27.11.1985
Efri deild: 19. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

150. mál, sóknargjöld

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80 2. júlí 1985, um sóknargjöld.

Í athugasemdum frv. kemur fram að ríkisskattstjóri telur að ekki séu nægilega skýr ákvæði í fyrrnefndum lögum til að leggja á sóknargjöld fyrir næsta ár. Lögin eiga að taka gildi um næstkomandi áramót, 1. janúar 1986, en gjaldið skal miðast við tekjur frá fyrra ári, þ.e. frá árinu 1985. Ríkisskattstjóri telur að það þurfi skýrari ákvæði um að nota megi viðmiðun frá árinu 1985 á árinu 1986. Þess vegna er lagt til með 2. gr. þessa frv. að ótvíræð heimild sé fyrir slíku, eins og Alþingi mun að sjálfsögðu hafa ætlast til.

Í 1. gr. er einnig smávægileg breyting á lögunum, þ.e. að í stað þess að sóknargjöld verði birt á sama hátt og útsvar sé eðlilegra að hafa sama hátt á og um þinggjöld þar sem við innheimtu er miðað við ákvæði laga um tekju- og eignarskatt.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.