20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

67. mál, orkulög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem mig langar til þess að vekja athygli á. Í fyrsta lagi er það rangt hjá hv. þm. Páli Péturssyni að við höfum áhyggjur af því að iðnn. sé sjálfsafgreiðslustofnun. Við höfum áhyggjur af hinu þveröfuga, sem sé því að nefndin afgreiði ekki.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli formanns iðnn. á því sama og kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það er ekki bara stjórnarandstaðan sem hefur áhyggjur af hvernig nefndin hefur starfað undir hans stjórn heldur, eins og komið hefur fram í atkvæðagreiðslu, stjórn þingdeildarinnar, því að báðir þingritarar hafa greitt atkvæði með því að 1. dagskrármálið færi til annarrar nefndar en þeirrar sem hv. þm. Páll Pétursson veitir forstöðu og forseti deildarinnar sat hjá við atkvæðagreiðslu um málið þannig að áhyggjurnar yfir störfum nefndarinnar sem hv. þm. veitir forstöðu ná alla leið upp fyrir stjórn þessarar hv. þingdeildar.