26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

102. mál, húsnæðislán vegna einingahúsa

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 112 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. svohljóðandi:

„1. Hvenær tóku gildi breyttar reglur um úthlutun húsnæðislána vegna einingahúsa?

2. Hvers vegna samþykkti ráðherra þessar breytingar þegar fyrir lá eindregin andstaða við þær innan allra þingflokka á Alþingi, sbr. þáltill. á þskj. 135 á síðasta þingi?

3. Hefur verið tekin ákvörðun um endurskoðun núgildandi úthlutunarreglna með tilliti til fenginnar reynslu?"

Forsaga þessa máls er í örstuttu máli sú að árið 1977 voru teknar upp úthlutunarreglur húsnæðislána sem miðuðu að því að jafna aðstöðumun þeirra sem kaupa einingahús og þeirra sem byggja á hefðbundinn hátt. En eins og flestum er kunnugt eru þessar tvær byggingaraðferðir um margt ólíkar. Tímans vegna verður að nægja að nefna að byggingartími einingahúsa er í flestum tilfellum mun skemmri en byggingartími húsa með hefðbundnum hætti. Nú og enn fremur að fokheldisstig eru engan veginn sambærileg þar eð einingahús eru mun lengra á veg komin þegar þau teljast fokheld en hús byggð með hefðbundnum hætti. Í september 1984 samþykkti svo húsnæðismálastjórn að úthlutun lána vegna einingahúsa skyldi breytt frá síðustu áramótum og yrðu þau greidd út á jafnlöngum tíma og lán vegna hefðbundinna húsa. Virtist þá sem menn væru alveg búnir að gleyma ástæðunum fyrir þeim reglum sem gilt höfðu í rúm sjö ár og höfðu að flestra mati reynst vel og m.a. átt sinn þátt í uppbyggingu einingahúsaiðnaðar um allt land.

Ég kynnti mér þessi mál eftir ábendingu og spurðist fyrir um þau hér á þingfundi fyrir rúmu ári. Við umræður þá kom í ljós mikill áhugi á þessu máli í öllum þingflokkum og eindregin andstaða við það að úthlutunarreglunum yrði breytt. Virtist hæstv. félmrh. fús til þess að beita áhrifum sínum til þess að svo yrði ekki. Til þess að undirstrika enn frekar vilja Alþingis í þessu máli lögðum við þm. úr öllum þingflokkum fram till. til ályktunar um það að fela félmrh. að sjá til þess að samþykkt húsnæðismálastjórnar næði ekki fram að ganga. Meðflutningsmenn mínir voru hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, Eiður Guðnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Helgi Seljan og Kolbrún Jónsdóttir. Þetta er sem sagt á engan hátt flokkspólitískt mál.

Tillagan kom raunar aldrei úr nefnd enda þrýstum við ekkert sérstaklega á að svo yrði, töldum raunar víst að málinu væri borgið. En viti menn, í sumar fréttist svo að nú hefðu menn drifið í því að breyta reglunum og því miður láta áhrifin ekki á sér standa. samdráttur í framleiðslu einingahúsa hefur orðið langt umfram það sem eðlilegt má teljast.

Herra forseti. Enda þótt tillaga okkar væri ekki samþykkt formlega á þingfundi tel ég að í þessu máli hafi verð breytt gegn vilja Alþingis og óska skýringa á því.