22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

31. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Samtök kennara hafa lengi haft á stefnuskrá sinni það sem kallað hefur verið lögverndun starfsheitis kennara. S.l. haust skýrði þáverandi menntmrh. forsvarsmönnum samtakanna frá því að hann væri reiðubúinn að skipa nefnd fulltrúa tilnefndra af kennarasamtökunum til þess að starfa með fulltrúum ráðuneytisins að því að gera tillögur að frv. um lögverndun starfsheitis kennara.

Nefndin var skipuð í október 1984 og í henni eiga sæti: Hörður Lárusson deildarstjóri, Hanna Kristín Stefánsdóttir kennari, Kristján Bersi Ólafsson skólameistari, Kristín Tryggvadóttir kennari, Sigurður Helgason deildarstjóri og Sólrún Jensdóttir skrifstofustjóri og er hún formaður nefndarinnar.

Í viðræðum menntmrh. við forustumenn kennarasamtakanna hafði oft komið fram að ráðherra vildi vinna að framgangi lögverndunar starfsheitis grunnskólakennara og framhaldsskólakennara með sama hætti og starfsheiti bókasafnsfræðinga hafði verið lögverndað með samþykki Alþingi í maí 1984.

Í umræðum á Alþingi 12. mars 1984, þegar menntmrh. þáverandi mælti fyrir frv. til laga um bókasafnsfræðinga, sagði ráðherra að ekki væri um það að ræða að þetta frv. fjallaði um starfsréttindi heldur einungis réttindi til að nota þetta starfsheiti. Þegar nefnd skipuð fulltrúum kennarasamtakanna og fulltrúum menntmrn. hóf störf varð fljótt ljóst að kennarar höfðu ekki áhuga á lögverndun starfsheitis sambærilegt við það sem bókasafnsfræðingar höfðu hlotið. Þeir vildu aukna verndun starfsréttinda sinna, en starfsréttindi kennara njóta þegar lögverndunar sbr. lög um embættisgengi kennara og skólastjóra nr. 51/1978.

Þegar þessi afstaða kennara varð ljós heimilaði ráðherra fulltrúum ráðuneytisins í nefndinni að kanna hvort unnt væri með viðunandi hætti að ná samkomulagi um ein lög þar sem bæði væri kveðið á um starfsheiti og starfsréttindi. Leituðust nm. við að finna leið sem gerði mögulegt að verða við óskum kennara um aukna verndun starfsréttinda án þess að skólastarfi í landinu væri stefnt í hættu sökum kennaraskorts.

Nefndin hefur ekki lokið störfum og drög að væntanlegum tillögum hennar til menntmrh. bárust mér í hendur í gær og geta ekki orðið til umræðu af minni hálfu nú í dag.

Að ósynju hef ég ekki ástæðu til að ætla að afstaða mín verði öðruvísi til þessa máls en fyrirrennara míns en vil þó ekkert um það fullyrða að svo komnu. Ég er ekki fær um að svara öðrum lið þessarar fsp., um hvenær nefndin muni ljúka störfum og hvenær frv. verði lagt fram, en ég mun kappkosta að þetta mál nái sem fyrst fram að ganga eða úrlausn málsins sem þá mundi koma með einhverjum hætti til framlagningar eða umræðu hér á hinu háa Alþingi.