27.11.1985
Neðri deild: 21. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

145. mál, stjórn fiskveiða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa umræðu þótt full ástæða væri til að hafa mjög langa umræðu um þetta mikilvæga mál. Það hefur margt komið fram í þessari umræðu og ég hygg að full ástæða hefði verið til að margir hefðu heyrt hana. Ég býst við að hún hefði á margan hátt verið fróðleg fyrir marga sjómenn sem fylgjast mjög vel með þessu máli. Ég verð að segja það alveg eins og er að í orðum sumra, sem hér hafa talað, er ekki mjög mikill vilji til málamiðlunar í þessu máli og ekki mikill skilningur á því hvað hér er um erfitt mál að ræða og hversu nauðsynlegt er að ná fram málamiðlun í því. Menn töluðu um, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, að hér væri eitthvert reglustikumeðaltal og hér væri verið að binda óáran í lög. Allt eru þetta slagorð og sleggjudómar sem ekki eiga við nein rök að styðjast og þetta mál verður ekki leyst með þeim hætti.

Það er búið að breyta ýmsu í þessari stjórnun frá því að fyrst var lagt af stað sem eðlilegt er. Menn telja hér upp marga aðila sem fara illa út úr þessu kerfi. Menn nefna smábátaeigendur og menn nefna ýmsa fleiri. En hverjir eru það þá sem hagnast svona óskaplega á þessari stjórnun? Þeir hafa ekki verið nefndir, enda hafa þeir almennt ekki verið nefndir í mín eyru. Hverjir eru það sem hafa hæstu aflakvótana í landinu? Það eru togarar, t.d. á Vestfjörðum. Eru þeir menn mjög ánægðir með sinn hlut? Nei, þeir telja að þeir hafi meiri möguleika en aðrir í samkeppninni og beri að fá meira í sinn hlut.

Auðvitað er það þannig með þetta mál, eins og tekjuskiptingarvandamálið í þjóðfélaginu almennt, að öllum finnst að þeir eigi meiri rétt og þeir eigi að fá meira. Það er það vandamál sem menn eru að glíma almennt við í þjóðfélaginu.

Ég vænti þess að hér geti orðið bærileg samstaða á Alþingi og niðurstaða í málinu. En ég fyrir mitt leyti er alveg viss um hver yrðu úrslit þessa máls ef það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn hafa verið að efast um það hér að fylgi væri meðal þjóðarinnar við það að hafa svipaða stjórn á veiðunum og hér er lagt til. Ég tel mig hafa talað við svo margt fólk og verið á svo mörgum fundum að ég viti nokkuð um það.

En auðvitað eru andstæðar skoðanir um málið og það mun alltaf verða og það var einnig um aðrar stjórnunaraðferðir sem hafa verið viðhafðar. Það hefur komið í ljós að verulegur hagur hefur verið af þessari stjórnun. Það er alveg rétt að illa er komið í sjávarútveginum. Þar er alvarlegt ástand. En það væri enn þá verra ef þetta hefði þó ekki verið tekið upp.

Eru menn ekki almennt að halda því fram hér á Alþingi að stefna beri að betri kjörum fyrir þessa þjóð? Menn verða þá að sýna það í verki að menn vilji eitthvað á sig leggja í þeim efnum og taka upp stjórnun og stýringu á okkar grundvallaratvinnuvegi sem leiðir til þess að kjörin geti orðið betri en þau annars hefðu orðið. Það er ekki þar með sagt að þau séu nægilega góð, það er allt annað mál.

Það eru aðeins nokkur atriði sem ég ætlaði að minnast á. Það eru í fyrsta lagi þau ummæli að illa hafi tekist að draga úr aflatoppum og þeir hafi fremur aukist við þessa stjórn. Nú er það svo að aflatoppar hafa alltaf verið. Ef við lítum í gegnum tíðina hefur mesti aflatoppurinn á undanförnum árum verið í apríl 1981. Þá komu á land tæp 109 þús. tonn. Árið áður var mesti aflatoppurinn í mars. Það voru tæp 95 þús. tonn. Á árinu 1978 var aflinn tæp 320 þús. tonn, eða verður nokkuð svipaður og hann gæti orðið í ár, þó heldur meiri væntanlega á árinu 1978. Þá var mesti aflatoppurinn í apríl, 60 þús. tonn, og minnst í október, 8500 tonn. Í ár er aflatoppurinn í mars, 51 þús. tonn, en í október er aflinn tæp 14 þús. tonn. Hann er einnig lægstur í þeim mánuði.

Það er alveg rétt, eins og kom fram hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni, að aflatoppurinn í júlí var 42 þús. tonn en í júlí 1978 var hann 39 þús. tonn. En aflinn í ágúst var hins vegar 24 þús. tonn í ár en 31 þús. 1978, eða heldur minni í ár í mánuðunum júlí/ágúst en á árinu 1978 sem er svipað aflaár. En þá áttum við eitthvað færri fiskiskip.

Það liggur fyrir að aflabrögðin í sumar hefðu getað orðið mun betri og hægt hefði verið að ná meiru á land.

Það hefði hins vegar verið hægt að taka minna og menn gátu bjargað aflanum í júlí m.a. með því að flytja hann út í gámum. Menn segja hér að ekki hafi verið tekið á gæðamálum o.s.frv. Menn vilja sem sagt stöðva veiðarnar á þessum tíma, hvort sem það er mönnum hagkvæmt eða ekki. Ég tel eðlilegt að menn fái að ráða því hvort það er hagstætt á þessum tíma. Það eru margir sem stöðvuðu veiðarnar á þeim tíma að nokkru leyti og það eru enn aðrir sem hefðu getað dregið verulega úr veiðunum. Ég býst við að menn geri það í meira mæli á næsta ári, nái betri stjórn á sinni vinnslu og sínum veiðum. Það verður aldrei lag á því nema þar verði verulegt sjálfræði og frelsi innan þessara marka. Það er engin leið að stjórna þessu upp á hvern dag með reglugerðum úr einu ráðuneyti. Ég tel því að þessar fullyrðingar, sem hér hafa komið fram, séu ekki alls kostar réttar og ekki sanngjarnt að taka aðeins þennan eina mánuð, það sé rétt að taka einnig aðra mánuði til viðmiðunar.

Hitt er svo annað mál að í apríl 1981 fór afli forgörðum, fór mikið í skreið o.s.frv. í þessum aflatoppi þá. Ég býst við því að aprílmánuður í ár gæti orðið mikill aflamánuður eða marsmánuður ef einn kvóti væri fyrir bátana og þeir væru allir í samkeppni að reyna að klára aflann. Ég býst við að þeir yrðu margir sem ætluðu sér að moka miklu á land til að ná sem bestum hlut úr kökunni.

Einnig hefur komið hér fram að ekki liggja fyrir hugmyndir um afla á næsta ári. Ég bið velvirðingar á því en ég hafði hugsað mér að nefna það að þorskúthlutunin í ár er 267 þús. lestir. Ég hef áður nefnt að ég sé þeirrar skoðunar að rétt sé að hækka þessa þorskúthlutun um 10% þannig að úthlutunin sé tæp 300 þús. tonn. En sú sveigja, sem er í stjórnuninni, getur leitt til allnokkru meiri veiði. T.d. gæti átt sér stað að veiðin yrði 330-340 þús. lestir. Síðan mun fara fram allumfangsmikil rannsókn á þorskstofninum nú í vetur. Eftir þá rannsókn liggja fyrir nýjar niðurstöður og þá ættu menn að fá enn betri upplýsingar um þorskstofninn til viðbótar þeim upplýsingum sem við höfum fengið á þessu ári. Þá tel ég rétt að taka ákvörðun að nýju í ljósi þeirra upplýsinga.

Það hefur verið lagt til að úthlutunin á öðrum tegundum verði sú sama og í fyrra. En það veldur verulegum vonbrigðum hvað lítið aflast af ýmsum öðrum tegundum en þorski. Útlit er fyrir að afli í þeim tegundum, ýsu, ufsa, karfa og grálúðu, verði u.þ.b. 60 þús. tonnum minni í ár en gert var ráð fyrir og úthlutað aflamagn var. En þorskaflinn eykst. Oft er gert mikið úr því að þorskveiðin hafi eflst og aukist verulega. En þar á móti kemur að aflaminnkunin í öðrum tegundum er mjög veruleg og er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af karfastofninum í því sambandi. Hins vegar hafa þau skip, sem hafa fengið úthlutaðan karfa, í nokkru getað bætt sér upp þá aflaminnkun með því að sækja nokkuð í þorsk. Þegar talað er um skrapdagakerfi verða menn því að hafa þessa staðreynd í huga, að hér er ekki um endalausa auðlind að ræða.

Ég vildi aðeins geta þess í sambandi við millifærslu milli skipa og útgerðaraðila, sem mjög hefur verið gagnrýnd af ýmsum aðilum, að á tímabilinu 1. jan. til 30. sept. hafa verið færðar á milli skipa í eigu sama útgerðaraðila 6000 lestir, milli skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð 12 þús. lestir rúmar, milli skipa þar sem skipt er á jöfnu um 4 þús. lestir og milli byggðarlaga tæpar 9 þús. lestir.

Auðvitað geta menn bannað þetta og hætt við þetta, eins og gjarnan hefur komið hér fram í ræðum manna. En það kom mjög skýrt fram í máli hv. 1. þm. Vestf. hvað þá væri verið að gera. Þá væri verið að koma á óhagkvæmni fyrir þjóðarbúið, draga úr sparnaði og tekjumöguleikum þjóðarinnar í heild. A.m.k. þýðir ekkert fyrir þá menn, sem eru að prédika slíka hluti, að halda því fram að það sé þeirra einlægur ásetningur að bæta kjörin hjá þjóðinni. Það er alveg út í hött fyrir þá að halda slíku fram. Auðvitað fylgja þessum millifærslum margvísleg óþægindi og árekstrar, það er alveg rétt. En það er nú svo með marga hluti að það er ekki allt saman þægilegt.

Að lokum vildi ég aðeins svara þeirri fsp., sem hv. þm. Svavar Gestsson kom með hér, þótt hann væri aðallega með fsp. til forsrh. Það er eins með hann og marga aðra þm. að þeir eru alltaf að velta sér upp úr ýmiss konar smámunum, hvort menn hafi verið í útlöndum til að sinna skyldustörfum sínum o.s.frv. Það er aðalmálflutningurinn hjá þessum ágætu mönnum. Að gera t.d. mikið úr því að forsrh. landsins skuli sinna ýmsum erindum Ég veit ekki betur en hv. þm. sé einnig að fara að sinna mikilvægum erindum á ráðstefnu erlendis. (SvG: Er ráðherra reiður?) Ég er ekki mjög reiður, en mér finnst þetta svo ómerkilegur málflutningur af þm. sem er búinn að vera hér til margra ára og gegna alls konar skyldustörfum að ég get ekki orða bundist. Að menn skuli þurfa á því að halda í íslenskri pólitík sjálfum sér til framdráttar að vera að velta sér upp úr svona málum. (SvG: Hvað með Pál Pétursson?) Já, já, það má endalaust tala um þessa hluti, hv. þm. Svavar Gestsson, en ég tel að það sé fyrir neðan þína virðingu og margra annarra þingmanna að tala með þessum hætti. Ég er svo sem ekkert reiður yfir þessu, en mér finnst þetta vera ómerkilegur leikur og sýna málefnafátækt. Það kemur að vísu ekkert á óvart frá þeim flokki sem hv. þm. er í forustu fyrir.

En ég skal svara þeirri fsp. sem hv. þm. bar fram. Það var varðandi veiðar á Vestfjarðamiðum. Ég býst við að þm. hafi verið á fundi á Patreksfirði, ég gæti trúað því, því að þar hefur málið valdið verulegum ágreiningi. Það er um það að ræða að 1984 var ákveðið að opna ákveðin svæði til þess að auka skarkolaveiðar vegna þess að menn vildu aukna nýtingu á þeim stofni. Þetta var strax umdeilt mál og fór fyrir marga og það svæði var minnkað og því breytt. Það var borið undir Fiskifélagið, það var borið undir sjómannasamtökin og það var borið undir hagsmunaaðila á Vestfjörðum líka. Niðurstaðan varð sú að þarna var opnað ákveðið svæði. Um þetta var fjallað í ráðgjafarnefnd o.s.frv. Hitt er svo annað mál að auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að taka þetta atriði til endurskoðunar í ljósi reynslunnar. Það er með þetta svæði eins og mörg önnur að reyna þarf að skapa sem mesta samstöðu. En þetta á víða við umhverfis landið. Trillumenn þola ekki að sjá togarana, netabátar vilja ekki sjá togara, togarar vilja ekki sjá að bátar séu að þvælast með netadræsur í námunda við þá, hvað þá trillur. Hér er því vissulega um mikla hagsmunaárekstra oft og tíðum að ræða og skiptar skoðanir.

Í slíkum málum reyna menn að finna ásættanlega leið og einhverja málamiðlun milli hagsmunahópa og það mun verða áfram gert að því er varðar þetta atriði.