20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

5. mál, jarðhitaréttindi

Forseti (Ingvar Gíslason):

Í sjálfu sér skiptir þetta ekki mjög miklu máli og ekki mundi forseti vilja standa hér í stórræðum eða illdeilum við hv. þdm. út af þessu efni vegna þess að deildin sker úr um það og ég vona að hv. þdm. hafi skoðun á þessu og þrek til að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni í hvaða röð svo sem slík tillaga er borin upp. En ég vil þó taka það fram, í sambandi við það sem hv. síðasti ræðumaður var að segja hér um þetta efni, að hv. flm. þessa máls, 5. þm. Austurl., bar fyrst upp tillögu um að þessu máli yrði vísað til iðnn. Síðan kom annar hv. þm., 5. þm. Vestf., með þá hugmynd að rétt væri að vísa þessu máli til allshn. Síðan kemur þriðja tillagan eftir mjög langan tíma um það að eðlilegast væri að þessu máli yrði vísað til sérnefndar. Þannig að hugmyndirnar hafa verið ýmiss konar í þessu. Og um það að rangt sé að bera fyrst upp þá hugmynd, um iðnn., þá lítur forseti svo á að svo þurfi hreint ekki að vera vegna þess að þar er tekin upp sú fyrsta uppástunga sem kom um nefnd í þessum umræðum og því er hún nú borin fram. En til þess að ekki fari á milli mála - og við þurfum ekkert að vera að deila um þetta öllu lengur - þá er forseti margfús til þess nú að bera það upp að þessu máli verði vísað til allshn. og það skal nú gert. (FrS: Það er óskað skýringa á því um hvað atkvæðagreiðslan er.) Jú, það verður gert, að sjálfsögðu. Það fer nú fram atkvæðagreiðsla um að vísa 1. dagskrármálinu til allshn. Og 1. dagskrármálið er Jarðhitaréttindi, 5. mál Nd., þskj. 5.