26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

95. mál, rannsókn vímuefnamála

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á síðast liðnum vetri var gerð nokkur skipulagsbreyting á rannsóknarlögreglu ríkisins. Þar var skipuð sérstök deild til þess að fjalla um efnahagsbrot og bætt við starfsmönnum í hana. Hún tók þegar til starfa og hefur unnið ötullega að slíkum málum síðan og kann orðið vel til verka að því er mér er tjáð. Þetta samhenta starfslið fékk þegar í stað þetta svokallaða okurmál, sem mest hefur verið rætt um að undanförnu, til meðferðar og komið hefur fram í fjölmiðlum að þar hafi verið rösklega unnið. Ég óskaði eftir að fá rannsóknarlögreglustjóra á minn fund fljótlega eftir að starfið byrjaði til þess að fá upplýsingar um hvernig horfur væru á að þetta verk ynnist. Hann hafði góðar vonir um að því yrði lokið fyrir áramót. Nú í dag ræddi ég aftur við vararannsóknarlögreglustjóra. Hann staðfesti að málið gengi vel og líkur væru til þess að unnt væri að ná þessu marki, að því væri að mestu leyti lokið fyrir áramót. Það sýnir ótvírætt að þarna er vel að verki staðið, þegar um er að ræða sennilega á annað hundrað manns sem þarf að yfirheyra.

Ég hef ekki fengið frekari upplýsingar um það hvort þessu fjármagni hefur verið varið til fíkniefnanota eða kaupa, en það mun vitanlega koma í ljós þegar þessari rannsókn er lokið, sem ég hygg að við hljótum öll að vera sammála um að horfur eru á að ljúki fyrr en við höfum þorað að vona, vegna þess hvernig þarna var búið að skipuleggja starfsemina hjá rannsóknarlögreglu ríkisins.

Ég veit ekki hvernig á því stendur að hv. 1. landsk. þm. segist ekki trúa mínum orðum um þær opinberu tölur sem ég las hér upp um dómsáttir. Og þegar ekki hafa borist kvartanir um að það vanti lagaheimildir til þess að standa að rannsókn mála þá sé ég ekki hver ástæða er til að fara að breyta þar um. Hins vegar get ég bætt því við að í ráðuneytinu hefur verið rætt um að reyna að lagfæra að einhverju leyti skipulag á gangi fíkniefnamála þannig að þau gætu gengið hraðar og beinna fyrir sig, án þess vitanlega að þar verði nokkuð um lakari vinnubrögð að ræða.