25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að ef einhver annar ráðherra en ráðherra Sjálfstfl. væri að setja á þennan skatt mundi fyrirsögn í Morgunblaðinu hljóða eitthvað á þennan veg: 56,25% hækkun á þungaskatti. Mikið yrði gert úr því hversu gífurleg skattahækkun væri á ferðinni, óbærileg fyrir þá aðila sem það þyrftu að þola.

Ég verð að játa að mér finnst þetta ansi mikið stökk og þau voru ekki sannfærandi rökin sem ráðherra tilgreindi fyrir þessum hækkunum. Ég lýsi því yfir að ég er andvígur þessum hækkunum og tel að til þess að tryggja fé Vegasjóðs ætti að standa við stóru orðin með að spara betur í ríkisrekstri, minnka báknið, sem sumir tala stundum um, en ekki hefur verið gert á síðustu árum.

Aftur á móti má segja að seinni hluti ræðu fjmrh. var mér mjög að skapi. Þar lýsti hann því yfir að hann vildi athuga að breyta þessum skatti og leggja skatt á orkugjafann sjálfan. Ég tel að það sé rétt leið. Ég tel að það sé vitlausasta leiðin, sem valin hefur verið, að nota þá aðferð sem hér er í frammi höfð. Ég tel það mjög mikils virði að þessi athugun fari fram og skattlagningunni verði breytt á þann veg að orkugjafinn verði viðmiðunin.

Annað er það, og hef ég það eftir þungavinnuvélaeigendum, það eru margir verktakar í þeirri grein smáatvinnurekendur, menn sem eru einyrkjar ef svo mætti segja, og þeir fullyrða við mig að það fari reyndar lítið fyrir söluskattsskilum oft og tíðum - hjá „hinum“, segja þeir þegar þeir eru að tala við mig.

Mér finnst að samhliða þessari athugun væri vert að skoða hvort ekki er rétt að hafa þann skatt sem merktur er söluskatti tengdan orkugjafanum. Ég er þeirrar skoðunar, og reyndar mengaður af þeim viðræðum sem ég hef átt við þessa einyrkja, að það væri besta leiðin til að ná þessu inn. Kannske yrði það til þess að lækka skattana. Kannske yrði það til þess að meira innheimtist. Ég er sannfærður um að svo yrði og yrði um leið réttlátara.

Þessu frv. verður vafalaust vísað til fjh.- og viðskn. þar sem félagi minn Eiður Guðnason mun gera því betri skil hvernig afstaða okkar Alþýðuflokksmanna er gagnvart þessum skatti. En ég endurtek að ég er andvígur þessu formi á skatti og tel rökin fyrir hækkuninni alls ekki sannfærandi. Öðru nær.