26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

Veiðar smábáta

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mönnum hefði sjálfsagt þótt skrýtið á þeim tíma sem landhelgisgæslan okkar var að slást við Bretann að það mundi verða hlutskipti hennar að fara inn í Hvalfjarðarmynni og sækja þangað trillu og færa hana til hafnar og leita síðan eftir því að eigandi hennar og skipstjóri verði sóttur til saka og sé færður sem glæpamaður fyrir rétt. Það er ansi mikil öfugþróun sem hér hefur átt sér stað.

Ég held, eins og hv. þm. Stefán Benediktsson sagði áðan, að það hafi verið búið til vandamál með þeirri lagasetningu og reglum sem hér hafa verið settar í sambandi við veiðar smábáta.

Ég vil mótmæla aðgerðum eins og banninu á smábátana sem beitt er án þess að í einu eða neinu hafi verið haft samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis. Þó er skýrt tekið fram í lögunum um stjórn fiskveiða að það skuli gert. Hæstv. sjútvrh. hefur ekki haft fyrir því seinni hluta árs að ræða þessi mál í einu eða neinu við sjútvn. Alþingis.

Það er eins og tíðarfarið sé að leika sér eða gera grín að þeim samþykktum sem gerðar hafa verið á hv. Alþingi. Yfirstandandi ár hefur verið sérstakt gæftaár. Vestur á Hellissandi fór trilla 25 róðra stanslaust í febrúar. 25 róðra! Hvenær ætli það hafi skeð áður? Fyrir það að í ákveðnum landshlutum eru gæftir og góður afli skal taka aðra landshluta og dæma þá úr leik og einnig þá menn sem hafa notið þeirra kjara að geta stundað sjó eins og var í fyrravetur vegna góðra gæfta. Það er skrýtið. Á síðustu vikum, meðan smábátarnir höfðu heimild til að sækja sjó með allra mildilegustu leyfi hæstv. sjútvrh., voru ekki nema mjög fáir gæftadagar. Þessum mönnum, sem voru skammtaðir ákveðnir dagar, var sem sagt meinað að stunda sjó og í vissum tilfellum sóttu þó sjó við mjög erfiðar aðstæður og hættulegar vegna þess skipulags sem var búið að ákveða og binda þá við.

Hvað skeður svo eftir að búið er að setja bann á þennan kvóta? Það er eins og máttarvöldin séu að gera grín að hv. þingi og ráðherranum. Það er blíðuveður dag eftir dag og smábátarnir gætu sótt fisk í sjó nú á hverjum einasta degi, en þeir eru dæmdir úr leik vegna þeirra laga og þeirra reglna sem hér hafa verið sett.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. sjútvrh., sem hann lét falla í lok ræðu sinnar áðan, að það mundu verða heimilaðar línuveiðar á smábátum strax eftir áramót, en ég minni á og tek undir orð hv. þm. Valdimars Indriðasonar að í reglunum frá fyrra ári er einmitt svipuð heimild, heimild til smábátanna að mega kaupa kvóta. Það hefði verið æskilegt að gefið hefði verið loforð á sama tíma í fyrra um að við það yrði staðið. Ég skora á hæstv. sjútvrh. að standa við þá heimild og gefa smábátunum tækifæri til að halda áfram að fiska fram eftir mánuðinum.