20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

67. mál, orkulög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Vill nú ekki forseti vera sanngjarn við deildina og fresta þessari atkvæðagreiðslu? Það er engin ástæða til annars en að verða við því, þegar beiðni kemur fram um það frá þm., að atkvæðagreiðslu sé frestað. Það er yfirleitt alltaf gert. Það væri sérkennilegt að taka upp þau vinnubrögð einmitt núna að keyra yfir sanngjarnar óskir sem fram koma í þeim efnum. Ég mælist til við hæstv. forseta, sem hefur jafnan sýnt sanngirni í störfum sínum, einnig við stjórnarandstöðuna, að hann komi til móts við menn og fresti þessari atkvæðagreiðslu þannig að unnt verði að skoða málin fram að næsta fundi. ég beini þessu eindregið til hæstv. forseta, að hann sýni þá tillitssemi í störfum sínum sem forseti svo sem hann hefur jafnan gert, einnig í þetta skipti, í meðferð þessara mála og endurtek þá ósk sem hér hefur verið flutt af hv. 7. þm. Reykv. og ég er sannfærður um að margir aðrir þm. taka undir.