21.10.1985
Neðri deild: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

5. mál, jarðhitaréttindi

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það má vera að það fari svo í þinginu í vetur að ráðherrar í hinum ýmsu málaflokkum beri meir eða ekki síður fyrir brjósti þann málaflokk sem þeir höfðu áður og gerist því talsmenn hans hér í þingsölum. Hitt vil ég fullyrða varðandi þá umræðu sem hér fer fram að sú afstaða sem Ólafur heitinn Jóhannesson hafði í þessum málum var ekki sérafstaða hans heldur mjög margra framsóknarmanna. Hitt verður svo að metast eftir tiltrú hvers og eins þm. hvort hann telur að sú hugarfarsbreyting hafi orðið hjá nm. í iðnn., sem eru þeir sömu og hafa verið og hafa ekki komið slíku máli í gegnum nefndina, að þess sé að vænta að þeir muni skila þessu máli til þingsins eða hvort hv. flm. er beint eða óbeint að óska eftir því að málið hljóti sömu örlög og það hefur hlotið á undanförnum þingum þannig að hann geti endurflutt það á næsta þingi. Mér er ekki ljóst hvort það er hugsunin á bak við það hve fast hann heldur við að málið skuli fara til iðnn.

Ég tel að það sé ekkert sjálfgefið að þetta mál eigi heima í iðnn. og mér finnst að almennir þm. hljóti að hugsa sig um tvisvar í atkvæðagreiðslu, þegar málum er vísað til nefndar og ekki er sjálfgefið að mál skuli fara til ákveðinnar nefndar, hvort ekki sé þá skynsamlegt að vísa málinu til nefndar sem vitað er að gæfi fjallað um málið og afgreitt það til þingsins til atkvæðagreiðslu.

Þess vegna undrar mig að sá málflutningur skuli uppi hafður að það sé meira kapp lagt á að koma málinu til iðnn. en á hitt atriðið að málið komi til atkvæða hér í þinginu.

Umr. (atkvgr.) frestað.