22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

31. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi bar ég fram fsp. þann 23. okt. til hæstv. þáverandi menntmrh. um það hvort undirbúningur væri hafinn að því að semja frv. til laga um lögverndun starfsheitis grunnskólakennara á vegum ráðuneytisins. Í byrjun sama þings kom jafnframt fram frv. um sama efni frá þremur þm. stjórnarandstöðuflokka.

Hæstv. menntmrh. svaraði fsp. minni á þá leið að ráðuneytið hefði þegar farið þess á leit við Bandalag kennarafélaga að tilnefna þrjá menn í nefnd til að undirbúa ásamt starfsmönnum ráðuneytisins frv. til laga um lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara og framhaldsskólakennara. Jafnframt sagði hæstv. ráðherra að hún vænti þess að ekki liðu margir dagar áður en slíkt frv. yrði tilbúið. Þessi nefnd var síðan skipuð 24. október og hefur verið að störfum síðan, þótt með einhverjum hléum hafi verið.

Fyrirspurnum um störf þessarar nefndar var síðan ítrekað beint til hæstv. menntmrh. þegar kjaramál kennara komu til umræðu hér oftlega á síðasta þingi. Síðast var þetta mál til umræðu þann 19. júní og kom þá í ljós að málið var í biðstöðu og óafgreitt og hæstv. menntmrh. gaf engin loforð um framgang málsins.

Ég þarf ekki að lýsa því fyrir hæstv. núverandi menntmrh. né heldur hv. þm. hve brýnt hagsmunamál það er fyrir kennara að fá starfsheiti sitt lögverndað, svo miklar umræður hafa orðið um það mál hér á þingi og í þjóðmálaumræðunni almennt, og mörg erindi þess efnis verið send frá kennarasamtökum til þm.

Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvað líður störfum þeirrar nefndar sem menntmrh. skipaði haustið 1984 til að semja frv. um lögverndun á starfsheiti kennara?

Í öðru lagi spyr ég: Hvenær má vænta þess að nefndin ljúki störfum og frv. verði lagt fram?