21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

5. mál, jarðhitaréttindi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel mjög æskilegt að þetta mál komi til atkvæðagreiðslu í þinginu, en það hefur vakið undrun mína hvað það hefur löngum verið fast í nefnd. Vegna anna iðnn. virðist löngum sem að það hafi alls ekki komist áleiðis í gegnum nefndina inn í þingsali áfram. Mér sýnist álitamál hvort þetta mál þurfi nauðsynlega að fara til iðnn. Þetta mál fjallar að mörgu leyti um eignarrétt. Með því er ég ekki að taka afstöðu með eða á móti þeim rökum sem hér hafa komið fram. En mér sýnist að málið eigi ekki síður heima í allshn. og þar sem hún er nú þekkt að því að koma erfiðum málum frá sér til atkvæðagreiðslu í þinginu sýnist mér einsýnt að það ætti að vera létt verk fyrir hana að koma þessu máli í gegnum nefndina og inn í þingið til ákvarðanatöku. Sé flm. það ekki mjög á móti skapi bið ég hann að hugleiða hvort ekki sé rétt að hann dragi til baka þá hugmynd sína að vísa málinu til iðnn., en styðji þá hugmynd að þetta mál fari til allshn. og þar verði látið á það reyna hvort það fer ekki í gegnum nefndina og til þingsins til atkvæðagreiðslu.