25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ekki hefur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson séð að sér síðan á síðasta fundi og hefur nú leikinn aftur. Það var auðvitað fullmikil bjartsýni að búast við því að hann hætti þeim kjánalátum sem hann tamdi sér á þeim fundi. Það er ekki einungis að hann sé að flytja hér vantraust á nefndarformennsku mína, heldur er hann jafnframt að kasta steini að öðrum nefndarmönnum og þá ekki síst ágætum nefndarmönnum, stjórnarandstæðingum í nefndinni, Hjörleifi Guttormssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur.

Í iðnn. var ágæt samstaða. Það er ekki óeðlilegt og hefur iðulega tíðkast að stjfrv. eru látin sitja fyrir við afgreiðslu. Ég hef kappkostað, bæði í þessari nefnd og fjh.- og viðskn. deildarinnar, sem ég stýri einnig, að hafa gott samstarf við stjórnarandstöðuna og taka til greina þær hugmyndir um málsmeðferð sem stjórnarandstæðingar leggja til ekkert síður en stjórnarsinnar, yfirheyra menn skilmerkilega og afla upplýsinga þannig að um vönduð vinnubrögð geti verið að ræða.

Ég verð að eyða örlitlum tíma í það vegna þeirra orða sem féllu hér áðan um starfsleysi iðnn. að vitna til þess hvernig nefndin hefur unnið á undanförnum árum. Þessi gerðabók, sem ég hef hér í höndum, hefst á 1. fundi iðnn. 23. okt. 1972. Á þingi 1972-1973 var formaður nefndarinnar Eðvarð Sigurðsson og hélt sex fundi. 1973-1974 var hv. þm. Eðvarð Sigurðsson einnig formaður nefndarinnar og hélt níu fundi. Á aukaþingi 1974, sumarþinginu, voru haldnir þrír fundir. Þá var formaður hv. þm. Ingólfur Jónsson. 1974-1975 voru haldnir 16 fundir. Formaður nefndarinnar var þá hv. þm. Ingólfur Jónsson. 1975-1976 voru haldnir sjö fundir í nefndinni. Þá var formaður hv. þm. Ingólfur Jónsson. 1976-1977 voru haldnir 13 fundir. Formaður var hv. þm. Ingólfur Jónsson. 1977-1978 voru haldnir 11 fundir. Þá var formaður hv. þm. Ingólfur Jónsson. 1978-1979 voru haldnir 11 fundir og þá var formaður nefndarinnar hv. þm. Kjartan Ólafsson. 1979-1980, þ.e. veturinn 1979-1980, voru haldnir alls fimm fundir og formaður nefndarinnar var kjörinn hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Ég var hins vegar varaformaður nefndarinnar og stýrði sumum þessum fundum eftir að hv. þm. Hjörleifur varð ráðherra. 1980-1981 voru haldnir 12 fundir og formaður nefndarinnar var hv. þm. Skúli Alexandersson. 1981-1982 var haldinn 21 fundur og formaður nefndarinnar var hv. þm. Skúli Alexandersson. 1982-1983 voru haldnir átta fundir. Þá var formaður nefndarinnar hv. þm. Skúli Alexandersson. 1983-1984 voru haldnir 12 fundir í nefndinni og ég var formaður hennar. 1984-1985 voru líka haldnir 12 fundir í nefndinni og ég var formaður nefndarinnar.

Ég held að það sé fullmikið sagt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni þegar hann talar hér um slóðaskap í vinnubrögðum eða vanrækslu. Þetta er eðlileg fundatíðni; eðlileg málsmeðferð í hvívetna og gott samstarf í nefndinni. Ég er að vísu ekki að fullyrða að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi ekki ýtt á að þessi mál væru tekin fyrir. Ég man það ekki svo gjörla og hef ekki í höndum málaskrána sem færð var og hef einungis í höndum fundargerðabókina þannig að ég get ekki fullyrt um það og hef ekki heldur í höndum þingskjölin þar sem við merktum á athugasemdir okkar í nefndinni. Hins vegar get ég fullyrt að ég mun kappkosta að hafa góð vinnubrögð í þessari nefnd, eins og áður, nú í vetur og gott samstarf við hv. stjórnarandstæðinga ekki síður en stjórnarsinna. Ég get rifjað það upp fyrir hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að á síðasta þingi var tæplega hægt að tala um mikinn annatíma frá jólum og fram eftir vetri. Hins vegar var mikill annatími á s.l. vori. Ég tel að ekkert hafi komið hér fram sem réttlæti ásakanir hv. þm.