25.11.1985
Neðri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það var hugmyndin hjá forseta á tímabili í dag að halda fund síðar í dag, þ.e. eftir venjulegan þingfundartíma, en af því getur ekki orðið af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að rekja. En meginástæðan er sú að ákaflega margir þm. verða þá fjarverandi. Auk þess stendur líka þannig á, þegar á reynir, að forseti getur sjálfur ekki sinnt forsetastarfi óslitið. Varaforseti er enginn í deildinni og þannig stendur á fyrir forseta sjálfum að hann þarf að sinna verki nokkru sem ekki getur dregist. En meginástæðan hlýtur þó að vera sú að vegna fjarvista svo margra þm. er þess enginn kostur að halda fund hér eftir kl. 4. Hins vegar verður farið fram á það af minni hálfu við hæstv. forseta Sþ. að haldinn verður fundur í deildinni á morgun, og einnig gerir forseti ráð fyrir að alllangir fundir verði á miðvikudag í hv. þingdeild.