20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

67. mál, orkulög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau mótmæli, sem hér voru fram borin af hv. 3. þm. Reykv., og ég vil lýsa furðu minni á þeirri ræðu sem ritari deildarinnar, hv. þm. Halldór Blöndal, flutti áðan þar sem hann ætlar að fara að kenna okkur stjórnarandstæðingum um það að tekið hefur allnokkurn tíma að fjalla um þessi mál hér við lok 1. umr. í deildinni. Við höfum gert okkar tillögur um nefndir. Við þeim hefur ekki verið orðið og stjórnarliðið hér hefur verið að knýja það fram að koma þessum málum í þingnefndir andstætt okkar sjónarmiðum. Það er það sem hér er um að ræða. Og hv. þm. Páll Pétursson hefur í hótunum um málsmeðferð innan iðnn. Ég er aldeilis hissa á hv. þm. Ég hef ekki reynt hann af öðru en sanngirni yfirleitt í málsmeðferð í tengslum við iðnn. þó ég hefði sannarlega kosið að hann hefði tekið meira á í sambandi við þau mál sem hér er verið að vísa til nefndar, og að því er virðist lenda þau í iðnn., þrjú þeirra, eftir að hafa legið þar án þess að komast út úr nefnd á einum þrem þingum til þessa, sum hver a.m.k. Ég vona að það verði breyting á þessu og fari svo sem horfir, að hv. iðnn. fái þessi mál, sjái formaður nefndarinnar til þess að þau fái þinglega meðferð og þau komi hér inn í þingdeildina aftur í tæka tíð til þess að hægt sé að taka afstöðu til þeirra á þessu þingi.