26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

95. mál, rannsókn vímuefnamála

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 105 hefur hv. 1. landsk. þm. borið fram fsp. til mín um rannsökn og úrslit vímuefnamála. Fyrri spurningin hljóðar svo: „Hefur ríkisstj. í hyggju að rýmka heimildir til rannsóknar vímuefnamála?" Þessu er til að svara:

Ef fyrirspyrjandi á við hvort fyrirhugað er að breyta ákvæðum laga um meðferð opinberra mála í þá veru að setja sérstakar og víðtækari heimildir í réttarfarslög til rannsókna fíkniefnamála en annarra sakamála er því til að svara að svo er ekki. Þetta hefur verið til athugunar sérstaklega í ráðuneytinu og m.a. rætt við réttarfarsnefnd. Niðurstaðan varð sú að almennt væri óheppilegt að setja sérstakar heimildir í lög til að rannsaka einstaka brotaflokka. Því má síðan við bæta að það hefur ekki komið fram að lagaheimildir hafi skort til þess að hægt væri að sinna rannsóknum á þessu sviði eins og æskilegt væri.

Ég vil einnig andmæla því að engin samvinna sé í þessum málum milli aðila sem að þessu vinna. Skipuð var nefnd til að fjalla um bætt skipulag á þessum málum og hún skilaði áliti fyrir nokkru síðan. Í samræmi við það var komið á skipulagðara samstarfi á milli aðila, bæði á milli lögregluumdæma og tollgæslu og ég hygg að þann árangur sem hefur orðið af starfi lögreglunnar að undanförnu megi að nokkru leyti rekja til þess samstarfs.

Síðari spurningin hljóðar svo: „Hefur svokölluðum sáttamálum (þ.e. að málum ljúki með sektum) vegna vímuefna fækkað?" Svarið er: Undanfarin fimm eða sex ár hefur fjöldi mála hjá sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum sem lokið hefur verið með dómsátt verið svipaður, þ.e. frá 220-260 málum hefur verið lokið með dómsátt á ári. Raunar má segja að fjöldi dómsátta hafi verið svipaður frá árinu 1977 að árinu 1979 undanskildu þegar dómsáttir voru aðeins 185. Í dag hafa á þessu ári verið gerðar 250 dómsáttir vegna fíkniefnamála þannig að reikna má með að fjöldi þeirra á þessu ári verði mjög svipaður og hann var árið 1977.