25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

Um þingsköp

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar atkvæðagreiðsla átti að fara fram á síðasta fundi þessarar hv. deildar um þá nefnd sem vísa skyldi málinu til kallaði hv. þm. Páll Pétursson, formaður iðnn. þessarar hv. deildar, úr sæti sínu að hann óskaði eftir því að fá málinu vísað til sinnar nefndar. Þá gerðum við ýmsir athugasemd við að þessu máli væri vísað til iðnn. þar eð hægt væri að draga mjög í efa að málið fengi eðlilega og rétta meðferð þar í nefndinni. Sú umræða hafði einnig farið fram varðandi tvö önnur mál, sem voru til umræðu eða atkvæðagreiðslu réttara sagt á sama fundi, þar sem sami hv. þm., Páll Pétursson, sótti mjög fast að fá þeim einnig vísað til sín, en gat ekki fallist á að málunum yrði vísað til þeirrar nefndar sem flm. óskaði eftir.

Þegar hér var komið sögu óskaði ég eftir því við hæstv. forseta að atkvæðagreiðslu um nefnd varðandi þetta frv. til orkulaga yrði frestað til þessa fundar svo að hægt væri að láta fara fram könnun og úttekt á því hvernig hv. þm. Páll Pétursson hefði sinnt formennsku sinni í iðnn. þessarar hv. deildar. Þar með yrði deildinni sköpuð aðstaða til að vega það og meta hvort rétt væri að verða við hans eigin tillögu um að vísa málinu til iðnn. eða hvort ætti að fara að tillögu flm. frv. um að vísa því til allshn.

Herra forseti. Þessi athugun og úttekt á formennskustörfum í iðnn. hefur nú verið gerð. Mér finnst nauðsynlegt að skýra hv. deild frá því hvaða niðurstöður þar komu í ljós vegna þess að þær skapa ærna ástæðu til að verða við tillögu flm. um að vísa þessu máli til allshn., en láta nú staðar numið við að vísa málum sífellt til iðnn. undir formennsku hv. þm. Páls Péturssonar. Það er alveg ljóst á þessari úttekt og niðurstöðum hennar að formennska hv. þm. Páls Péturssonar, annaðhvort vísvitandi eða óafvitandi, ég skal ekkert um það segja, er með þeim hætti að hún miðast öll við það málin séu ekki afgreidd.

Á síðasta þingi, þinginu 1984-1985, liðu fjórir mánuðir frá því að fundur var haldinn í iðnn. í desember og þar til fundur var haldinn í lok mars, 27. mars. Það var 1. fundur nefndarinnar á árinu 1985 og höfðu þá liðið fjórir mánuðir frá því að síðast var haldinn fundur í nefndinni. Þar á eftir var ekki haldinn fundur í nefndinni fyrr en tveimur mánuðum seinna eða í síðustu viku maímánaðar, 22. maí. Í tæplega hálft ár, á mesta annatíma síðasta þings, heldur hv. þm. Páll Pétursson einn fund í iðnn. þessarar deildar.

Hvernig er svo farið með þau mál sem vísað er til þessarar nefndar, þau mál sem hér eru til umræðu og voru til umræðu á síðasta fundi þessarar deildar? Ég vil lýsa því hér, herra forseti.

Frv. um jarðhitaréttindi barst nefndinni 24. október. Hv. þm. Páll Pétursson tekur það ekki á dagskrá nefndarinnar fyrr en fimm mánuðum síðar eða 27. mars. Það líða fimm mánuðir þangað til hann fær málið til nefndarinnar og þar til hann tekur það í fyrsta sinn þar á dagskrá.

Næsta frv. er frv. um orku fallvatna. Þar líða einnig rúmir fimm mánuðir frá því að málinu er vísað til nefndarinnar og þar til það er tekið þar á dagskrá.

Frv. um Landsvirkjun gildir hið sama um. Þar líða rúmir fimm mánuðir þangað ti formaðurinn tók málið þar á dagskrá.

Flm. að þessum þremur frv. voru m.a. Hjörleifur Guttormsson, Guðmundur Einarsson, Kristín Halldórsdóttir og Kjartan Jóhannsson.

Frv. til orkulaga, sem Kjartan Jóhannsson, Jón Baldvin Hannibalsson og aðrir þm. Alþfl. voru flm. að, var ekki tekið fyrir fyrr en rúmum fjórum mánuðum eftir að því hafði verið vísað til nefndarinnar. Sama gilti um frv. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Um fimm veigamikla lagabálka, sem fluttir voru á síðasta þingi, líða ýmist rúmir fimm mánuðir eða rúmir fjórir mánuðir frá því að málinu er vísað til nefndarinnar og þar til það er tekið fyrir. Þremur þessara mála var vísað frá þessari hv. deild til nefndar í lok októbermánaðar eða á fyrstu vikum þingsins og tveimur upp úr miðjum nóvembermánuði, en það er ekki fyrr en í lok marsmánaðar næsta ár sem þessi mál eru tekin fyrir á fundum nefndarinnar og þá aðeins í eitt sinn og greinilega haldið þannig á málum að ekki gefist tími til að vísa þeim til umsagnar hjá stofnunum og fara þinglega séð með málin. Það er því alveg ljóst, ef litið er yfir þennan lista, að með því að vísa þessu máli til iðnn. enn á ný á sama hátt og hinum frumvörpunum, sem hér voru til umræðu á síðasta fundi nefndarinnar, er verið að stuðla að sams konar vanrækslu og svæfingu á málum og gert var síðast. Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þm. Páls Péturssonar, sem er sjálfur flm.till. um að fá þetta til sín enn á ný, hvort hann sé reiðubúinn að breyta vinnubrögðum í nefndinni, að taka upp allt önnur vinnubrögð í þessari nefnd en tíðkast hafa til þessa.

Ég vil svo láta það koma fram hér einnig að á þinginu 1983-1984 var greinilega nákvæmlega sami svipur á störfum þessarar hv. nefndar. Hv. þm. Páll Pétursson hélt ekki nema þrjá fundi í nefndinni frá því að þing var sett 1983 og fram að áramótum og síðan liðu fjórir mánuðir á mesta annatíma þingsins þar til nýr fundur var haldinn í nefndinni í apríl. Það var enginn fundur haldinn í þessari nefnd á því þingi frá desember og fram í apríl. Svo að ég gefi þetta nákvæmlega: Frá 16. desember til 13. apríl var enginn fundur haldinn í nefndinni. Reyndar aðeins einn fundur í október, einn fundur í nóvember, einn fundur í desember og síðan ekki fyrr en í apríl. Þó hafði verið vísað til þessarar nefndar mörgum veigamiklum frumvörpum.

Það er því alveg ljóst, hæstv. forseti, að sú gagnrýni sem sett var fram á síðasta fundi á að vísa þessum málum til hv. iðnn. á fyllilega rétt á sér. Það er alveg nauðsynlegt, þegar þessi athugun, sem stuðlað var að að færi fram með því að fresta atkvæðagreiðslunni til þessa fundar, leiðir þessar niðurstöður í ljós, að hv. deild fái skýringar og helst loforð frá hv. þm. Páli Péturssyni um að stórbæta nú ráð sitt og taka upp allt önnur vinnubrögð en tíðkast hafa á tveimur undanförnum þingum. Það er alveg ljóst að hann er með þessu að nota formennsku sína í nefndinni til þess að leggjast á mál, til þess að koma í veg fyrir að þau séu afgreidd, mál sem hann og Framsfl. eru ósammála. Með slíkum starfsháttum er verið að koma í veg fyrir að meiri hluti þings og þjóðar nái fram að ganga í þessum málum. Þess vegna er nauðsynlegt að hv. þm. Páll Pétursson gefi yfirlýsingar um það hér og nú að hann muni stuðla að því að þessum frumvörpum verði skilað út úr nefndinni fljótlega eftir áramót svo að þingið geti fengið að taka afstöðu til þeirra þegar það kemur saman á ný að loknu jólaleyfi.

Það er svo rétt í þessu samhengi, hæstv. forseti, að rifja upp að hv. ritari þessarar deildar, Ólafur Þ. Þórðarson, reyndist hafa rétt fyrir sér hvað bókanir deildarinnar snerti, en Halldór Blöndal rangt, eins og hér kom fram áðan. Það er rétt að rifja upp einnig að hv. ritari Ólafur Þ. Þórðarson stóð að því ásamt okkur ýmsum öðrum að leggja til að málum þessum væri vísað til allshn., a.m.k. einu þeirra, en ekki til iðnn.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt, fyrst orðið var við þeirri ósk að fresta þessari atkvæðagreiðslu, að láta þessar upplýsingar koma fram og óska eftir greinargerð frá hv. þm. Páli Péturssyni áður en atkvæðagreiðslan fer fram.