21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

Okurmál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það eru örfá atriði sem hafa komið fram í máli manna sem mig langar til að gera athugasemdir við eða árétta.

Hæstv. viðskrh. spurði eftir því, sem ég reyndar tók fram í ræðu minni, hverja vaxtastefnu ég vildi, hvort ég vildi ekki raunvexti. Ég tel nauðsynlegt, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið, að hafa raunvexti og til viðbótar kannske 1-2% fram yfir raunvexti í vaxtatekjur. En vaxtatekjur langt umfram raunvexti, eins og nú er í mörgum tilfellum, eiga engan rétt á sér og alls ekki ef þær eru skattfrjálsar.

Ákvarðanir um vexti eru teknar af stjórnarflokkunum sameiginlega og segja má að það sé stefna ríkisstj. Hæstv. ráðh. spurði hvort ég væri á móti stefnu Framsfl. þar með. Stefna ríkisstj. er málamiðlun á milli stefnu Framsfl. og stefnu Sjálfstfl., þ.e. málamiðlun sem stjórnarflokkarnir komast að. Hins vegar vil ég upplýsa að Framsfl. hefur ekki einn markað stefnu ríkisstj. í vaxtamálum. Stefna Framsfl. er mörkuð á flokksþingum flokksins og áréttuð á miðstjórnarfundum og þingflokki er falið að hrinda henni í framkvæmd að svo miklu leyti sem mögulegt er. Við höfum bara ekki komist lengra en þetta. Stjórnarsáttmáli og seta í samsteypustjórn gerir það að sjálfsögðu ekki að verkum að Framsfl. og Sjálfstfl. hafi sömu stefnu í þjóðmálum. Það er fjarri því, guði sé lof.

Hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson mótmælti því, og það hafa reyndar fleiri ráðherrar gert, að okrið tengdist vaxtastefnunni. Ég er ekki sammála um þetta. Ég held að vaxtastefnan ýti undir okur og okrarar noti hina háu vexti sem stökkpall til að krefjast enn þá hærri ávöxtunar. Okrarar yfirbjóða bankakerfið. Okrarar yfirbjóða bankakerfið með vexti og af því hve vextirnir eru háir sækja þeir stöðugt í sig veðrið. Okrarafélögin myndast af mönnum sem vilja hærri ávöxtun af fjármunum en bankakerfið býður. (Gripið fram í: Væri ekki besta leiðin til að útrýma okri að hafa neikvæða vexti?) Ég tel að það sé eitthvert hlutfall á milli vaxtastigs í landinu og vaxtastigs okraranna. Þeir eru eins og tröppunni fyrir ofan.

Hv. þm. Einar Guðfinnsson taldi að samneyslan kæmi niður á lífskjörunum. Ég tel að samneysla sé hluti af lífskjörunum. Samneysla á Íslandi er langtum minni hluti tekna en á öðrum Norðurlöndum. Einkaneyslan er hins vegar langtum stærri hluti hér af þjóðartekjum en á öðrum Norðurlöndum. En ég tel að lífskjörin séu ekki tilsvarandi betri hér. Samneyslan er og á að vera ráðstöfun á hluta handbærra þjóðartekna til að auka velferð og bæta lífskjör og lífsaðstöðu þegnanna. Það er leiðinlegt að heyra þetta svartagallsraus um samneysluna því að vissulega þarf hún að vera talsvert mikil.

Hv. þm. Friðrik Sophusson taldi að ég hlyti að hafa mismælt mig. Ég hef ekki rekist á nein mismæli í ræðu minni. Stjórnarstefnan hvað varðar stjórn peningamála hefur farið úrskeiðis. Þetta þarf nauðsynlega að laga. Úrbóta á þessu sviði er mikil þörf og er reyndar forsenda þess að okkur takist að ná settum markmiðum með lækkun verðbólgu, stöðvun erlendrar skuldasöfnunar og hallalausan ríkisbúskap sem eru verðug markmið og mikilsverð og við erum sammála um að reyna að ná. Það er alltaf eitthvað sem fer úrskeiðis í hverju stjórnarsamstarfi og það er mjög mikilvægt að sjá hverju er áfátt og reyna þá að laga það en ekki að búa við ástand sem maður sér að er vont.

Ég hef sem alþm. stutt ég held einar fjórar ríkisstjórnir og hjá öllum þessum ágætu ríkisstjórnum hefur verið eitthvað sem betur hefði mátt fara. Á misfellurnar hef ég reynt að benda, hafi ég komið auga á þær, og stundum fengið þær lagfærðar.

Hvað varðar ummæli hæstv. forsrh. um einingu í Framsfl. um vaxtamál er ég sammála honum þegar hann margsinnis hefur lýst því yfir að hann sé ekki hávaxtamaður. Forsrh. er einnig oft búinn að lýsa því yfir að hann sé ekki kvótamaður. En við munum báðir styðja kvótann næstu tvö ár og ég a.m.k. með góðri samvisku.