25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

Um þingsköp

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Málið snýst ekki fyrst og fremst um hversu marga fundi hv. þm. Páll Pétursson heldur í iðnn. Það snýst ekki síður um til hvers þeir eru haldnir. Ég vil taka fram í þessu sambandi að það var ekki skortur á því að haldnir væru fundir í nefndinni sem orsakaði það að á sjötta mánuð voru þessi mikilvægu mál ekki tekin fyrir. Það voru haldnir hvorki meira né minna en sjö fundir í iðnn. þessarar hv. deildar eftir að t.d. frv. um jarðhitaréttindi var vísað til iðnn. og þangað til hv. þm. Páli Péturssyni þóknaðist að taka málið fyrir sem hafði verið vísað til nefndarinnar. Hann hélt sjö fundi í iðnn., án þess að taka málið fyrir, án þess að taka málið á dagskrá, eftir að því hafði verið vísað til hans. Það er ekki einu sinni afsökun sem kemur að gagni í þessu sambandi að það hafi skort á fundi í nefndinni.

Það var haldinn fundur 9. nóv. Þá var þetta mál ekki tekið fyrir. 22. nóv., 23. nóv., 26. nóv., 27. nóv. og 18. des. og 14. des. Allan þennan tíma, í öll þessi sjö skipti lágu þessi mál fyrir hv. iðnn. án þess að formaðurinn sæi ástæðu til að taka þau á dagskrá. Það þarf ekki aldeilis að gera ráð fyrir að á fyrsta fundi fari mikill vinnutími nefndarmanna í að fjalla um mál sem til þeirra er vísað, heldur er afgreiðslan venjulega sú, eins og allir þm. vita, að á 4-5 mínútum er ákveðið hvert eigi að senda þessi erindi til umsagnar. Það var því ekki tímaskortur sem háði hv. þm. Páli Péturssyni í þau sjö skipti sem nefndin fundaði, heldur eitthvað annað, sem sé sú ákvörðun hans að taka málin ekki fyrir, sem þýddi að það var ekki fyrr en að vori sem umsagnaraðilum gafst kostur á að taka málin til umsagnar frá nefndinni. Að hugsa sér að leggja fram mál í upphafi þings, eins og gert er í fyrra, mál sem búið er að flytja hvað eftir annað hér á þingi, og að nefndinni skuli aldrei, allan veturinn gefast kostur á að taka þessi mál til efnislegrar umræðu! Efnisleg umræða um málið fer að sjálfsögðu ekki fram fyrr en umsagnir eru komnar frá umsagnaraðilum. Slík efnisleg umræða fór aldrei fram, þrátt fyrir að haldnir voru nógu margir fundir í nefndinni til þess að hægt væri að ræða málið sjö sinnum á þeim fimm mánuðum sem liðu. Sök sér ef þetta væri einsdæmi í fyrra, en nákvæmlega það sama gerðist á Alþingi í hitteðfyrra. Þá liðu þrír mánuðir, frá einum og hálfum og upp í þrjá mánuði frá því að málunum var vísað til iðnn. og þangað til nefndinni þóknaðist að taka málið fyrir og ekki heldur þá átti sér stað nein efnisleg umræða um þessi mál á fundum iðnn. Hvorki í fyrra né í hitteðfyrra var fjallað um þessi mál á fundum iðnn. með efnislegum hætti. Sú umfjöllun hefur aldrei farið fram.

Því miður vannst mér ekki tími til þess að fá upplýsingar um hvernig skil hefðu orðið og hvert formaðurinn hefði sent þessi erindi til umsagnar, ekki fullnægjandi, en þó er mjög athyglisvert að einu almannasamtökin sem óskað er eftir að gefi umsagnir og sent hafa umsagnir um jarðhitaréttindi, orku fallvatna og orkulög - hvaða samtök skyldu það vera? Jú, Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands. Það er ekki verið að spyrja Alþýðusambandið, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sveitarfélög. Nei. Í öllum tilvikum, hvort sem fjallað er um jarðhitaréttindi, orku fallvatna eða orkulög, er sótt eftir upplýsingum til Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands. Síðan er aldrei fjallað efnislega um þessar umsagnir hvað þá heldur annað.

Þessi háttur í iðnn. í þessari hv. deild, bæði í fyrra og nú, er til skammar, er nefndinni og formanninum til vansa og það er engin afsökun í þessu máli þó ekki hafi verið haldnir nema tólf fundir í nefndinni annað árið og átta fundir í henni hitt árið.