25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það gæti allt saman verið hér til umræðu og álita út af fyrir sig hvort hér er verið að leggja á skatt eða hækka gjöld ef maður hefði á tilfinningunni að hér væri verið að fjalla um einhverja stefnumótun eða stefnumörkun sem skilaði endanlega einhverjum árangri.

Út af fyrir sig er það kannske jákvætt að fara að huga að því að skattleggja það eldsneyti sem menn nota með einhverjum kúnstum eins og þeim að lita það eða eitthvað því um líkt til þess að elta þá menn uppi sem eiga að greiða það gjald sem hér um ræðir. En það er samt sem áður eins og ekki sé beint samhengi þessara hluta við afskipti ríkisvaldsins í heild af því sem við mundum kalla flutningamál á þessu landi, þ.e. gerð vega og skipulag annars flutnings eftir öðrum leiðum, þá í lofti eða á sjó, eða hér sé einhver heildarmynd á ferðinni þar sem ákveðnar tekjur innan þessa geira eiga að skila ákveðnum árangri innan sama geira.

Ég get ekki látið hjá líða að benda á að það stingur óneitanlega mjög í augu þegar maður er að skoða og áætla þær tekjur sem yrðu af þessu gjaldi, og þá á ég eingöngu við hækkun þungaskattsins á næsta ári, að það er nánast upp á krónu sama upphæð og fer til að greiða niður rekstur Ríkisskips. Þá fer nú að kárna gamanið, sérstaklega fyrir það fólk sem býr úti á landi því að þá er aðallega verið að seilast ofan í þess vasa til að halda úti útgerð á því vonlausa fyrirtæki sem Ríkisskip er og telja fólki á landsbyggðinni trú um að þar sé verið að gera eitthvað því til hagsbóta á meðan það gengur þess dulið að það greiðir reksturinn á Ríkisskipi niður beint með þeirri hækkun sem verður á vöruverði úti á landi við tilkomu þungaskattsins og afleiðinga hans fyrir langferðaflutninga á landi.