22.10.1985
Sameinað þing: 5. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

31. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. En ill þykja mér þessi tíðindi, og ég á von á því að kennurum þyki þau enn verri.

Það er reyndar skammarlegt hve illa hefur verið búið að kjörum og virðingu kennarastéttarinnar og brýn nauðsyn á því að kúvenda þeirri stefnu sem hefur ríkt á undanförnum árum í þessum málum.

Hæstv. menntmrh. hlýtur að hafa borið þá vitneskju með sér úr iðnrn. að framtíð þessarar þjóðar byggist ekki síst á því að allir landsmenn hljóti góða almenna menntun. Þess vegna hlýtur hann enn fremur að sjá að til þess þarf kennarastéttin að vera skipuð úrvalsfólki sem þar unir vel við sinn hag. Það er ljóst að þegar ágreiningur er um túlkun á réttindum, þá hlýtur að þurfa að verða millibilsástand og málamiðlun milli þeirra sem þegar hafa kennt lengi en eru réttindalausir og þeirra sem nú krefjast fullrar verndunar á starfsheiti og réttindum sínum.

Ég skora á hæstv. menntmrh. að taka þetta mál nú föstum tökum og tryggja það að hið bráðasta verði lagt fram frv. um lögverndun á starfsheiti kennara, því að við svo búið má ekki lengur una.