21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

Okurmál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það liggur við að maður sé hálffeiminn að koma í ræðustól eftir að hafa hlustað á umræðuna í dag. Hér hefur verið talað svo gáfulega að maður veður orðið viskuna upp í klof. En ég er ekki sammála hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Reykv., um að við höfum fengið einhverja niðurstöðu úr þessari umræðu. Það er langt því frá. Það kann líka að vera vegna þess að ég er ekki alveg sammála því að það sé einhver niðurstaða í þessari umræðu, sem byrjaði hér á þriðjudaginn, að það eigi að setja lög um verðbréfamarkað. Ég skildi það svo á hæstv. forseta og upphafsmanni þessara umræðna að hér væri verið að tala um okurlánastarfsemi þá sem komist hefði upp um nýlega. Ég tók það þannig að allir menn vissu að þröngt væri á íslenskum peningamarkaði. Ég tók það þannig að það þættu engar fréttir í þessum ræðustól að dýrt væri að taka lán á Íslandi í dag.

Ég held að menn hafi farið mjög út um víðan völl hér í þessari umræðu og blandað málum æðimikið saman. Ég fyrir mitt leyti vil greina á milli okurs og lánastarfsemi. Auðvitað er lánamarkaðurinn hér ekki þannig að maður sé sáttur við hann. Auðvitað er framboð á peningum allt of lítið. Auðvitað finnast manni vextir allt of háir. Ég er aftur á móti ekki þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru það mál sem hér átti að tala um. Við erum að tala hér um okur og okur er ekki hluti af efnahagsvanda þessarar þjóðar. Okur er glæpastarfsemi sem stunduð er í þessu landi, glæpastarfsemi sem er stunduð í þessu landi í skjóli mjög brenglaðrar siðferðiskenndar, bæði ráðamanna og almennings. Ráðamenn skyldu ekki reyna að bera blak af sér hvað það snertir að þeir hafi átt sinn þátt í því að brengla siðferðiskennd fólks. Hvað höfðingjarnir hafast að o.s.frv. er mjög gamall málsháttur og hann er ekki út í bláinn.

Ég hlustaði á bæði ráðherra og þm. Stjórnarliðar, hvort sem þeir eru þm. eða ráðherrar, hæla sér mjög af árangri vaxtastefnu sinnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst allt í lagi að þeir stæli um það við stjórnarandstöðuþm. eða aðra hvort þeir hafi náð árangri með sinni vaxtastefnu, en mér finnst mjög hæpið að drepa á það í umræðu um okurlánastarfsemi, þ.e. glæpastarfsemi í þessu landi. Það á ekkert skylt við það, vona ég. Þar erum við að tala um allt annað. Menn skyldu átta sig á því að okur verður ekki til af engu. Ég nefndi í fyrri tölu minni að upplýst er og vitað að okurlánastarfsemi hér tengist eiturlyfjanotkun. Það er ekki einfaldlega þannig að einhverjir vesalings eiturlyfjasmyglarar fari til okurlánara af því að þeir fá ekki lán í banka og sæti þar þeim hræðilegu kjörum sem okurlánarar bjóða upp á. Eiturlyf eru ekki á markaði hér á Íslandi frekar en annars staðar vegna fíknar einhvers ungs fólks. Þau eru á markaði hér vegna þess að einhverjir menn vilja græða peninga. Þannig tengjast þau okri.

Til okurlánara fer fólk af tveimur tilefnum aðallega. Það er af neyð og það er af því að sú starfsemi sem það stundar þolir ekki dagsins ljós, þ.e. sem glæpamenn. Því miður hefur það gerst hér á landi, sem ég held að eigi sér ekki margar hliðstæður, að okurlánastarfsemi hefur verið fjármögnuð af fólki sem ég held að almennt vilji telja sig heiðarlegt fólk - ekki að öllu leyti en að hluta til fjármögnuð af slíku fólki. Ég hef ekki heyrt neinn mann hér, þm. eða ráðherra, tala til þessa fólks. Þetta fólk ber ekki litla ábyrgð, á ekki litla sök í þessu máli. Ég vildi fá að nota tækifærið hér til þess að skora á þetta fólk, fólk sem vill teljast heiðarlegt fólk en hefur glapist vegna þeirrar brengluðu siðferðiskenndar sem ég talaði um hér áðan, hefur glapist til þess að ávaxta fé sitt hjá okurlánurum, að innkalla fé sitt strax og hætta þannig þátttöku í glæpastarfsemi. Það getur vel verið að það kosti þetta fólk að það tapi fé eða vöxtum, en ég held að það sé betra en að tapa ærunni sem það annars tapar af að eiga viðskipti við þessa menn.

Hæstv. viðskrh. Matthías Bjarnason talaði um að hér færu menn með tómt gaspur. Ég get að vissu leyti tekið undir það því að ég held að menn hafi í raun og veru brugðið hulu yfir það mál sem raunverulega skiptir öllu hér, en það eru þeir glæpir sem tengjast okri og sá glæpur sem okur er. Það er ekki hægt að tala um venjulega bankastarfsemi í landinu né verðbréfamarkað í sama mund og talað er um okur.

Matthías Bjarnason hæstv. viðskrh. spurði þeirrar spurningar: Hvers vegna er innlánsféð hjá okurlánurum en ekki í bönkum? Ég skal ekki svara þeirri spurningu. Ég hef þegar svarað henni, að ég tel. En ég held að þessi spurning hafi líka komið fram vegna þess að hæstv. ráðh. hafi að ýmsu leyti fallið í sömu gryfju og aðrir þm. hér, að rugla saman okurlánurum og öðrum aðilum sem stunda lánastarfsemi innan ramma laganna. Ég lít svo að t.d. verðbréfamarkaðirnir, sem nýlega hafa sprottið upp hér eins og gorkúlur, séu vantraustsyfirlýsing sparifjáreigenda á stjórn peningamála í landinu. Þeir treysta ekki stjórnvöldum fyrir sparifénu sínu. Þess vegna fara þeir með það eitthvað annað. Það er vegna þess að stjórnvöld eiga bankana sem annars ættu að ávaxta fé þessa fólks.

Það er kannske orðið ótímabært að gera athugasemdir við ýmislegt sem hér hefur til fallið. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja að ég vorkenni meira því fólki sem glapist hefur á því að eiga viðskipti við okrara en Þorsteini Pálssyni þó hann verði fyrir einhverjum ásökunum í Þjóðviljanum, ásökunum sem tíminn getur leitt í ljós hvort eru réttar eða rangar. Hann þarf ekki annað en bíða eftir að tíminn geri það - og þá á ég ekki við Nútímann heldur tímann sjálfan.

Ég tek undir orð hv. 2. þm. Reykv. að það þarf að uppræta lögbrot og spillingu á íslenskum lánamarkaði, en aftur á móti tek ég ekki undir þau með þeim hætti að ég vilji rugla þar saman okri og annarri lánastarfsemi. Okur, það er starfsemi sem byggir á neyð og glæpum, verður ekki upprætt öðruvísi en með banni við okri, með baráttu gegn okri, upplýsingu og fræðslu um samhengi okurs og glæpa yfirleitt. Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega hissa á því hvað menn hafa verið feimnir hér í ræðustól að nefna hlutina sínu rétta nafni. Fyrsta stig í átt til siðleysis er kannske það að hrista af sér vitneskju um hluti sem eru svo óþrifalegir að maður vill ekki vita af þeim.

Við hjá BJ höfum reyndar oft - stundum svo oft að menn hafa orðið mjög pirraðir á því - gagnrýnt stjórnkerfið fyrir að það sé ekki þess megnugt, vegna þeirra djúpu hjólfara vana og hagsmunatengsla sem það er sokkið í, að stjórna þessu landi. Þá höfum við venjulega verið að tala um það sem lýtur að stjórn efnahagsmála og þeim samfélagsmálum öðrum sem stjórnvöldum eru falin. Nú horfum við upp á annað mál sem komið er upp á yfirborðið, mjög alvarlegt mál, mál sem tengist miklu fleiri vandamálum í okkar þjóðfélagi, vandamálum sem menn hafa margoft talað um að þeir vildu berjast á móti. Þá á ég við alla þá neyð sem tengist okurlánastarfseminni. Ég hef nefnt fíkniefni og aðrar tegundir glæpa sem því tengjast. Nú reynir á hvort það stjórnkerfi, hvort það flokkakerfi, kosningafyrirkomulag og það framsal valda sem við búum við í þessu landi nú er þess megnugt að framkvæma vilja fólksins og uppræta þessa glæpi. Ef það er óhæft til að ná árangri, ef því tekst ekki að hreinsa út þennan óþverra, sem okurlánastarfsemin er, álít ég að það hafi fellt dóm yfir sjálfu sér.