26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

147. mál, þjóðminjalög

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Nefnd sem menntmrh. skipaði í desember 1981 til að endurskoða þjóðminjalög skilaði í desember 1983 nefndaráliti ásamt tillögum að þjóðminjalögum eins og fram hefur komið.

Samband íslenskra sveitarfélaga, sem fékk tillöguna til umsagnar, lagði til í bréfi, dagsettu 30. nóvember 1984, að frumvarpsdrögin yrðu tekin til, eins og þar sagði, endurskoðunar og einföldunar áður en frv. yrði lagt fram á Alþingi. Í drögum að umsögn, eins og það hét, frá formanni sambandsins Birni Friðfinnssyni, gerði hann ýmsar athugasemdir einkum um mikla yfirbyggingu, eins og þar sagði, er gert sé ráð fyrir í tillögum nefndarinnar. Með hliðsjón af framangreindum brtt. fól fyrirrennari minn Þór Magnússyni þjóðminjaverði og Birni Friðfinnssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, með bréfi dagsettu 27. ágúst s.l. að endurskoða frv. nefndarinnar. Það er stefnt að því að þeirri endurskoðun verði lokið innan tíðar og ég mun kappkosta að þetta frv. fái að sjá dagsins ljós á hinu háa Alþingi svo fljótt sem kostur er.