25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er farinn að hafa hv. þm. grunaða um að þeir séu að tefja dagskrá fundarins þar sem þeir með tilefnislausum árásum og þvættingi héðan úr ræðustólnum koma í veg fyrir að tekið verði til umræðu 5. mál fundarins, álbræðsla í Straumsvík, og 6. mál, stjórnun fiskveiða, sem bæði eru yfrið efni til töluverðra umræðna.

Ég tek öllum upplýsingum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og Sighvats Björgvinssonar, bæði tölulegum og öðrum upplýsingum, með fyllsta fyrirvara. Þeir voru í fyrsta lagi ekki hér á þinginu í fyrravetur og fylgdust lítið með gangi mála. (ÓRG: Hér er nákvæm skrá um þetta mál.) Ég tek ekkert mark á skrám frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. (ÓRG: Þessar skrár eru frá skrifstofu þingsins.) Það er gott. Ég tek mark á skrám frá skrifstofu þingsins.

Það er ekki óvanalegt að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson brúki dónaskap eða kjánaskap eða hvort tveggja. Það er venjan þegar hann skýst hér inn. Mér bregður ekkert við það. Ég vil taka fram að bæði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hafa fullan íhlutunarrétt um hvert mál eru send til umsagnar, í hverja er kallað. Ég vona að við eigum ekki eftir að lenda í neinum árekstrum út af því. Ég held að það hafi verið fullt samkomulag í nefndinni um hvert mál voru send til umsagnar á síðasta þingi.

Af því að hv. þm. vilja láta líta svo út, hv. varaþingmenn, að hér sé um óvanalega meðferð á þmfrv. eða frv. að ræða, að þau verði ekki útrædd í nefndinni, þá er ég hér með málaskrá síðasta þings og þar kemur í Ijós að það þing stóð í 216 daga alls. Afgreidd sem lög voru 87 stjfrv. og 15 þmfrv. Hins vegar urðu ekki útrædd 58 þmfrv. og 18 stjfrv. Í Sþ. og Ed. voru bornar fram samtals 139 þáltill., ekki útræddar 104. Það er því altítt að mál verði ekki útrædd á þingum. Þetta mundu hv. þm. geta kynnt sér ef þeir læsu nægilega vel bækur þingsins.