21.11.1985
Sameinað þing: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

Okurmál

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hefja þessa umræðu sem er sannarlega tímabær og nauðsynleg þótt hún hafi nú teygst víða og lengi. En það þarf engan að undra þótt hún spanni víðara svið en það sem almennt er meint með okurlánaviðskiptum, vegna þess að þótt okurlánaviðskipti og það mál sem er kannske megintilefni þessarar umræðu sé sannarlega hrikalegt mál og andstyggilegt eru þau mál ekki síður alvarleg sem eru alveg á mörkunum. Eins og hér hefur raunar áður komið fram hefur sú vaxtastefna, sem núverandi ríkisstj. ber ábyrgð á fyrst og fremst, nú þrengt svo að fólki að það upplifir hana hreinlega sem okur. Það er mergurinn málsins og þess vegna hefur þessi umræða farið töluvert út um víðan völl.

Hér hefur margt mjög athyglisvert komið fram sem vert væri að ræða nánar, m.a. í ræðu hv. síðasta ræðumanns, en það er orðið töluvert áliðið dags og ekki ætlun mín að lengja þessa umræðu um of.

Það sem rekur mig hingað er skætingur hæstv. viðskrh. í garð Kvennalistans fyrr í dag. Sá skætingur kom mér reyndar ekki sérstaklega á óvart þótt hann ofbyði augljóslega mörgum hér inni. Þessi hæstv. ráðh. er þekktur fyrir stóryrði ef komið er við snögga bletti þótt það sé vissulega umhugsunarefni hvað hv. þm. telja sér sæmandi í málflutningi. Kannske hefur hæstv. ráðh. fylgst með sjónvarpsþætti s.l. þriðjudagskvöld og heyrt einn af „uppum“ Sjálfstfl. spá Kvennalistanum sæti í ríkisstjórn og ákveðið að nú þyrfti að brýna brandinn og reyna að stöðva þessa óhugnanlegu sókn kvenna. Hann ætti að ræða málið við hæstv. iðnrh. sem telur sig einan karlmanna hér á hv. Alþingi skilja það afl sem leynist með konum og gaf reyndar til kynna að rétt væri að bregðast við því með töluvert öðrum hætti en hæstv. viðskrh. virðist ætla að gera.

En hæstv. ráðh. lét ýmis orð falla í garð Kvennalistans, talaði um ábyrgðarleysi o. fl. í þeim dúr. Um það mætti lengi tala og mörg dæmi taka frá fyrri árum, dæmi sem er erfitt að bendla Kvennalistann við eða konur yfirleitt. Við gætum áreiðanlega rætt það utan dagskrár í tvo daga og óvíst að það dygði til.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á að við höfum sem betur fer nokkurt fé til skiptanna í þessu þjóðfélagi og Kvennalistinn hefur fyrst og fremst lagt áherslu á breytta forgangsröðun verkefna. Það hefur ekki skort að við höfum bent á sparnaðarleiðir, sem hæstv. ríkisstj. hefur reyndar sem betur fer tekið tillit til, og vil ég þar nefna t.d. samdrátt í virkjanaframkvæmdum sem við höfum alla tíð talað fyrir. Við höfum líka margsinnis krafist aðhalds varðandi ferða- og risnukostnað hins opinbera sem á reyndar að gera tilraun til að draga saman samkvæmt síðustu fréttum og betur að farið hefði verið að ráðum Kvennalistans þegar í upphafi þessa kjörtímabils svo og fleiri ráðum í þessum dúr. Ég vil einnig benda hæstv. ráðh. á að við höfum haft tillögur um tekjuöflun beinlínis í tengslum við ákveðin þingmál, eins og frv. okkar um fæðingarorlof, en fylgifrv. með því tryggir fjármögnun þess, og er það meira en oftast sést á borðum þm. Síðast en ekki síst eru þingmál Kvennalistans ekki eyðslumál, heldur sparnaðarmál. Flest okkar mála eru þess eðlis að þau munu spara meira til lengri tíma en þau kosta. Þetta ætti fyrrverandi hæstv. heilbrrh. að skilja manna best a.m.k. þar sem um er að ræða mál á því sviði. Nægir þar að nefna leit að krabbameini í brjóstum.

En aðeins meira um ábyrgðarleysið. Mig langar að spyrja hæstv. ráðh. hvort það flokkist ekkí alltaf undir ábyrgðarleysi í hans huga þegar samþykkt eru lög eða framkvæmdir á vegum hins opinbera án þess að negla það í bak og fyrir hvernig eigi að fjármagna hlutina eða er ekki sama hver á í hlut? Er það bara ábyrgðarleysi ef Kvennalistinn leggur til útgjöld án þess að benda á ákveðinn tekjustofn á móti, en hreint ekkert ábyrgðarleysi þegar stjórnvöld beita sér fyrir lagasetningu eða framkvæmd, sem hefur kostnað í för með sér, án þess að gera grein fyrir tekjum á móti? Reyndar veit ég ekki betur en að það sé beinlínis bundið í lögum að stjórnvöld skuli gera grein fyrir fjármögnun þegar þau leggja til lagabreytingar, en á það skortir svo sannarlega. Og svo aftur sé vitnað til málsháttarins góða: „Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það.“

Það má heita daglegt brauð að á fund fjvn. komi forráðamenn hinna ýmsu stofnana ríkisins, sem eru að kynna óskir sínar um hækkun til hinna ýmsu þátta þeirrar starfsemi sem þeir eiga að halda utan um, og þeir segja gjarnan: Þið settuð lög, þ.e. þm., settuð lög í mars 1984 eða maí 1985 eða hvenær það hefur nú verið, en það hefur gleymst að gera ráð fyrir því hér í fjárlagafrv. Ég get nefnt framleiðsluráðslögin frá s.l. vori og ég get nefnt lög um almannavarnir o.fl. Þessi upptalning gæti orðið lengri, en bæði er nú að ég átti ekki von á því að taka til máls hér í dag og svo hitt að þetta kemur ekki við því efni sem hér er til umræðu utan dagskrár. En tilefnið gaf hæstv. viðskrh. svo að ég vona að hæstv. forseti beri ekki þungan hug til mín þótt ég hafi tekið örfáar mínútur í að svara ásökunum hans svo smekklega sem þær voru nú bornar fram.

Herra forseti. Stöku sinnum leyfist þm. að fara með skáldskaparmál hér í ræðustól og því freistast ég til að vitna hér í þingeyskan hagyrðing, Steingrím í Nesi, en eftirfarandi vísa hans kom mér í hug þegar hæstv. viðskrh. talaði hér áðan og skal tekið fram að það er ekki í fyrsta skipti sem manni dettur eitthvað svipað í hug þegar hlustað er á umræður hér á Alþingi. En þessi litla vísa hljóðar svo, með leyfi forseta:

Varla er hægt upp úr vaðlinum hér vitinu höfuð að teygja.

Algengust heimska í heiminum er að hafa ekki vit á að þegja.