27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

145. mál, stjórn fiskveiða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til deildar okkar í þriðja sinn, þriðja þingið í röð, frv. til 1. varðandi stjórnun fiskveiða, nú fyrir árið 1986-1987. Ég ætla hér við 1. umræðu þessa máls að lýsa nokkrum almennum viðhorfum til þeirrar tilhögunar, sem hér er lögð til og verið hefur í gildi með svipuðum hætti í aðalatriðum undanfarin tvö ár, svo og að gefa nokkrar ábendingar varðandi einstaka þætti frv. og víkja að nokkrum áhyggjuefnum sem varða sjávarútveginn almennt og tengjast þeim málum sem við erum hér að fást við.

Ég vil í byrjun rifja það upp að við Alþýðubandalagsmenn vorum að miklum meiri hluta til andvígir þeirri lagasetningu um stjórnun fiskveiða sem innleidd var fyrir árið 1984 og aftur fyrir árið 1985. Raunar var aðeins einn þm. úr okkar liði sem greiddi þessari lagasetningu atkvæði. Þessi afstaða okkar Alþýðubandalagsmanna byggðist á ýmsum forsendum. Afstaða okkar var ekki byggð á sömu ástæðum en leiddi þó til sömu niðurstöðu, að vera andvígir þessari lagasetningu tvö næstliðin ár.

Ég er í hópi þeirra sem hafa lýst fylgi við þá tilhögun, sem þarna var innleidd, efnislega séð, en aðrir þm. í okkar röðum hefðu kosið að taka á stjórnun veiðanna með allt öðrum hætti og hafa gert grein fyrir því við umræður um þetta mál hér á fyrri þingum og á yfirstandandi ári í fjölmiðlum. Ætla ég ekki að fara að tala hér fyrir munn þeirra því að þeir munu að sjálfsögðu gera grein fyrir sinni skoðun út frá þeim forsendum sem þeir leggja til grundvallar afstöðu sinni til þessa mikilvæga máls.

Áður en ég vík nánar að þessu vil ég að fram komi að ég tel það til bóta að þetta frv. varðandi stjórnun fiskveiða kemur nú mun fyrr til þingsins en var á s.l. tveimur árum. Hæstv. ráðherra hefur gert það aðgengilegt þingflokkum fyrir nokkru síðan í drögum. Málið hefur verið til meðferðar hjá samtökum hagsmunaaðila í sjávarútvegi og verið rætt mikið og kynnt. Við stöndum því betur að vígi hvað þetta snertir en t.d. á síðasta þingi og á haustdögum 1983 ekki síst þegar þetta kerfi var innleitt í fyrsta sinn. Þetta er til bóta.

Ég vil einnig taka fram að ég tel að sá búningur, sem þetta mál er hér fært í, sé til talsverðra bóta frá því sem var þegar frv. um svipað efni var lagt hér fyrir þingið síðustu tvö þing og á þar við að þetta frv. er mun ítarlegra og hér eru tekin inn mörg ákvæði sem ekki voru í hinu fyrra frv. og gildandi lögum um þessi mál heldur tekið á því á grundvelli reglugerða af hæstv. ráðherra. Það gildir um margar greinar í þessu frv. að hér eru inn í frumvarpstextann tekin ákvæði sem stýrt hefur verið með reglugerðarákvæðum af hæstv. sjútvrh. á undanförnum árum. Ég tel það vera til verulegra bóta í málsmeðferð að fyrir Alþingi skuli þannig lagt að taka efnislega afstöðu til ákvæða sem ráðherra hafði áður í hendi sér að langmestu leyti, að ákvarða á grundvelli þess mjög svo einfalda lagatexta sem samþykktur var hér í fyrra og hittifyrra og hægt væri í rauninni að þjappa saman í eina setningu, eins og fram var tekið við umræður hér í fyrra af flokksbróður hæstv. sjútvrh., að ráðherrann fari með málefni sjávarútvegsins og setji reglugerðir þar um.

Ég mun víkja að einstökum þáttum hér á eftir en ég vil gera grein fyrir afstöðu minni til þessa stjórnunarkerfis, sem hér er til umræðu, með því að vitna til orða minna hér í umræðunni í fyrra til að það liggi alveg fyrir að andstaða mín við lagasetninguna í fyrra og raunar í hittifyrra einnig byggðist ekki á því stjórnkerfi, sem þarna var verið að innleiða í aðalatriðum varðandi botnfiskveiðarnar, heldur á aðferðinni við lagasetninguna og einstökum þáttum sem þarna var verið að lögleiða, m.a. í sambandi við veiðar minnstu báta undir tíu brúttórúmlestum og fleiri efnisþætti sem þar komu til. Um þetta efni sagði ég í umræðum hér í fyrra:

„Ég vil ítreka það, sem áður hefur komið fram af minni hálfu, að ég er fylgjandi stjórnun á íslenskum fiskveiðum. Ég var og er hlynntur meginstefnumiðum í sambandi við þá fiskveiðistjórnun sem mörkuð var fyrir síðasta ár, þ.e. að miða við aflamark á einstök veiðiskip aðalhluta flotans. Ég er því efnislega hlynntur og samþykkur og talaði fyrir þeirri stefnu þegar málið var hér til umræðu í fyrra. Ég gagnrýndi það þá að of lengi hefðu menn haldið við stjórnunarform sem engan veginn skilaði þeim árangri sem ég hygg að menn hafi ætlast til sem við það héldu, hið svokallaða „skrapdagakerfi“, sérstaklega varðandi togarana.

Ekki var tekið undir tillögur, sem fram komu m.a. frá sérstökum starfshópi á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, sem starfaði á árunum um og fyrir 1980, og lagðar voru fyrir þáv. hæstv. sjútvrh. Steingrím Hermannsson, um að taka upp breytta stjórnun. Ég held að við hefðum verið í mun betri sporum ef þá hefði verið lagt inn á nýjar brautir og farið hægar í sakirnar og reynt að breyta til, ekki síst í sambandi við togveiðarnar, með því að reyna aflamark á togarana eina sér til að byrja með og safna þar reynslu.

Ég er þeirrar skoðunar að aflamarksleiðinni geti fylgt ýmsir kostir til bættra útgerðarhátta og aukinnar hagkvæmni eins og leiddar hafa verið líkur að að tekist hafi á síðasta ári. En ég hlýt að viðurkenna að sú reynsla er mjög stutt og það er hæpið að draga nokkrar algildar ályktanir af þeirri reynslu sem komin er vegna þeirra mörgu óvissuþátta sem þar koma við sögu.“

Þetta læt ég nægja til upprifjunar á máli mínu um þessi efni hér í fyrra til að undirstrika að það er ekki aðferðin við stjórnun veiðanna, sem hefur valdið ágreiningi mínum við hæstv. sjútvrh., heldur aðrir þættir.

Af þeim atriðum, sem nú blasa við, vil ég í fyrsta lagi nefna það - sem er raunar sama eðlis og lá fyrir af minni hálfu og frá okkur flestum Alþýðubandalagsmönnum í fyrra - að við hefðum kosið að Alþingi fjallaði meira með stefnumarkandi hætti um einstaka þætti en gert er ráð fyrir í gildandi lögum og enn í þessu frv. varðandi fiskveiðistefnuna. Við gerðum það að tillögu okkar í fyrra að framkvæmd meginatriða fiskveiðistefnunnar yrði mörkuð með þál. af hálfu Alþingis sem ráðherra síðan útfærði á grundvelli slíkrar viljayfirlýsingar Alþingis í formi reglugerða. Ég er enn þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt af hálfu þingsins að taka á ýmsum þáttum sem ekki er kveðið á um í þessu frv. og enn er á valdi ráðherra að taka á með setningu reglugerða.

Ein af stóru spurningunum, sem við okkur blasa, er um heildaraflamark fyrir þorskstofninn, mikilvægustu botnfisktegundina. Hér liggja fyrir tillögur Hafrannsóknastofnunar um 300 þús. tonna heildarársafla fyrir komandi ár og árið 1987. Ég teldi eðlilegt að Alþingi segði álit sitt á þessu heildaraflamarki, að hér yrði fjallað um það og ákveðið innan ramma þáltill. hvert vera skuli heildaraflamagn botnfisktegundanna, sem háðar eru aflamarki, og á því tekið í ljósi bestu fáanlegra upplýsinga vegna þess að hér er um pólitískt matsatriði að ræða, pólitíska ákvörðun, sem eðlilegt er að þingið hafi skoðun á en láti ekki einvörðungu í hendur hæstv. sjútvrh. að taka ákvörðun um, svo gífurlega þýðingarmikill sem þessi þáttur er fyrir afkomustærðir í okkar þjóðarbúskap.

Við þekkjum það frá síðustu tveimur árum að verulega hefur verið farið fram úr því hámarki þorskafla sem gert var ráð fyrir í byrjun hvers árs. Við getum í rauninni sagt: Sem betur fer hefur það gerst - og á raunar sérstaklega við um yfirstandandi ár að svo hefur farið. Þannig má segja að þessu marki hafi ekki verið haldið til streitu miðað við áform og ákvarðanir í upphafi árs. Þannig má segja að það geti verið æskilegt og eðlilegt að hafa ákveðinn sveigjanleika í sambandi við ákvörðun á slíku heildaraflamarki.

En það munar ekki litlu hvort við það er miðað þegar upp er lagt hvort veidd skuli 300 þús. tonn af þorski yfir árið eða segjum 350 þús. tonn sem ýmsir, sem um þessi mál hafa fjallað og skoðað niðurstöður fiskifræðinga og reynslu af aflabrögðum, telja að komið gæti til greina. Ég vil ekki kveða neitt á um það hér á þessu stigi máls hvað teldist eðlileg viðmiðun í þessu efni. Ég er þess hvetjandi að menn hafi vaðið frekar fyrir neðan sig í sambandi við sóknina í okkar þýðingarmestu fiskstofna.

En ég hygg þó að varðandi þetta heildaraflamark, sem hér er miðað við af hálfu Hafrannsóknastofnunar og gert er ráð fyrir skv. fylgiskjölum með þessu frv., séu menn vel varúðarmegin í þessum efnum og það sé því pólitískt viðfangsefni og matsatriði hvort markið yrði sett nokkru hærra. Það hefði ég talið koma til greina og teldi að ætti að vera viðfangsefni Alþingis að fjalla um í sambandi við ákvarðanir um fiskveiðistefnu og stjórnun fiskveiða fyrir næstu tvö ár, vilji þingið taka á þessu máli ákvarðandi til tveggja ára tíma eins og hér er lagt til.

Ég vil þá víkja að einstökum atriðum hér í frv. sem hér eru tekin inn og ég tel vera til bóta að fá inn í frumvarpstexta fyrir utan það sem ég nefndi hér að í 1. gr. er það verkefni sjútvrh. að ákveða með reglugerð þann afla sem veiða má úr helstu botnfisktegundum við Ísland á komandi ári. Ég hef þegar bent á að ég teldi eðlilegt að Alþingi tæki afstöðu til tillagna um þessi efni.

Í 2. gr. eru tekin inn ákvæði sem áður voru í reglugerð. Það tel ég vera til bóta. Sama er að segja um ákvæði 4. gr. í sambandi við leyfi til botnfiskveiða og skilgreiningu á þessari tvenns konar tilhögun, annars vegar með aflamarki og hins vegar með sóknarmarki. Það er jákvætt að þessi atriði eru hér tekin inn. Í þessari gr. er að finna ákvæði um að fiskur undir ákveðinni stærð eða fiskur sem veiðist í ákveðin veiðarfæri skuli ekki talinn með í aflamarki eða sóknarmarki fiskiskips og er í síðara tilvikinu um að ræða línuveiðarnar. Horfir það í rétta átt að mínu mati og mætti lengra ganga í þeim efnum. Við Alþýðubandalagsmenn gerðum um það tillögu þegar mál þetta var til meðferðar á þinginu haustið 1983 að línuveiðum væri haldið utan við aflamark ásamt handfæraveiðum. En síðan hefur það í reynd orðið þannig að hluti af línuafla hefur verið tekinn undan aflamarki í janúar og febrúar í samræmi við ábendingar sjútvn. sem um þetta mál hafa fjallað.

Það er á sama hátt í fleiri frumvarpsgreinum, eins og í 5. og 7. gr., að finna ákvæði sem ég tel horfa til betri vegar, ekki síst ákvæði í 7. gr. þar sem möguleikar eru opnaðir fyrir útgerðir og sjómenn að vinna sig út úr þeirri þröngu viðmiðun sem gilti í sambandi við útreikning á aflamarki - og raunar einnig á sóknarmarki - miðað við árin 1981-1983 upphaflega. Hér er opnað fyrir möguleika til þess að vægi áranna 1986 og síðan vegna ársins 1987 vegi verulega þyngra en viðmiðanir fyrri ára. Þetta tel ég horfa til rétts vegar og vera þannig til bóta.

Skv. 8. gr. eru tekin inn ákvæði sem auka sveigjanleika í þessu stjórnkerfi. Þar er tekið fram að heimilt sé að veiða umfram úthlutað aflamark af tiltekinni fisktegund allt að 10% af heildarverðmæti aflaúthlutunar og einnig möguleiki á að flytja á milli ára, sem ég tel fyllilega koma til greina og auka sveigjanleika í þessu kerfi. Ég er ekki þar með að taka undir þá hugmynd, sem hæstv. sjútvrh. setti fram á miðju þessu ári, að taka upp slíka heimild varðandi yfirstandandi ár. Ég skildi í rauninni aldrei hvernig hæstv. ráðherra gat hugsað sér að hægt væri að hrófla við því kerfi sem njörvað hafði verið niður að þessu leyti. Sú hugmynd fékk enda mjög bágar viðtökur svo sem eðlilegt var. En öðru máli gegnir þegar horft er til næstu ára að þessu leyti og ég tel það ekki óeðlilegt að á slíkt sé litið með jákvæðum hætti.

Í fleiri frumvarpsgreinum er að finna ákvæði sem inn eru tekin en áður voru reglugerðarákvæði, bæði í 12. gr. frv. og í 14. gr. þar sem stefnt er að að lögfesta ákvæði um samráðsnefnd sem sett var á laggirnar með reglugerð 1984.

Þessi atriði nefni ég hér, herra forseti, til að vekja athygli á því að hæstv. sjútvrh.. sem okkur hefur þótt vera ansi fastur fyrir, svo ekki sé meira sagt, í sambandi við hugmyndir um breytingar á þeim frumvörpum sem hér lágu fyrir á fyrri árum um stjórnun fiskveiða, hefur tekið svolítið sönsum í þessum efnum. Honum er ekki fyrirmunað að læra og taka tillit til ábendinga sem settar hafa verið fram og rökstuddar í sambandi við lagasetningu á fyrri þingum. Þá reyndist hann ófáanlegur til að breyta stafkrók í lagasetningu vegna þessa árs. Við stóðum hér í ræðustól á stífum fundum, næturfundum. til að láta á það reyna hvort ráðherrann væri ekki reiðubúinn til að gera breytingar á því frv. sem þá var endurflutt nánast óbreytt frá árinu 1983. En þar varð engu um þokað. Nú hefur ráðherrann breytt til til bóta í ýmsum greinum að þessu leyti. Ég tel það vera jákvætt og þannig sé þetta frv. í mun aðgengilegri búningi en var hér vegna fyrri ára og yfirstandandi árs.

Auðvitað er spurning hvort lögfesta skuli ákvæði um stjórnun fiskveiða til eins árs eða tveggja ára í senn. Mér finnst ekki óeðlilegt að menn reyni að taka stefnumarkandi ákvarðanir til lengri tíma en til ársins þegar um svo þýðingarmikil atriði er að ræða og finnst eðlilegt að fjallað sé um þetta mál með það í huga að þetta kerfi, sem menn hyggjast lögfesta, geti gilt til tveggja ára með þeim endurskoðunarákvæðum og möguleikum til endurskoðunar sem gert er ráð fyrir hér í ákvæði til bráðabirgða.

Þó að ég hafi hér tekið jákvætt undir þær breytingar ýmsar sem orðið hafa í þessu máli bið ég um að mál mitt sé ekki skilið þannig að ég telji að við séum hér komin með einhverja fullkomna smíð í hendur sem hægt sé að skrifa upp á án athugasemda eða án þess að breytingar fáist fram. Ég hef fullan fyrirvara á afstöðu minni til þessa frv. í heild og mun sjá til hvaða meðferð það fær í höndum sjútvn. þessarar hv. deildar, áður en ég tek endanlega afstöðu til þess.

Það eru margir þættir, sem snerta þetta stjórnkerfi, sem ástæða væri til að fá skýrð betur og önnur sem nauðsynlegt er að breyta. Eitt af þeim ákvæðum, sem snertir úthlutun á aflamarki til skipa eða sóknarmarki og erfiðleikum veldur, er spurningin um tilfærslu á fiskiskipum milli byggðarlaga. Hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir vék réttilega að því í máli sínu hér fyrr í dag við þessa umræðu að það er mikill vandi sem steðjar að byggðarlögum sem eiga á hættu að missa fiskiskip og þar með möguleikann á afla sem er víða undirstaðan undir atvinnu og afkomu manna. Að mínu mati er nauðsynlegt að leitað verði leiða til að koma í veg fyrir að slíkar sveiflur gerist með skjótum hætti með sölu fiskiskipa, sem mörg hver eru nú á uppboðslista í byggðarlögum víða um landið með viðeigandi óvissu fyrir fjölda fólks sem á afkomu sína undir útgerð þeirra. Þetta er atriði sem nauðsynlegt er um að fjalla og einnig spurninguna um framsal á kvóta, sölu á kvóta, sem við höfum sett stórt spurningarmerki við, Alþýðubandalagsmenn, í umræðum um þessi mál.

Það er eðlilegt að spurt sé: Hver á fiskinn í sjónum? Eru það útgerðarmennirnir, sem fá úthlutað kvótanum, sem eru eignaraðilar að þessari auðlind? Eða ber ekki að taka á þessu máli með öðrum hætti? Við höfum gert um það tillögu hér við meðferð sama máls í tvígang, Alþýðubandalagsmenn ásamt fleiri þm. úr stjórnarandstöðu, að því sé slegið föstu að fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar séu þjóðareign, sameign allra Íslendinga. Ég held að fyllsta ástæða sé til að taka það mál hér enn upp til umræðu og sé ekki vilji til að lögfesta það í tengslum við þetta frv. hér um stjórn fiskveiða, þá sé tekið á málinu með öðrum hætti af Alþingi, þannig að ótvírætt sé hver teljist vera eignaraðili að þessari undirstöðuauðlind í okkar þjóðarbúskap.

Annað atriði sem ég vil nefna hér sérstaklega og gera athugasemdir við eru ákvæði 9. gr., um botnfiskveiðar báta minni en 10 brúttórúmlestir. Það mál var hér til umræðu í gær með tilliti til ákvæða vegna þessa árs og þeirrar veiðistöðvunar á smábátum sem nú hefur verið ákveðin skv. reglugerð hæstv. sjútvrh. Í þessum frumvarpstexta kemur enn tillaga um það, að vísu með nokkuð öðrum hætti en gert var ráð fyrir á síðasta ári, að takmarka veiðar báta undir 10 brúttórúmlestum og stöðva veiðar þeirra miðað við ákveðna tiltekna daga á komandi ári, samtals 120 daga, sem gert er ráð fyrir að veiðar þeirra verði stöðvaðar, þó með þeirri undantekningu sem hæstv. sjútvrh. gat um í sinni framsögu, að hann gerði ráð fyrir að heimilaðar yrðu - og reyndar kemur fram í texta þessarar frumvarpsgreinar að möguleiki sé á að heimila þessum smábátum línuveiðar á tímabilinu frá 1. jan. til 9. febr. og 16. nóv. til og með 31. des.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum verið þeirrar skoðunar að ástæðulaust væri að setja kvóta á smábáta. Og ég er enn þeirrar skoðunar að ástæðulaust sé að vera að setja trillurnar undir kvótann. Vissulega hefur sú þróun orðið frá því þetta kerfi fyrst var innleitt vegna ársins 1984 að smábátum hefur fjölgað mjög verulega. Afli þeirra hefur aukist mikið á yfirstandandi ári, eins og fram hefur komið, en þetta er ekki síst vegna þess að bátunum hefur fjölgað mjög verulega og tæknibúnaður þeirra vissulega einnig batnað á þessum tíma, þannig að afköstin hafa orðið meiri þrátt fyrir takmarkanir. Þarna koma einnig til, sennilega á heildina litið, betri gæftir á yfirstandandi ári en á síðasta ári. Ég tel að það hefðu verið eðlileg viðbrögð í sambandi við smábátana að setja takmarkanir á fjölgun þeirra á þessum tíma, ekki ósvipað og gilt hefur um aðrar fleytur í fiskveiðiflota okkar. En það hefur ekki verið gert heldur hefur verið reynt af hæstv. ráðh. með mjög gagnrýnisverðum hætti að hneppa smábátana í viðjar kvótakerfis, sem er algerlega óhæft til stjórnunar og óboðlegt þeim sem fást við þessar veiðar.

Ég tel því að ef ekki er meirihlutavilji fyrir því hér á Alþingi nú að undanskilja smábáta undir 10 brúttórúmlestum kvóta með öllu, þá beri að taka á þessu máli með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í 9. gr. Megintillaga af minni hálfu er sú að trillurnar verði undanþegnar kvóta með öllu, en til vara nefni ég það að sveigjanleiki til veiða á smábáta verði mun meiri en gert er ráð fyrir hér í 9. gr. þessa frv. og bendi þar á í fyrsta lagi að sá tími sem gert er ráð fyrir að stöðva úthald þeirra er óhóflega langur og auk þess er óréttmætt og ástæðulaust að setja smábáta um land allt undir stöðvun tiltekna daga á árinu.

Ég tel að það beri að skoða að veita þeim kost á sóknarmarki, eða réttara sagt að sækja sinn afla með sveigjanlegum hætti á mismunandi árstímum eftir landshlutum og eftir verstöðvum. Vilji menn takmarka sóknina við ákveðinn dagafjölda á árinu þá geti menn valið úr hvenær þeir taki á sig þá stöðvun, t.d. innan sömu verstöðvar. Ég viðurkenni að ef menn eru með stjórnun á veiðar þessara báta þá er það erfitt að hafa eftirlit með hverjum einstökum bát af þessari stærð. En ég hygg að sjómenn, sem þessa útgerð stunda, væru reiðubúnir til þess að bindast samtökum um að samræma sín sjónarmið í hverri verstöð og velja sér þá daga sem þeir safna í stöðvun, því það háttar svo misjafnt um aðstæður á landinu, en sem kunnugt er í sambandi við þetta væri slíkur sveigjanleiki mjög til bóta.

Ég skildi það svo hér í máli hæstv. sjútvrh. áðan þegar hann mælti fyrir þessu frv. að hann væri reiðubúinn til þess að skoða hugmyndir af því tagi og ég hvet hv. sjávarútvegsnefndarmenn til að gera það, að leita leiða til þess að skapa slíkan sveigjanleika í sambandi við smábátana, sé ekki vilji til þess að taka undir þá megintillögu að þeir séu undanþegnir kvóta.

Þetta eru þau atriði, herra forseti, sem ég vildi koma að sérstaklega í tengslum við þetta frv. sem hér liggur fyrir og ætla í framhaldi af því aðeins að víkja nokkrum orðum að öðrum þáttum sem tengjast sjávarútveginum og skipta í rauninni meira máli en spurningin um stjórnkerfi eða stjórnun veiðanna, svo þýðingarmikil þó sem hún er.

Hér talaði á undan mér við umræðuna hv. 5. þm. Reykv., formaður Alþfl. Hann gagnrýndi marga þætti í sambandi við það stjórnkerfi sem við höfum búið við undanfarin tvö ár, en mér þótti það nokkur ljóður á máli hans að hann benti í rauninni ekki á neitt með marktækum hætti sem ætti að taka við. Það var ekki annað að heyra á hans máli en hann teldi að innleiða ætti lögmál markaðarins í sambandi við sóknina í mjög auknum mæli, stöðva útgerð skipa í ríkum mæli og láta þau sigla í strand sem hafa átt við erfiðleika að etja rekstrarlega. Ég skildi heldur ekki ýmsa þætti sem hv. þm. vék að í sambandi við þá stjórnun sem hann var að nefna sem hugsanlega af sinni hálfu. Hann kom að því að leggja mætti skipum í einstökum verstöðvum og endurúthluta kvóta til báta og skipa í sama byggðarlagi, ekki eingöngu innan sömu útgerðar. Þetta er erfitt í framkvæmd og ég tek mjög vara við því að menn ætli sér að hleypa lögmálum markaðarins lausum í auknum mæli í sambandi við útgerð í landinu. Sérstaklega vara ég við því að menn hleypi þar fram með skjótum hætti breytingum sem leitt geta til stórkostlegra vandkvæða og sóunar á verðmætum í raun, þó að einstaka reiknimeistarar telji sig geta reiknað út einhvern þjóðhagslegan hagnað af því eftir tölvuútskriftum. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess að vara við slíkum hugmyndum.

En það eru önnur vandamál í okkar sjávarútvegi, sem ég kemst ekki hjá að nefna hér, sem ég tel vera í rauninni mun stærri heldur en spurningin um aðferð við stjórnun á hinum takmarkaða afla. Það er í fyrsta lagi þau almennu rekstrarskilyrði sem okkar sjávarútvegur nú býr við undir efnahagsstefnu þessarar ríkisstj. og þá m.a. og ekki síst á ábyrgð núv. hæstv. sjútvrh. Þar horfir í mikið óefni og hefur verið þröng fyrir dyrum um langt skeið og ég hlýt að gagnrýna það hér mjög harðlega hvernig á þessum málum hefur verið haldið, málefnum sjávarútvegsins, vegna þess að það er ekkert eins afdrifaríkt í sambandi við stöðu sjávarútvegsplássanna í landinu og raunar heilu landshlutanna, landsbyggðarinnar, heldur en sú rekstrarlega staða sem þar blasir við.

Þessu tengist einnig vinnuaflsskorturinn í fiskvinnslunni. Sú mynd sem blasir við með hálftóm frystihús víða um landið og sú staðreynd að þjálfað vinnuafl hefur flúið úr þessum fyrirtækjum vegna þeirra launakjara og annarra aðstæðna, sem fólk þar býr við, vegna bónuskerfis og afleiðinga af því og hins lága fastakaups og ótryggrar vinnu, sem fólk í fiskvinnslunni býr við. Þetta eru aðstæður sem ekki ættu að ríkja í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna.

Ég bendi einnig á það, sem raunar hefur verið vikið að hér við þessa umræðu, að gæðamál í fiskvinnslunni eru í mesta ólestri, en þar er út af fyrir sig ekki hægt að kenna því stjórnkerfi um sem innleitt hefur verið, heldur miklu frekar því að ekki hefur verið gripið á þeim þáttum sem leiða til þess að afla er mokað á land á stuttum tíma og miklu meir heldur en unnt er að koma í verðmæta vöru. Það hefur verið vanrækt að taka á þeim þáttum stjórnunarlega séð og auðvitað má kenna fleirum en stjórnvöldum um það sem úrskeiðis hefur farið í þeim efnum. En ég er þeirrar skoðunar að fyrir löngu hefði átt að vera búið að taka þar á með takmarkandi hætti, hvað hægt er að draga á land til einstakra verstöðva af afla í svokölluðum aflahrotum. Hér er ekki um einkamál einstakra verstöðva að ræða eða þeirra sem vinna í viðkomandi fyrirtækjum hjá útgerð og fiskvinnslu. Hér er um að ræða slík stórmál þjóðhagslega séð að það er eðlilegt að taka á þeim og setja um ákveðnar reglur. Gæðamálin eru þannig í miklum ólestri víða í okkar sjávarútvegi og þar eru stórar upphæðir á ferðinni.

Ég vil svo að endingu í sambandi við þá alvarlegu stöðu sem við blasir í sjávarútveginum vekja athygli á þeirri þróun sem nú er í gangi í sambandi við að flytja fiskvinnsluna á haf út, uppbyggingu frystitogaranna, sem stefnir í það að vinnslugeta þeirra verði við lok næsta árs um þriðjungur af þeim þorskafla sem hér er gert ráð fyrir að heimilað verði að afla. Skv. upplýsingum frá Framkvæmdastofnun ríkisins er gert ráð fyrir því að vinnslugeta þeirra frystitogara, sem komnir verða í gagnið við lok ársins 1986, nemi um 100 þús. lestum. Hér er á ferðinni þróun sem fyllsta ástæða er til að fjalla um og að menn átti sig á því hér á Alþingi hvaða afleiðingar muni hafa og hvort skynsamlega sé þar á málum haldið.

Stefna núv. hæstv. ríkisstj. gagnvart sjávarútveginum og útgerð í landinu sérstaklega hefur nefnilega leitt til þess að fyrirtæki í útgerð hafa séð þann kost helstan að breyta skipum eða kaupa skip með vinnslugetu, frystitogara, til þess að láta vinna aflann um borð á vöktum allan sólarhringinn. Slíkur rekstur er afkomulega séð frá sjónarhóli einstakra fyrirtækja arðbærari heldur en samrekstur útgerðar og fiskvinnslu með þeim hætti sem að honum er staðið, og því hafa fyrirtæki í útgerð verið knúin til þess að leggja út á þessa braut. Við hljótum að spyrja: Hvar ætla menn að enda að þessu leyti? Ég held að þetta mál þurfi sérstakrar umræðu við og sé síst minna mál en spurningin um stjórnun veiðanna.

Menn eru að tala um samræmingu veiða og vinnslu. Það má segja að það sé ákveðin samræming veiða og vinnslu sem fari fram um borð í frystiskipum eða frystitogurum, en ég er ekki viss um að það sé það sem skynsamlegast er fyrir okkar þjóðarbúskap og bendi á þann gífurlega vanda sem blasir við í landi þar sem aflinn er unninn um borð eða siglt með hann ferskan til útlanda eins og gerst hefur í mjög auknum mæli.

Herra forseti. Ég ætla ekki hér við 1. umr. þessa máls að lengja mál mitt frá því sem orðið er. Ég sá ástæðu til þess að víkja hér almennt að því stjórnkerfi sem er efni þessa frv. Ég hef tekið það fram að ég tel að þetta kerfi sé hægt að nota sem meginaðferð með lagfæringum og undir það hefur verið tekið af flestum hagsmunasamtökum í sjávarútvegi, þó með Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sem undantekningu. Ég er ekki með þessu að segja að ekki væri unnt að taka á málum með öðrum hætti og önnur stjórnkerfi geti ekki verið til álita. Það er sjálfsagt að skoða allar leiðir í þeim efnum, en ég tel þó að það væri engan veginn til bóta að hverfa til baka til þess kerfis sem kallað hefur verið skrapdagakerfi og við bjuggum við hér á árum áður.