26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

Veiðar smábáta

Árni Johnsen:

Herra forseti. Alvarlegir atburðir eiga sér stað um þessar mundir vegna veiðistöðvunar smábátaflota landsmanna. Trillukarlar lokuðu Reykjavíkurhöfn og gamalgróinn trillukarl á Akranesi, sem reri í banni, braut lög í nauðvörn gegn aðför að lífsafkomu trillukarla, eins og hann orðaði það í samtali við Morgunblaðið í dag.

Það er engin tilviljun að slík atvik komi upp því hundruð fjölskyldna í landinu eiga afkomu sína undir trilluútgerð og veiðibann í margar vikur og jafnvel mánuði er alvarlegt fyrir afkomu þessa fólks, að ekki sé talað um að jólamánuður er nú að ganga í garð.

Smábátar undir 10 brúttólestir eru nú liðlega 1000 talsins, þar af um 850 opnir og 150 dekkbátar, þilfarsbátar. Láta mun nærri að 400 einstaklingar og fjölskyldur hafi framfæri sitt að langmestu leyti af trilluútgerð, eða 3-4000 manns þegar allt er í fullum gangi. Smábátum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum, úr 600 árið 1979 í liðlega 1000 nú. Aflahámarkið sem smábátaflotanum var ætlað á þessu ári, 10 000 tonn, er nú komið í 22 000 tonn af þorski, en reglur fyrir trillusjómenn hafa verið mjög illa samræmdar miðað við annað í þeim efnum. T.d. hefur ekki verið gerður greinarmunur á atvinnumönnum og áhugamönnum, ekki heldur á netaveiði smábáta og veiði á krók og mikil aukning smábátaflotans hefur lækkað verulega viðmiðun afla hvers báts.

Reglugerð um stjórnun fiskveiða þessa árs hefur gert ráð fyrir 10 tonna meðalafla á hvern bát yfir árið. Engin fiskveiði er hins vegar eins háð veðri og trilluútgerð og allar reglugerðir um stjórnun á sókn slíkra báta eru í rauninni ómarktækar vegna þess hve veðrið spilar inn í. Þess vegna er eðlilegt að taka mun meira tillit til trilluútgerðar en gert hefur verið við skerðingu á aflamagni á meðan við búum við það neyðarbrauð. Auðvitað er óhjákvæmilegt að klípa af þeim eins og öðrum, en það þarf að gera á þann hátt að aðgengilegt sé fyrir þau hundruð fjölskyldna landsins sem málið varðar mest.

Stöðvun á veiði smábáta í allt að þrjá mánuði gengur einfaldlega ekki upp. Í Grímsey, svo dæmi sé nefnt, er 21 bátur. Þar af er einn 29 tonn, þrír 11 tonn og hinir undir 10 tonnum. Trillusjómenn um allt land telja sjálfsagt að lúta takmörkun meðan afli er ónógur þótt það sé almenn skoðun víða að veiðar á krók eigi að vera undanþegnar kvóta.

Vandinn sem blasir við í dag er atvinnuleysi trillukarla en að mínu mati hefur hæstv. sjútvrh. svigrúm til þess að leysa að hluta þann vanda. Í reglugerð um stjórn botnfiskveiða 1985 í III. kafla, þar sem fjallað er um botnfiskveiðar minni báta, segir a eftir töflu um áætlaðan afla á fjórum veiðitímabilum ársins, með leyfi forseta:

„Fari afli báta undir 10 brúttólestum fram úr ofangreindum mörkum á ákveðnu tímabili er ráðuneytinu heimilt að stöðva veiðar þeirra um sinn.

Hafi veiðar báta verið stöðvaðar á síðasta tímabili, sbr. 1. mgr., getur ráðherra leyft flutning á aflamarki af bátum 10 brúttólesta og stærri til báta minni en 10 brúttólestir samkvæmt reglum 20. gr., eða úthlutað ákveðnu aflamarki til þeirra, þó ekki meira en 1000 lestum samanlagt, enda sé viðkomandi bátum haldið úti til veiða í atvinnuskyni allt árið.“

Hvorugt þessara ákvæða hefur ráðherra notað, hvorki að leyfa smábátum að nýta ónotaðan kvóta stærri báta, né að taka sérstakt tillit til báta sem gerðir eru út í atvinnuskyni allt árið. En þetta ákvæði kom inn í lögin í sjútvn. Ed. á síðasta þingi með tilliti til munar á atvinnumennsku og áhugamennsku í smábátaútgerð. Auk þessara möguleika tel ég vel athugandi að leyfa smábátum að sækja sjó í 10-l2 daga sjálfvalda fram til áramóta með því að tilkynna sig í upphafi og enda róðurs. Slíkt myndi leysa margra vanda en þýða litla aflaaukningu, en reikna má með að aðeins 30-40% trillusjómanna myndu nýta slíkar heimildir.

Mér finnst ástæða til þess að biðja hæstv. sjútvrh. í erfiðri stöðu að athuga þetta mál á þessum nótum.