26.11.1985
Sameinað þing: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

Veiðar smábáta

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil benda á að fjölmargir sjómenn um allt land og allmörg skip hafa þegar lokið við að veiða heimilt magn og hafa þess vegna þurft að sæta verulegum stöðvunum.

Nú er það svo að í þessu máli eru mjög skiptar skoðanir og það heyrir maður mjög gjarnan í viðræðum við trillusjómenn. Það fer mjög eftir landshlutum. T.d. er yfirleitt aldrei róið á litlum bátum á Vestfjörðum á bilinu nóvember-desember-janúar-febrúar. Það kemur nánast ekki fyrir. Ef einhver landshluti hefur farið illa út úr þessu að því er varðar trilluútgerðina er það Norðurland. Þar hefur afli verið miklu minni en alls staðar annars staðar. Aðrir landshlutar hafa haft verulega meira magn en á s.l. ári þannig að Norðlendingar hafa farið langverst út úr þessu. Þar af leiðandi hefði ekki verið síður ástæða til að fella niður áður ákveðnar stöðvanir í sumar á Norðurlandi, t.d. um verslunarmannahelgina. Ég vil benda á þetta.

Eitt vil ég einnig benda á, að það er þrátt fyrir allt mikil ásókn í þessa útgerð. Það eru margir að smíða báta og þar ríkir mikil bjartsýni. Það kemur ekki heim og saman við þau ummæli að verið sé að leggja allt í auðn í þessari útgerð. Það er mikil fjölgun báta og það eru margir sem hringja þessa dagana og spyrja hvort það sé ekki alveg öruggt að menn geti smíðað þennan flokk báta sem var uppistaðan í okkar flota, þessi stærð báta, fyrir eins og 40 árum. Eftir þær tækniframfarir sem hafa orðið með rafmagnshandfærarúllur o.s.frv. hafa þessir bátar meiri möguleika en af er látið.

Einnig vil ég geta þess að þeir bátar sem stunda veiðar hér á Faxaflóa sækjast fyrst og fremst eftir því að stunda netaveiðar. Það eru mörg dæmi þess að net lágu úti í óveðrinu fyrir stuttu og það var ekkert geðslegt sem upp úr þeim kom eftir það óveður. Það er erfitt að stunda netaveiðar af þessari stærð báta á þessum tíma.

Ég veit að hér er um umdeilt mál að ræða, en aðalatriðið er að sjómenn sitji við svipað borð og það sé jafnræði í þeim takmörkunum sem menn þurfa að sætta sig við meðan á takmörkunum stendur. En auðvitað er best ef til þeirra þyrfti alls ekki að koma.