26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

102. mál, húsnæðislán vegna einingahúsa

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin sem ég var bæði ánægð með og undrandi yfir reyndar líka, því mér heyrðist hann lýsa því yfir að þarna hefðu tekið gildi reglur sem hann hefði ekki samþykkt og mundi ekki gera. Ég átta mig nú ekki á því hvers vegna þær reglur, sem í gildi voru og áttu að vera í gildi, eru þá ekki í gildi enn þá úr því að ráðherra hefur ekki samþykkt nýjar reglur.

Það þarf varla að minna hv. þm. á að hér er um nokkuð margslungið mál að ræða. Þessi byggingarmáti hefur auðveldað mörgum að koma sér upp húsnæði einmitt vegna hins skamma byggingartíma. Hér er þó ekkert síður um atvinnumál og byggðamál að ræða. Einingahúsin eru framleidd á mörgum stöðum á landinu og sá samdráttur sem þegar er orðinn, m.a. að margra mati vegna þessara breyttu reglna sem hafa dregið kraft úr starfseminni, er verulegt áhyggjuefni, eins og ráðherra kom inn á hér áðan. Mér er sagt að mörg þeirra fyrirtækja sem undanfarin ár hafa verið að byggjast upp úti um land séu nánast lokuð og eygi lítið fram undan, búið sé að segja upp starfsfólki og fleiri uppsagnir yfirvofandi.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh. að þetta mál væri í athugun. Ég vil hvetja til þess að þeirri athugun verði mjög hraðað, því það virðist sem skaði sé þegar skeður. Ég samsinni því að það er nauðsynlegt að ná góðu samkomulagi um þessi mál og það þarf auðvitað ekkert endilega að binda sig við þessar sömu gömlu reglur ef menn eru ekki sáttir við þær. En það verður þá að finna nýjar sem taka fullt tillit til sjónarmiða allra þeirra sem hér hafa hagsmuna að gæta. Ég vil hvetja til þess að þetta mál fái mjög gaumgæfilega og skjóta athugun.