26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

50. mál, rannsóknir við Mývatn

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. beinir til mín þeirri fsp. hvort menntmrh. hyggist fyrir hönd Náttúruverndarráðs höfða mál gegn iðnrh. vegna útgáfu námaleyfis og forræðis um rannsóknir við Mývatn. Nei er svarið. Það stendur ekki þann veg á.

Af ýmsu sem fram hefur komið og einnig í ræðu hv. fyrirspyrjanda nú má helst ráða að hér sé raunar átt við hvort núv. menntmrh. hyggist lögsækja fyrrv. iðnrh. Ef við það er átt, þá stendur heldur ekki þann veg á, enda veit ég ekki til þess að sá maður hafi brotið neitt af sér.

En hér er um hina svokölluðu Mývatnsdeilu að tefla sem þetta mál snertir. Ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á að Gaukur Jörundarson er ekki dómstóll í landinu þannig að þótt álitsgerð hans liggi fyrir liggur ekkert fyrir um niðurstöður um forræði Náttúruverndarráðs á svæðinu né heldur hans álit sjálfs, hv. fyrirspyrjanda.

En það er frá því að segja að það hafa að kalla tekist sæmilegar sættir í þessu máli við Mývatn norður. Aðalmálið er að menn hafa orðið sammála um að rannsaka hið fyrsta áhrif kísilgúrnámsins og starfrækslu Kísiliðjunnar við Mývatn og fá niðurstöður um hvort starfsemin er skaðvænleg lífríkinu við Mývatn. Ég held að allir sem eiga hlut að þessu máli séu einhuga um að komi það í ljós að starfsemi Kísiliðjunnar sé hættuleg vegna lífríkis Mývatns og Laxársvæðisins verði Kísiliðjan að víkja með starfsemi sína.

En eins og ég segi: ég held að kalla megi að nú sé sæmileg kyrrð yfir þessum vötnum, að þeir ungu menn sem til þess hafa verið kvaddir af hálfu iðnrn. og einnig Rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn hafi náð höndum saman. Með því sem boði Náttúruverndarráðsins um tilnefningu manna í verkefnisstjórn rannsóknarstöðvarinnar var tekið og tveir ungir menn, Tumi Tómasson og Hákon Aðalsteinsson, hafa tekið sæti í þeirri nefnd, held ég að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að þessir aðilar vinni ekki vel saman. Og það er aðalatriði að rannsóknum þessum skili hratt fram. Menn ætla að þeim ætti að verða lokið innan þriggja ára og beinast, eins og ég sagði, að því fyrst og fremst að fá vísindalega niðurstöðu um starfsemi Kísiliðjunnar.

Það tókst, sem ekki hafði áður tekist, að fá fjármuni til framkvæmda þessara, rannsóknanna, fjárhæð sem nemur um 2,7 millj. kr. árlega, þ.e. gengistryggt fé þar sem miðað er við 2 bandaríkjadollara af hverju framleiddu hráefnistonni frá Kísiliðjunni sem hefur verið 25-27 þús. tonn árlega. Í ellefu ára starfssögu rannsóknarstöðvarinnar höfðu smámunir einir hrotið af borðum fjárveitingavaldsins til verkefnisins, en nú er þetta fjármagn tryggt. Og það er tryggt. Enda þótt í ljós komi að Kísiliðjan hafi ekki skaðvænleg áhrif á lífríkið verður henni gert að greiða áfram þessa fjármuni og munu þeir þá renna til áframhaldandi rannsókna sem stunda verður á Mývatns- og Laxársvæðinu. Þannig hefur það hafst upp úr krafsinu í fyrsta skipti að nokkrir fjármunir, allverulegir fjármunir, eru til verkefna tryggðir, fyrir utan að Náttúruverndarráð fékk aukafjárveitingu til að sinna þessum verkefnum einnegin á þessu ári.

Málaferli fyrir mitt frumkvæði koma ekki til neinna greina þarna. Ég skal ekkert um það segja hvort Náttúruverndarráð sjálft hefur efni og aðstæður til að hefja málsókn þessa vegna. Ég held að aðalatriðið sé að menn hafi orðið ásáttir um hvernig að þessu mikilvæga verkefni skuli unnið, en ætli nú að varpa fyrir róða öllum þrætum um aukaatriði í þessu sambandi.