21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

Okurmál

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessa umræðu sem er orðin alllöng og að mörgu leyti athyglisverð. Það má segja að hún hefjist vegna þess að hér koma upp mál í þjóðfélaginu, svokölluð okurmál, sem er í sjálfu sér ekkert nýtt og í kringum þetta mál verður mikið fjölmiðlafár sem er í sjálfu sér mjög eðlilegt og menn spyrja sig hver sé ástæðan fyrir því að svona lagað gerist í okkar þjóðfélagi. Hefur það átt sér stað á undanförnum árum eða undanfarna áratugi og hvað getum við gert til þess að koma í veg fyrir það?

Ég er ekki í nokkrum vafa um að mál af þessu tagi hafa lengi verið við lýði í okkar þjóðfélagi. Ástæðan er sú að hér hefur ríkt lengi mikið fjármagnsleysi á fjármagnsmarkaði. Þar er mikil samkeppni. Það eru ávallt í þjóðfélaginu einstakir aðilar sem hafa möguleika til að setja slíka vexti umfram aðra út í verðlagið. Það eru erfiðleikar fyrirtækja, það eru erfiðleikar einstaklinga sem verða til þess að einn og einn aðili getur notfært sér slíkar aðstæður sér til ávinnings. Hitt er svo annað mál að mér finnst það í sjálfu sér mjög ánægjulegt að mál sem þetta skuli hafa verið upplýst. Það sýnir að okkar réttarkerfi og dómgæsla er e.t.v. sterkari en margur hyggur. Því hefur verið haldið fram á undanförnum árum að í okkar þjóðfélagi eigi sér stað ýmsir hlutir sem ekki séu uppgötvaðir, en ég er alveg viss um að þetta mál verður til þess að fæla almenning, fyrirtæki og aðra frá því að notfæra sér slíka þjónustu. Þess vegna tel ég að mál þetta hafi að mörgu leyti orðið til góðs því ef það hefði ekki verið upplýst þá er hætt við að þessi starfsemi hefði haldið áfram að vinda upp á sig.

Það sem einkum hefur samt komið fram í þessari umræðu er almenn umræða um peningamál og ríkisfjármál. Því er haldið hér fram, m.a. af hv. þm. Steingrími Sigfússyni, að ekki sé verið að gera nokkurn hlut, ríkisstj. ætli sér ekki að grípa til neinna ráðstafana og þetta er allt ómögulegt í hans huga. (Gripið fram í: Nei.) Hann sér ekkert nema svart (Gripið fram í: Hvaða vitleysa.) og rautt inn á milli og þrátt fyrir það að upplýst hafi verið í þessum umræðum að það er mjög margt á döfinni í þessum málum, margt sem hefði mátt vera búið að gera fyrir löngu, hvort sem við erum að tala um þessa ríkisstj. eða aðrar og fyrir því eru ýmsar ástæður. En að halda því fram að ekki sé verið að grípa til neinna ráðstafana, það er að sjálfsögðu út í hött.

Hins vegar er það ljóst að aðalástæðan fyrir okkar erfiðleikum í peningamálum er almennur efnahagsmálavandi. Að halda því fram að hér starfi ríkisstjórn með efnahagsstefnu sem leiði til þess að slík mál sem þetta komi upp er annaðhvort vanþekking eða menn eru þá vísvitandi að reyna að villa fólki sýn. Það fer ekkert á milli mála að hér er mikill efnahagsvandi og langt í land að hann verði leystur.

Það munu verða mikil erfiðleikaár í íslensku þjóðfélagi á næstunni og jafnvel þó að hv. 5. þm. Reykv., Jóni Baldvini Hannibalssyni, takist að mynda þá ríkisstjórn sem hann hefur boðað að hann ætli sér að mynda eftir næstu kosningar - hvort sem mönnum líki það betur eða verr– með Sjálfstfl. og Alþb., þá er ég viss um að hann mun verða í miklum vandræðum með að stýra þeirri ríkisstjórn sem hann hefur boðað þjóðinni. Það mun hvorki verða auðvelt fyrir hann að ráða við peningamál né fjármál ríkisins og hann mun þurfa að draga ýmislegt af því til baka sem hann hefur verið að segja hér á undanförnum mánuðum, síðan hann byrjaði að tala með allmiklum árangri.

Það er langt í land með að þessi mál verði leyst. Þegar þessi ríkisstj. tók við völdum var hér mikill efnahagsvandi; þá var mikil verðbólga. Við blasti stöðvun atvinnuvega, það var halli á ríkissjóði og það var mikil skuldasöfnun við útlönd. Það er ekki búið að leysa þessi mál og ef við erum að tala um peningamálin almennt, þá er innlent fé í útlánum 72 milljarðar liðlega eða svo, 67 hef ég skrifað hér á öðrum stað. Það eru útlán. Innlent fé, þ.e. sparnaður, er 72,3 milljarðar en erlend lán 56 milljarðar þannig að í útlánum eru á landi hér 123,3 milljarðar og um 45% af því eru erlent fé. Ég man eftir því að hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson - hann er því miður ekki staddur hér en hv. málshefjandi Steingrímur Sigfússon mun örugglega geta upplýst hann um það frekar - sagði einu sinni í ræðustól, ég býst við að sú stefna sé enn við lýði hjá Alþb., að það ætti að segja þessum herrum fyrir verkum, það ætti að tukta bankastjórana til, eins og hann gerði þegar hann var viðskrh., vænti ég, á sínum tíma. En eitt er víst. Þótt Alþb. gæti tuktað bankastjóra til í væntanlegri ríkisstjórn Jóns Baldvins er ég alveg viss um að þeir hafa ekki það gott samband við erlenda bankastjóra að þeir geti tuktað þá til. Ég býst ekki við að þeim takist neitt betur að komast í samband við þá en þeim tókst að komast í samband við aðila í samningum almennt á erlendum vettvangi. Það hafa þeir aldrei ráðið við og ég á ekki von á að svo verði. En um þetta snýst málið, að við höfum bærilegt traust út á við. Og við getum því miður ekki ráðið algerlega vöxtunum innanlands. (Gripið fram í: Það voru nú góð lán sem Ragnar tók.) Já, en ég man eftir því að hv. þm. Ragnar Arnalds, með mikilli virðingu fyrir honum, hélt því fram að það ætti að taka sem mest af lánum því að menn græddu svo mikið á verðbólgunni og þess vegna væri tóm vitleysa að hafa á móti mikilli erlendri lántöku, það ætti að gera sem mest af því. Ég býst við að hann hafi breytt um skoðun eftir að þau eru orðin svo mikil.

En það er út af fyrir sig fróðlegt að líta á gagnrýni þá sem hér hefur verið borin fram á Alþingi annars vegar og hins vegar þá gagnrýni sem erlendir aðilar halda fram gagnvart okkur Íslendingum. Sú gagnrýni sem kemur hér fram er almennt sú að ríkisstj. taki allt of harkalega á peningamálum og allt of harkalega á ríkisfjármálum og þar eigi að sýna lausari tök, það eigi að gera meira fyrir almenning á ríkisfjárlögunum og það eigi að leggja á lægri skatta. Það er hinn almenni málflutningur. Og enn fremur að aðhald í peningamálum sé of mikið, m.a. með háum vöxtum.

Það voru hérna nýlega menn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeir munu áreiðanlega birta skýrslu sína fljótlega. ég er alveg viss um hver verður þeirra umsögn. Hún verður fyrst og fremst sú að það sé ekki nægilegt aðhald í peningamálum. Annaðhvort verði að hækka vexti meira eða takmarka útlán meira. Hún verður á þá leið að fjármál ríkisins séu ekki nægilega traust, þ.e. útgjöldin séu of mikil eða skattar of lágir. Það mun áreiðanlega koma fram hjá þessum aðilum að ef úr þessu sé ekki bætt sé hætta á því að Íslendingar haldi áfram að safna erlendum skuldum og traust þeirra út á við muni rýrna. Málflutningur fer þarna ekki saman. Meðalveg þarna einhvers staðar á milli eru menn að reyna að rata, vissulega með misjöfnum árangri. Ef gagnrýna ætti þessa ríkisstj. fyrir eitthvað, sem vissulega er ástæða til, það er allt gagnrýni vert, er það kannske að hér hefur verið of mikil þensla m.a. vegna þess að útlán til húsnæðismála hafa verið stóraukin og aðstoð við húsbyggjendur, sem vissulega hefur valdið þenslu í þjóðfélaginu. Það hafa verið hér miklar framkvæmdir, m.a. í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er fróðlegt að líta á þær tölur aftur í tímann. Árið 1980 eru verslunar-, skrifstofu- og gistihús o.fl. byggð í landinu fyrir 870 millj., 1008 millj. 1981, 1285 millj. 1982, 1329 millj. 1983, 1220 millj. 1984. Þetta eru um 4-7% af heildarfjárfestingu í landinu. Þetta hefur skapað mikla þenslu og ýmsar aðrar opinberar framkvæmdir hafa valdið vandræðum.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu. Hún lýsir á vissan hátt þeim vanda sem við eigum við að glíma. Það hefur ekkert komið fram í máli stjórnarandstöðunnar annað en að hún vill gjarnan auka þennan vanda með aðhaldsleysi á öllum sviðum. Það má gagnrýna þessa ríkisstj. og á að gagnrýna hana fyrir það að ekki hefur verið nægilegt aðhald. En ef hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson ætlar að safna þessu liði saman í væntanlegri ríkisstjórn sinni, þar sem hann telur öllu verða borgið ef Framsfl. verði ekki með, þá muni þjóðinni loksins vera borgið, sem er alveg ný stefna hjá Alþfl. og verður honum sennilega ekki til mikils framdráttar þegar til lengdar lætur, væri út af fyrir sig fróðlegt að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson upplýsti þá fáu menn sem eru eftir í þingsalnum um hvers konar peningapólitík hann ætlar að reka þegar hann kemur saman þessari dæmalausu ríkisstjórn sinni, sem ég hef út af fyrir sig ekki trú á að honum takist. Það væri mjög ánægjulegt fyrir okkur, sem erum að fást við þetta frá degi til dags, ef Jón Baldvin mundi vilja upplýsa okkur um þetta þannig að við mættum eitthvað af því læra. Það mundi trúlega auðvelda honum að taka við þegar þar að kemur.