20.11.1985
Neðri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

67. mál, orkulög

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að stjórnarandstaðan hafi staðið fyrir einhverjum óþarfaumræðum hér. (StG: Ég nefndi ekki stjórnarandstöðuna, fyrirgefðu.) Þá hefur hv. þm. kannske með réttu átt við Framsfl. (StG: Ekki síður.) Nei, það er alveg rétt hjá hv. þm. Það er nefnilega fyrst og fremst af völdum Framsfl. sem þetta hefur orðið. (ÓÞÞ: Ert þú genginn í hann aftur?) Nei. Ég er ekki genginn í hann aftur, en hins vegar sýnist mér að ýmsir séu komnir hálfir út úr honum ef marka má ræður þær sem ritari deildarinnar flutti í dag.

Ég vil vekja athygli á því að það var hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., sem við tvö af þessum þremur málum flutti tillögu um iðnn. hér úr salnum eftir að atkvæðagreiðsla um málið var hafin. Þegar atkvæðagreiðslan byrjaði lágu ekki fyrir neinar tillögur um iðnn. Ef hv. þm. Páll Pétursson hefði ekki verið að gjamma þessar tillögur sínar fram í úr sæti sínu í salnum hefði deildin fyrir löngu verði búin að afgreiða þetta. Ef hv. þm. Páll Pétursson hefði hagað sér samkvæmt þinglegri venju og lýst skoðunum sínum við umræður um málið en ekki notað frammíköll í salnum til að flytja tillögu sína væri fyrir löngu búið að afgreiða málið. Það er, eins og hér hefur komið fram, alveg sérstök óbilgirni af hálfu formanns þingflokks Framsfl. og formanns iðnn. sem hér veldur mestu í þessu máli og hlýtur að eiga sér stórar pólitískar orsakir. Það getur ekki verið nein önnur skýring á því hvers vegna hv. þm. Páll Pétursson er að beita sér með þeim hætti sem hann hefur gert hér í dag. Hann er að reyna að nota vald sitt sem formaður hv. iðnn. til að koma í veg fyrir að vilji þings og þjóðar nái fram í þessum málum. Það verður rækilega fylgst með því á þessu þingi og af hálfu þjóðarinnar hvort hv. þm. Páll Pétursson skilar þessum frv. út úr nefndinni eða ekki svo að vilji Alþingis fái að koma fram. Minnihlutaítök Framsfl. á Alþingi koma ekki í veg fyrir að þjóðin fái að móta stefnu í slíkum grundvallarmálum eins og hér eru til umræðu.

Ég vil svo þakka hæstv. forseta fyrir að hafa samþykkt ósk um að fresta þessari atkvæðagreiðslu. Sú ósk var fram borin til þess að fram gæti farið könnun á því hve mörgum málum var skilað út úr iðnn. á síðasta þingi og hvernig nefndin hefði starfað. Það er þess vegna ánægjulegt að hæstv. forseti hefur núna skapað aðstöðu til þess að sú könnun á störfum formanns iðnn. geti farið fram og þegar deildin tekur málin aftur til meðferðar geti þessar upplýsingar legið fyrir. Það hlýtur að vera skylda þeirra sem kjörnir eru til formennsku í nefndum að tryggja að þær starfi vel. Sú hótun, sem vissulega var hótun hjá hv. þm. Páli Péturssyni, að málið mundi tefjast í nefndinni var gersamlega út í hött. Hann hefur þegar beitt sér fyrir því á þessum fundi að fá tvö stórmál til nefndarinnar sem hann hefur nú þegar fengið. Fyrr má nú vera annríkið í nefndinni ef hún ætlar að ljúka meðferð þessara tveggja stórmála, sem hún hefur nú þegar fengið, á næstu dögum. Miðað við eðlilegar þingvenjur getur ekki falist neitt annað í þeim orðum sem hann flutti áðan en hótun. Vonandi lætur hv. þm. Páll Pétursson af þessum hótunum sínum í garð deildarinnar og þingmanna hennar.

Umr. frestað.