27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

145. mál, stjórn fiskveiða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Svo hart hafa trippin verið rekin á þessum degi að formanni þingflokks Framsfl. og meðstjórnanda þótti hlíta að hafa fundi samtímis, annar í þingflokknum, hinn í deildinni. Þegar þannig er staðið að málum er erfitt að fara út í mjög efnislega umræðu þar sem ógjörningur er að fylgjast nægilega vel með því sem sagt er í salnum á sama tíma og maður situr á þingflokksfundi. Það sem gerir þetta enn alvarlegra er að á þennan þingflokksfund var boðið allmörgum gestum og þess vegna mjög óviðeigandi ef allir hefðu farið að fordæmi forseta og vikið af fundi. En hvað um það.

Hér hafa farið fram umræður og m.a. flutti hér mál sitt hv. 2. þm. Reykn. Það vill svo til að hv. 2. þm. Reykn. hefur verið sérfræðingur í stjórnarskrárnefnd. Hann hefur einnig verið boðberi þess mjög ákveðið að þannig skuli staðið að skipun fulltrúa á Alþingi Íslendinga að eitt atkvæði skuli vera jafnt að þyngd hvar sem það er á landinu og í hvaða flokki sem er. Það blasir við að þeim vilja hefur tekist að ná með þeirri skipan sem á er komið. Hins vegar lætur hann sér sæma að telja að það sé þá eðlilegur umsagnaraðili um þetta frv. þing þar sem eins manns atkvæði getur vegið 500-falt eða meira á við þess næsta. Og ég verð að segja eins og er að ég sakna þess mjög að hv. þm. skuli vera farinn úr salnum. Ég sakna þess mjög.

Til grundvallar eru ekki lögð þau verðmæti sem viðkomandi skip koma með að landi. Nei, tonnafjöldinn, stærð skipsins er það sem ræður. Þetta leiðir hugann að því að í skjóli þessa kerfis getur það verið nokkuð auðvelt hjá ráðherra að reikna það út með aðstoð tölvu hversu stórum hóp þurfi að hygla til að hafa meiri hlutann í LÍÚ. Þetta er ekki svo flókið reikningsdæmi. Loðnuflotinn t.d. er ákaflega myndarlegt búsílag og sé gefið vel á garðann á haustdögum þá er hugsanlegt að þeir makki rétt. Það þarf ekki mikið klækjavit til að sjá þetta.

Auðvitað þýðir þetta það að einhverjir aðrir lenda undir. Það er þá hægt að nota varðskipin. Það er ekki vandamál núna að fást við Bretann og eins og allir vita þá þarf að halda þessu liði í þjálfun. Spurningin er aðeins sú hvort hæstv. sjútvrh. gerir sér grein fyrir því að grundvallaratriðið fyrir allri lagasetningu er það að lögin beri með sér það réttlæti að almenningsvitundin í landinu, sú vitund sem hefur mótast af sögulegri hefð, af menningu þjóðarinnar, hvort sú vitund slær í takt við þau lög sem eru sett.

Stundum gerist það að þarna verður þverbrestur. Mönnum sýnist að lögin séu svo fráleit að þeir vilja ekki una þeim. Þá fer fyrir mönnum eins og Guðmundi hinum góða þegar hann boðaði að nauðsyn væri lögum ríkari. Og það er nú svo að það gerðist eitt sinn í Ísafjarðarsýslu að bóndi norður frá var kærður fyrir að hafa skotið nokkrar kollur og sýslumaður neitaði að taka málið fyrir af því að hann taldi líf fuglanna minna virði en barnanna sem þessi maður átti. Og þar við sat. Jafnvel í þeirri stétt var sú hugsun til að nauðsyn væri lögum ríkari.

Nú er það svo að í fornum lögum íslenskum eru vissar heimildir sem voru tryggðar þeim manni sem ferðaðist um landið þó hann hefði ekkert eignarhald á því landi sem hann fór yfir. Þar var áskilið m.a. í óbyggðum að menn mættu veiða fisk sér til matar. Grágásar höfundar létu sér ekki detta í hug að þann veg gæti farið að sá sem ferðaðist yfir fjörð hefði ekki heimild til að veiða fisk sér til matar á leiðinni. Og lái þeim hver sem vill þó að svo framsýnir væru þeir ekki. Ef ég man það rétt þá var líka heimilt að maður mætti tína ber á leið sinni og hafa beit fyrir hesta sína þar sem hann ferðaðist um.

Við sjáum svo sjaldan í okkar eigin þjóðfélagi með nægilega mikilli eftirtekt þá þróun sem er að gerast. Hins vegar skynjum við þetta oft betur þegar við horfum á stærri samfélög. Í því sambandi langar mig að minnast á hlutskipti indíánanna í Ameríku. Indíánarnir höfðu stundað veiðar. Þeir vissu nokkurn veginn mörk sinna veiðisvæða og þeirra líf byggðist á þessu. Svo komu hvítir menn - Bob Dylan taldi að þeir hefðu drepið 10 milljónir indíána með guð sér við hlið, eins og hann orðaði það svo fagurlega - og hvítu mennirnir útbjuggu verndarsvæði fyrir indíánana svo þeir yrðu ekki fyrir og þeirra athafnafrelsi yrði ekki til að skerða möguleika á framþróun hvíta mannsins til athafna í landinu.

Þegar við horfum á þá sjónvarpsfrétt að Flatey á Breiðafirði sé að fara í eyði þá spyrjum við okkur: Jæja, eru það nú samgöngurnar sem endanlega eru að leggja þennan stað í eyði? Er það læknisþjónustan? Eru það skólamálin? Nei, það er ekki einu sinni prestleysið. En það fannst leið til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að verja með svipuðum hætti þá byggð og hafði tekist þó á undanförnum árum, með því að meina Breiðfirðingum aðgang að þessari gullkistu sem Breiðafjörðurinn er yfir hábjargræðistímann. Sjá menn ekki hvað þetta minnir á þessa snyrtilegu meðferð sem indíánarnir fengu?

Í okkar þjóðfélagi má segja að trillukarlarnir séu í þeirra sporum. Þeir hafa ekki haft þann styrkleika til að mynda þann þrýstihóp sem dugir til þess að íslenskir valdhafar vilji umgangast þá með þeim hætti að réttlætisvitund þeirra sé ekki stórkostlega misboðið. En hitt blasir við og er kannske athyglisvert einnig, að fari svo að trillubátaflotinn allur fari í stríð við landhelgisgæsluna íslensku þá liggur alveg fyrir hvor aðilinn tapar. Fjárlaga- og hagsýslustofnun mun sjá til þess að trillukarlarnir vinna. (Gripið fram í: Þeir lifa ekki á olíu.) Þeir lifa ekki á olíu, og annað hitt að ef þeir hafa aðeins með sér gamaldags færi og veiða aðeins einn fisk, þá er skaðinn sá að afli og veiðarfæri verða gerð upptæk. Og ég hefði gaman af að sjá Landhelgisgæsluna standa í því að elta þessi skip inn um allan Breiðafjörð á grynningunum og sjá hvernig gengi.

En erum við ekki með þessu að vanvirða þá menn sem börðust hvað best fyrir Íslands hönd í landhelgisstríðinu? Haldið þið að það sé eitthvert skemmtiefni fyrir Landhelgisgæsluna að eiga yfir höfði sér að fá svona verkefni til að fást við? Þvílík vanvirða við þessa menn er að menn láti sér detta í hug að standa svona að málum.

Allt til þessa hefur verið litið svo á að fiskurinn í hafinu væri sameign Íslendinga. Með þeirri ákvörðun að taka upp kvótakerfi er hann ekki lengur orðinn sameign Íslendinga. Það hefur þó verið þannig þar sem þetta var gert, og hafði verið áður eins og t.d. varðandi rækjuveiðar, að sala á þessum réttindum á milli skipa var óþekkt. Og að mönnum dytti í hug að svo gæti farið að útgerðarmenn hættu að gera út skip sitt, seldu bara kvótann, eða þá það sem var enn þá lygilegra og gerðist á þessu ári, að útgerðarmaður keypti heilan togara með því að fá að geyma ávísun í fimm daga! Ávísunin var andvirði kvótans sem hann átti eftir. Og þegar hún var innleyst þá var hann búinn að kaupa kvótann og leggja peningana inn á banka. Svo var farið að undirbúa það að breyta skipinu í rækjuskip.

Ég held að hvar sem við förum, ef menn nenna að setjast niður og hugsa, sem því miður verður æ sjaldgæfara í þjóðfélagi mötunar, þá misbjóði salan á kvóta svo réttlætisvitund Íslendinga að menn spyrja: Hvar er hægt að framkvæma þann heilaþvott að menn komi það illa leiknir út úr meðferðinni að þetta samrýmist þeirra réttlætisvitund? Og hvar er hægt að framkvæma þennan heilaþvott? Það vill svo til að það var einn hagfræðingur núna í haust sem flutti erindi um sjávarútvegsmál og stefnur. Hann hét Bjarni Bragi. Og þetta er ekki hagfræðingur hjá einhverjum sparisjóð úti á landi, þetta er hagfræðingur Seðlabanka Íslands. Að vísu bar það við að Þjóðviljinn kvartaði undan því að orðfærið væri ekki við alþýðuhæfi og þeir birtu vissa klausu í Þjóðviljanum þar sem vitnað var í ræðu þessa ágæta hagfræðings. Og það skal viðurkennt að ég skildi ekki heldur hvað hann var að tala um, en var nú samt ekki viss hvort það væri af því að maðurinn hefði virkilega sagt þetta eða Þjóðviljinn tekið svona illa eftir þegar hann skrifaði þetta í sitt blað. En þessi hagfræðingur gat þess að kvótinn væri að sjálfsögðu aðeins áfangi að auðlindaskattinum. Að auðlindaskattinum. Skattinum sem væri úthugsaður á þann veg að fiskimönnum þessa lands væri seldur aðgangurinn að hafinu. Og svo væru aðrir sem sætu í landi og ráðstöfuðu því fé.

Hugsunin á bak við þetta, sem þarna gægist fram, er að tvenns konar gengi eigi að hafa á erlendum gjaldeyri í landinu. Annars vegar gengi sem byggt er upp á auðlindaskattinum og sjávarútvegurinn sæti uppi með og hins vegar gengi sem aðrir atvinnuvegir landsins sætu með. Hugsunin er 100% klár. Þetta er ekki eitthvert kjaftæði út í loftið sem manninum datt í hug af því að hann hefði fengið sér í glas eða eitthvað svoleiðis. Það er misskilningur. Því síður að hann hafi náð sér í bjór. Nei, nei, nei, þetta er úthugsuð speki sem hefur verið tölvukeyrð í Seðlabanka Íslands og virðist hafa verkað inn í raðir bankaráðsmanna við bankann. (Gripið fram í: Og Framsóknarflokksins.) Og Framsóknarflokksins. Það ber svo við að ég get tekið undir með hv. 5. þm. Austurl.

Það er nú svo að þeir Seðlabankamenn hafa vit á mörgu. Þar eru menntaðir menn, margir fluggáfaðir, lesnir og umfram allt þá hafa þeir mjög mikil völd. En samt mun það nú svo að indverska heimspekin „sérhver er mikill á sínum stað“ á við þá sem aðra. Ég er nefnilega sannfærður um að hvort heldur sem þeir yrðu settir um borð í trillubát eða þeim yrði stillt upp við almenna fiskverkun í landi þá kæmi í ljós að þeir sem ynnu þessi störf að staðaldri væru þeim hæfari. Þó er svo komið að áhrifanna frá Seðlabankanum gætir á þann veg að það er fráleitt að íslenskir fiskimenn eigi lengur að fara eftir því sem skaparinn hefur ætlað þeim hvað gæftir snertir. Það má leggja Veðurstofuna niður þess vegna. Hún á ekki að segja fyrir um það hvort eigi að fara á sjó eða ekki. Það er löngu liðin tíð. Það á að fara eftir því hvað sjútvrn. leggur til í þessum málum. Það er nú svo.

Það er stundum talað um stjórn og ofstjórn. Ég verð að segja það eins og er að þegar ég núna hlusta á það í fréttum að Rússar séu að fara af stað með fimm ára áætlun, fimm ára efnahagsáætlun, og jafnframt hef horft á það að sjútvrh. hæstv. hefur bakkað frá því að vera með þriggja ára áætlun niður í tveggja, þá hefði mér eiginlega fundist að það væri öllu rökréttara að framsókn væri nú í stjórn með Alþb. - og ég vona nú að hv. 5. þm. Austurl. sé mér sammála. (HG: Þetta verður þú að rökstyðja nánar.) En það er nú svo að hann mun ekki lærður í Rússlandi heldur Austur-Þýskalandi og í því getur misskilningurinn legið.

Ég held aftur á móti að það sé kannske skýringin á því að sjálfstæðismenn fjölmenna nú ekki við þessa umræðu að það sé dálítið erfitt að útskýra stefnuna um einstaklingsfrelsið, um atvinnufrelsið og kenninguna um það að nú skuli menn hætta að hugsa til sjós. Það sem hugsað sé það sé í sjútvrn. Það sé alveg nóg. Veðurstofan úr sögunni hvað upplýsingar snertir. Það hlýtur að vera gaman að vera fulltrúi einstaklingsframtaksins hér á Alþingi. Eða eru skollin á herlög í landinu? Það er nefnilega staðreynd að hvar sem er í heiminum hafa menn samþykkt það þegar styrjaldir hafa geisað að þá skyldu sett á herlög og þá skyldi ýtt til hliðar öllum kennisetningum. En ægilega væri nú gaman ef ungir sjálfstæðismenn settu þetta upp á blað þannig að maður hefði það alveg á hreinu hvernig þetta er túlkað, hvernig þetta er hugsað af þeirra hendi, hvernig þetta passar við stefnuna. Það vill svo til að varaformaður Sjálfsttl. er hér í hliðarsölum. Púar þar stórum og maður sér ekki annað en maðurinn sé í góðu jafnvægi þannig að ekki hefur þessi hugmynd um fiskveiðarnar neitt raskað hans ró. Þetta passar alveg inn í kennisetningar Sjálfstfl. um einstaklingsfrelsið. (Grípið fram í: Hann er að hugsa um Hafskip.) Hann á að fá leyfi hjá Halldóri, það er bara að breyta til. Einstaklingsfrelsi, þ.e. að því viðbættu að menn fái leyfi hjá hæstv. sjútvrh.

Nú, þetta er ekkert nýtt í Íslandssögunni. Ég veit að allir sem hér eru inni muna eftir bænarskjölunum. Það fóru ógrynni af pappír hjá Íslendingum, og bleki, fyrir utan tímann og miðað við erfiðar póstsamgöngur, í að koma þessu á framfæri, bænarskjölum til kóngsins. Ja, það er ekkert spaug að vera búinn að fá innlendan fulltrúa í staðinn fyrir kónginn til að leysa þetta af hendi. Mig skal ekki undra þó að þeim líði vel sjálfstæðismönnum, þessum baráttumönnum fyrir einstaklingsfrelsinu.

NT er ekkert að hika við túlkunina á þessu. Þeir geta um það í leiðara að það eigi bara að berja þá til hlýðni! Ég veit nú ekki hvar það fer fram. Það fer ekki fram í þingsölum því þeir eru nú það sleipir að þeir halda sig utan þingsalanna. En gaman væri að fá það upplýst, ef einhver vissi, hvar það stendur til að berja sjálfstæðismenn til hlýðni í þessu máli. Ég vænti þess að varaformaður Sjálfstfl., hv. 2. þm. Reykv., hafi fylgst með þeim boðskap að nú ætti að berja sjálfstæðismenn til hlýðni. Það er ekkert smáræði sem hérna er á dagskrá. Það var talið nóg í gamla daga að berja einn og einn snærisþjóf, en að taka stærsta stjórnmálaflokkinn fyrir og foringja hans og hýða þá alla, það eru tíðindi. En auðvitað tek ég fullt mark á NT í þessum efnum og ég sé að formaður þingflokks framsóknarmanna er ekkert að bera til baka að þetta standi til.

En hvernig ætli þeim þætti, þessum fulltrúum frelsisins og einkaframtaksins, ef hæstv. viðskrh. tæki sig nú til og setti upp kvótakerfi? Kæmi hér fram grafalvarlegur og tilkynnti: Það er orðin svo mikil offjárfesting í versluninni að þetta verður ekki liðið lengur. Við höfum ákveðið að setja það inn í tölvur hve mikil matvælaþörfin er í landinu, hve mikið af skóm þarf að flytja inn og bifreiðum. Og svo verður kosin nefnd, auðvitað að hluta til skv. tilnefningu hagsmunaaðila, en formanninn skipar viðskrh., og hún mun útdeila leyfum á innflutninginn. Leyfum á innflutninginn. Ég er eiginlega á því að fulltrúar Alþb. mundu allir greiða atkvæði með þessu. Og það er ekkert víst að mjög erfitt yrði að koma þessu í gegnum þingið. Nú, verslunarhallirnar rísa. Menn sjá það. Þessi offjárfesting gengur ekki. Vita menn ekki að þjóðin er að sökkva í erlendar skuldir? Hvað dvelur hæstv. viðskrh. í því að taka þetta mál fyrir og koma kvótakerfinu á? Það yrði kannske einhver ágreiningur um kartöflurnar en það er nú varla á öðrum sviðum sem menn mundu standa í neinum deilum.

Nei, það er merkilegur hlutur að í þessu máli eru menn svo skemmtilega rökheldir að það væri alveg sama hvað væri sagt í þessum ræðustól. Það væri alveg sama hvaða gögn væru kynnt, það breytti ekki nokkrum sköpuðum hlut. (PP: Þó fjallræðan væri flutt.) Hæstv. forseti mundi ekki hika við það að halda hér fund á sama tíma og hv. 2. þm. Norðurl. v. teldi nauðsynlegt að hafa þingflokksfund. Það mundi ekki hvarfla að honum að breyta neinu. Það er nefnilega búið að ljúga því að þjóðinni að þetta séu fyrst og fremst átök á milli landsfjórðunga. Þetta séu fyrst og fremst átök á milli landsfjórðunga. Þ.e. að það séu einhverjir Vestfirðingar sem séu á móti þessu og kannske örfáir menn við Breiðafjörð. Er svo komið fyrir einkaframtakinu og atvinnufrelsinu að sú hugsun að einhverju máli skipti hvernig skipulag sé við sjávarútveginn sé bara á þessu svæði á landinu?

Ég minnist þess að vísu að sýslumaður Barðstrendinga varð svo óheppinn á sínum tíma að taka trú á Jörund hundadagakonung. Og þegar Jörundur yfirgaf landið var ekki friður fyrir hann lengur í sýslumannsstarfinu og hann sneri sér að því að hefja skútuútgerð við Breiðafjörð (Gripið fram í.) sneri sér að því. Og að því leyti gerði Jörundur mikið gagn að hann hefði sennilega komið þjóðinni að litlu gagni í sýslumannsembættinu en varð þó nokkuð merkur á þessu sviði.

Það er búið að ljúga því að þjóðinni að þetta sé nánast stríð á milli landshluta. Og menn trúa. Það er alveg sama þó að menn loki Reykjavíkurhöfn, trillukarlar hér, þá eru þetta allt saman frekir Vestfirðingar á bak við. (JBH: Þeir eru margir að vestan.) Hér talar sá sem ætlar sér stóra hluti í íslenskri pólitík eins og allir vita, hv. 5. þm. Reykv., lærður upp á það að verða forsrh. Og hann fer ekki með neina vitleysu í þessum efnum, fæddur í Alþýðuhúsinu á Ísafirði, hv. 5. þm. Reykv.

Þegar Vestmannaeyingarnir sigldu út með pomp og prakt og komu í hóp að landi, trillurnar, þá voru auðvitað frekir Vestfirðingar þar á ferðinni, hvað annað. Hvað annað? Enda þm. þeirra, hv. 4. þm. Suðurl., eins og allir vita, vestfirskur að ætt. (JBH: Fiskinn líka.) Já, ekki efa ég að það sé rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. Það er nú svo að gegn þessu kerfi, sem hér er búið að setja upp, er dálítið af Vestfirðingum sem ekki vilja samþykkja þetta og það er eiginlega alveg sama hvaðan mótmælin koma, það er ekkert um annað að ræða. Mig undrar það að íslenska Ríkisútvarpið hefur stundað þann fréttaflutning af þessu að það hefur mjög alið á þeirri kenningu að þannig sé þetta. Það hefur mjög alið á þeirri kenningu.

Ég efa það ekki að Alþingi muni samþykkja þessi lög. Ég efa það ekki. Ég efa það ekki að ráðherra muni framfylgja þessum lögum - þ.e. ég veit ekki hvort hæstv. núv. ráðh. situr í stólnum svo lengi, mér er það ekki ljóst. En hér hafa menn tekið nýja trú, efnahagstrú á kvótakerfi. Þó kemur það fram eins og var með kristnina, á frumdögum hennar í landinu, að það brá fyrir heiðni af og til. Menn blótuðu á laun. Og hv. 2. þm. Reykn. lýsti því yfir héðan úr ræðustól að þrátt fyrir þetta fullkomna kvótakerfi, bestu aðferð til stjórnunar fiskveiða, þá væri ekki nógu gott ástand í sjávarútvegi á Suðurnesjum. Þetta er nú athyglisvert. Varla getur það nú verið út á það að það sé röng gengisskráning eða neitt slíkt sem er að plaga þá Suðurnesjamenn frekar en aðra, þegar 1. þm. þeirra Reykn., hæstv. viðskrh. fyrrv., fór með þau mál. Getur það hugsast að þetta sé rétt, að kvótakerfið hafi ekki skilað 100% rekstrargrundvelli fyrir útgerðina í landinu? Menn eru farnir að spara svo í veiðarfærum, menn eru farnir að spara svo í olíu, ef trúa má nýjustu fréttum. Ja, ég verð nú samt að segja eins og er að ég hef ekki reynt þennan hv. þm., 2. þm. Reykn., að því að vísvitandi sé hann að gera grín að atvinnuvegunum þarna suður frá.

En hvernig er þetta með kvótakerfið sem á að tryggja jafna atvinnu alls staðar? Ef skipin fara nú burtu, verður þá kvótinn eftir í byggðarlögunum? Nei, kvótinn fer með. Kvótinn fer með og ég gat um það hér áðan að kvótinn, sem var eftir á einu skipinu, var notaður til þess að kaupa skipið burtu úr kjördæmi hv. þm. með því að geyma ávísunina í fimm daga þar til að viðkomandi kaupandi var búinn að selja kvótann. E.t.v. hefur þetta áhrif. Væri nú ekki ráð að menn færu að hugleiða það hvort þetta er í samræmi við þeirra réttlætisvitund? Skipið fór til Siglufjarðar. Það er hárrétt. Þannig að hér hafa engin mistök átt sér stað, hv. 2. þm. Norðurl. v., enda geri ég ráð fyrir því að hv. þm. sé dyggur stuðningsmaður frv. Spurningin er hvort hv. 2. þm. Reykn. sé jafnsannfærður um það að þetta kvótakerfi færi bara blessun yfir Reykjanes. Ég hygg að það væri vel þess virði hjá honum, með fullri virðingu fyrir hans þekkingu á þessum málum, að kanna það hvort sagan um skipakaupin sé ekki rétt.

Herra forseti. Það er rétt að við Vestfirðingar höfum oft verið sérlundaðir. Við höfum oft verið sérlundaðir og frægustu orð sem fallið hafa í þingsögu Íslands voru sögð í óþökk forseta. Þá var það boðað að verslunarfrelsið væri meira virði fyrir Íslendinga en flest annað. Þá var það boðað að atvinnufrelsi væri undirstaða undir efnahagslegum framförum í landinu. Samt er það svo að við teljum okkur í dag hafa svo miklu meiri þekkingu á þessum hlutum að við fótumtroðum þessar kenningar. Verslunarfrelsi viðurkennum við ekki. Af og frá. Við bönnum innflutning eftir ýmsum leiðum á því sem við viljum að sé ekki flutt inn í landið. Atvinnufrelsi. Er það atvinnufrelsi sem ríkir í sjávarútvegi þegar mönnum er skipað að selja ákveðnum aðila þau verðmæti sem berast að landi, eins og t.d. á sér stað með rækjuveiðina í Arnarfirðinum? Einn kaupandi á að kaupa það sem kemur upp úr firðinum. Og þetta dæmi er ekki tekið sérstaklega vegna hans, heldur vegna þess að þetta er kerfið sem við köllum atvinnufrelsi. Þetta er gamla einokunarkerfið, nákvæmlega eins og þegar fiskimönnum suður með sjó var bannað að versla við nema einn kaupmann. Það eina sem hefur breyst eru refsiákvæðin. Hýðingarnar eru aflagðar. Það stendur ekki til að berja á þessum mönnum. Það er aðeins á þm. Sjálfstfl. sem ætlunin er að berja og berja þá til hlýðni í þessu máli, ef trúa má NT. En reglurnar sem giltu á gamla einokunartímanum er það sem við teljum rétt í dag í þessum efnum. Hver hefði trúað þessu?

Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustól að frásögnin af Hólmfasti, sem var hýddur vegna örfárra fiska sem hann seldi til rangs aðila, og notuð er í Íslandssögunni í dag til að gera grín að því hvernig þetta kerfi var, ætti að strikast út úr sögunni vegna þess að við notum sama kerfið. Auðvitað er einokunarkerfið það eina rétta. Sjá menn það ekki? Er nokkur sem efast um það að þetta gamla einokunarkerfi sé það eina rétta? Það er í það minnsta sjaldgæft hér í þingsölum að menn efist um slíka hluti.

Hvað með útflutninginn á fiskinum? Er hann frjáls? Er frelsið sem menn tala um í versluninni til staðar þarna? Eiga ungir og efnilegir menn í þessu landi, sem eiga verslunarsambönd vegna síns innflutnings, eiga þeir möguleika á því að flytja til ákveðinna landa fisk? Af og frá. Eru mennirnir orðnir ruglaðir. Nær nokkurri átt að fara að blanda því saman? Kemur til greina að það sé hagkvæmt fyrir þjóðina að mennirnir vinni að útflutningi um leið og þeir vinna að innflutningi? Er þetta kerfi ekki það eina rétta, að hafa bara örfáa menn í því að selja verðmætin úr landi, en heila herdeild til að flytja inn? Er þetta ekki það eina rétta? Efast nokkur? Hvarflar það að nokkrum manni að það sé hugsanlegt að viðskiptahalli Íslendinga stafi m.a. af því að við höfum of marga við að flytja inn, en of fáa við að flytja út og beinlínis bönnum mönnum að standa í slíku? Nei, auðvitað erum við með það eina rétta kerfi í þessum efnum. Er nokkur vafi á því?

Þetta frv. á eftir að koma til almennrar umræðu aftur hér í deildinni og ég ætla ekki að misbjóða þolinmæði manna með því að þreyta þá með lengri tölu í kvöld.