25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ég vænti þess að þessar umræður þurfi ekki að lengjast mjög. Nú hefur hv. 2. þm. Norðurl. v., formaður iðnn., gert nokkra grein fyrir því hvað hann hyggst starfa í vetur og ég vona að orð hans verði tekin alvarlega um það að hann muni vinna vel og skipulega og leysa sem allra best úr málum sem til nefndar hans kunna að berast. Ég vil líka geta þess að samkvæmt nýrri 11. gr. þingskapa er forsetum ætlað að hafa umsjón með starfi þingnefnda. Það er nýtt ákvæði í þingsköpum að svo ákveðið sé til orða tekið um völd forseta. Ég vona að það verði einnig til þess að forsetar neyti þessa valds síns og hafi sem allra mest eftirlit með nefndum og viti hvernig þingmálum reiðir af í hverri nefnd.