20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

59. mál, orka fallvatna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og forseti greindi frá hér úr forsetastóli þá kom fram tillaga við umræðu um málið að vísa málinu til allshn. Það var eina tillagan sem kom fram í umræðum um málið. Hún er eina gilda tillagan sem hér hefur verið flutt um hvernig eigi að vísa þessu máli til nefndar. Þótt formaður iðnn. kalli fram í hér í salnum í þann mund sem atkvæðagreiðsla er að hefjast að hann vilji láta vísa þessu til sinnar eigin nefndar þá er það ekki gild tillaga. Hæstv. forseta ber þess vegna að bera fram þá einu tillögu sem flutt var úr ræðustól þingsins, að málinu sé vísað til allshn.