26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

60. mál, alþjóðasamningur um afnám mismununar gagnvart konum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið varðandi Jafnréttisráð vil ég geta þess, sem hefur komið fram, að það dróst að skipa Jafnréttisráð vegna þess að tilnefningar í ráðið bárust seint. Það stóð lengi á BSRB sem hafði sínar afsakanir fyrir því en sendi tilnefningu í síðustu viku. Og núna 20. þ.m. var ráðið skipað og var gefin út um það opinber tilkynning. Það er þannig skipað að Ólöf Pétursdóttir héraðsdómari hafði verið skipuð af Hæstarétti og hún er formaður ráðsins. Varamaður hennar er Guðjón Steingrímsson hrl. Aðrir í ráðinu eru Gerður Steinþórsdóttir sem er skipuð af félmrh. og varamaður hennar Ingibjörg Pálmadóttir hjúkrunarfræðingur á Akranesi. Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur er skipuð af Alþýðusambandi Íslands og varamaður hennar Jóhannes Sigurgeirsson framkvæmdastjóri. Sigurveig Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur er skipuð af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og varamaður hennar Guðrún Árnadóttir meinatæknir. Ingibjörg Magnúsdóttir húsmóðir er skipuð af Kvenfélagasambandi Íslands og varamaður hennar Magdalena Ingimundardóttir gjaldkeri. Esther Guðmundsdóttir þjóðfélagsfræðingur er skipuð af Kvenréttindafélagi Íslands og varamaður hennar Arndís Steinþórsdóttir viðskiptafræðingur. Og Kristján Þorbergsson lögfræðingur er skipaður af Vinnuveitendasambandi Íslands og varamaður hans er Guðrún Lárusdóttir útgerðarmaður.

Mér þótti rétt að þetta kæmi fram í umræðu til þess að taka af allan misskilning.