári.

Frv. er efnislega eins og lög nr. 130/1984 er fjölluðu um álagningu og innheimtu skattsins á þessu ári. Lagt er til að skatthlutfallið verði óbreytt frá fyrri lögum eða 1,1% af skattstofni sem er fasteignamatsverð í árslok 1985.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, að fara frekari orðum hér um. Þetta mál liggur ljóst fyrir og hefur verið endurnýjað árlega síðan 1979. Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2, umr. og hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.