25.11.1985
Efri deild: 17. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

128. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 120 frá 31. des. 1976, um tollskrá o.fl. með síðari breytingum, á þskj. 141. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl. nr. 89/1985 sem sett voru 20. september s.l.

Lög þessi voru liður í þeim ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem ríkisstj. gerði nú í haust, og hafa þær ráðstafanir verið skýrðar í framsögu fyrir öðrum málum sem hér hafa verið til umfjöllunar á hv. Alþingi.

Frumvarp þetta fjallar um aðflutningsgjöld af ökutækjum og er tollur af ökutækjum lækkaður úr 90% í 70%. Skv. frv. því um fjáröflun til vegagerðar sem lagt hefur verið fram í þessari hv. deild hækkuðu gjöld af bensíni og tekjur af þungaskatti. Lækkun tolla af bifreiðum gerir þá skattheimtu mildari en ella en jafnframt mun tollalækkunin hafa í för með sér eðlilegri og jafnari endurnýjun á bifreiðaeign landsmanna en verið hefur. Tekjuskerðing ríkissjóðs af þessari lækkun tolla er áætluð 200 millj. kr.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.