20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

67. mál, orkulög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það hafa fleiri tekið til máls en þm. Norðurlands vestra. Það hefði verið hægt að ganga svo frá að á fimm eða tíu mínútum hefði þessum málum öllum verið rennt til nefndar, jafnvel þó að fleiri en ein tillaga hefði legið fyrir um til hvaða nefndar þrjú eða fjögur af þeim hefðu farið. Ég legg til, herra forseti, að prófað verði hvort átök þurfi að verða um að senda til nefndar 4. dagskrármálið, land í þjóðareign, sem ég tel einsýnt að eigi heima í allshn. deildarinnar, Húsnæðisstofnun ríkisins, sem ég tel einsýnt að eigi að fara til félmn., og síðan um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins sem ég tel einsýnt að eigi að fara til allshn. Það er fjarri lagi að ég hafi haft í nokkrum hótunum, en ég vakti athygli á því að það er komið í veg fyrir að iðnn. fái til meðferðar eitt af dagskrármálunum á þessum degi og fær það þá væntanlega ekki fyrr en a.m.k. eftir næsta fund. Það flýtir að sjálfsögðu ekki fyrir afgreiðslu málsins.