27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

145. mál, stjórn fiskveiða

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist yfir frammistöðu og ástandi Sjálfstfl. hér í kvöld. Bestu ræðu kvöldsins og líklega bestu ræðu þessarar umræðu allrar og náttúrlega bestu ræðu þeirra sjálfstæðismanna flutti hv. 1. þm. Vestf. Hann er bara í andstöðu við þetta frv., en manni skilst að hinn breiði massi Sjálfstfl. styðji það allur. Samt er ekki búið að fá almennilega skýringu á því máli. Þeir talsmenn þessa stóra flokks, sem hafa komið hér upp í kvöld og við eigum líklega að skilja sem svo að þeir séu að flytja okkur skilaboð úr þingflokksherbergi Sjálfstfl., hafa alls ekki flutt sannfærandi stuðningsræðu fyrir þessu ágæta frv. Það fer ekki hjá því að menn velti fyrir sér hvaða geðklofi sé hugsanlega þar á ferðinni vegna þess að ef menn líta í helgustu bækur þessa flokks og á þá hornsteina sem þeir hafa byggt sín stefnumál á, frelsi einstaklings, framtak hans o.fl. sem er góðra gjalda vert, er þetta í hrópandi mótsögn.

Maður getur, eins og ég gerði hér í ræðu minni fyrr í kvöld, hugsað til baka til haustsins 1983. Þá voru þeir þó sæmilega borubrattir og sögðu: Þetta er nú bara í eitt ár, strákar. - Ég man meira að segja eftir að þeir skrifuðu langhunda í Moggann og sögðu: Við erum í nauðvörn, sjórinn er svo kaldur og svo er svo lítið af fiski í honum. Þetta er nauðvörn, strákar, í eitt ár. En þetta verður ekki lengi vegna þess að það er ekki hægt að hefta frelsi einstaklingsins svona lengi, það sjá allir. - Nú líða árin og maður hefði kannske haldið að þeir gerðu þá harðari kröfur, kannske bara sex mánaða gildistíma. En nú vilja þeir hafa það í tvö ár. Næst samþykkja þeir það örugglega í tíu ár. Nú flytur enginn borubrattar ræður um að hér sé á ferðinni tímabundið ástand. (JBH: Það hefur hlýnað í sjónum.) Nú er sjórinn orðinn svo yndislega hlýr að hann er orðinn fullur af fiski og nú kemur í ljós að bandinginn hræðist frelsið, þeir gætu lent í samkeppni og guð veit hvað.

Maður hélt á tímabili seinni partinn í sumar að þeir væru kannske að vakna til lífsins, einhver hefði kannske flett upp í bókunum, það hefði kannske verið hnippt í einhvern og hann spurður hvort hann ætlaði að láta þetta viðgangast. Manni skildist jafnvel á tímabili í haust að allur þingflokkur Sjálfstfl. mundi mótmæla vegna þess að það var helst að skilja dag eftir dag að það stæði ekki steinn yfir steini í þessu frv. Menn ætluðu aldeilis að breyta þar ýmsum málum, sögðu þeir. Hvað kemur svo í ljós? Það kemur í ljós að eftir standa tveir óbeygðir menn. Ég verð líklega að kalla þá báða hv. 1. þm. Vestf., einn hefur talað hér í kvöld og við höfum heyrt í öðrum áður. En hinir koma nú eftir allt og lofa og prísa frv.

Það kemur í ljós að hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson hefur gert svona „barbabrellu“. Hann setti inn öngul, þriggja ára gildistími, og þingflokkur Sjálfstfl. hefur náð þeim stórkostlega árangri að stytta gildistímann niður í tvö ár og nú eru þeir allir ánægðir. Ég held að aldrei hafi einn framsóknarmaður gert jafnmikið grín á jafnstuttum tíma að jafnmörgum sjálfstæðismönnum.

Það kom meira að segja einn þeirra upp í kvöld, hv. þm. Sjálfstfl., og lýsti svæði sem áður var mesta útgerðarsvæði landsins og þar sem nú er svo komið að sjávarútvegur er kominn á byggðasafn. Síðan lýsti hann hörmungum þeirra sem vinna í þessari grein og sagði síðan: Þetta er besta leiðin, hallelúja, amen.

Það fer svo á endanum að maður spyr sig hvort það væri kannske ekki ráðlegt að menn gerðu eins og skandinavísku félagsfræðingarnir segja: Talið þið bara út um þetta, strákar. Talið um þetta í botn. Segið hvað ykkur finnst um þetta - vegna þess að ég verð ekki almennilega var við nema einn mann sem ég held þó að í hjarta sínu sé fylgjandi þessu frv. og það er hæstv. sjútvrh. Mér virðist allir hinir einhvern veginn tala sér þvert um hug á einn hátt eða annan. Alla vega eru sjálfstæðismennirnir nógu bognir til þess. Hæstv. forsrh. styður ekki stefnu frv. en styður væntanlega frv., eða hvað? Maður spyr á endanum: Hver styður í raun og veru þetta blessaða frv.? Eða eins og Kojak sagði: „Who loves you, baby?" Ég get ekki séð annað en þeir menn séu teljandi á fingrum annarrar handar sem eru kannske í hjarta sínu sannfærðir um að þetta sé rétt. En samt ætla þeir allir að samþykkja þetta. Niðurlæging löggjafarsamkundunnar getur ekki orðið öllu meiri.