28.11.1985
Sameinað þing: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

149. mál, samstarfssamningur Norðurlanda

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. utanrmn. hefur haft mál þetta til athugunar og mælir einróma með samþykkt till. Fund nefndarinnar sátu Guðmundur Einarsson og Eiður Guðnason og eru þeir samþykkir áliti þessu.

Þessu máli hafa verið gerð skil hér í fyrradag af hæstv. utanrrh. og raunar er allítarleg grg. með því eða athugasemdir og sé ég því ekki ástæðu til að ræða málið efnislega, enda er það í sjálfu sér einfalt í sniðum.

Hins vegar langar mig að nota þetta tækifæri til þess að víkja að einni hlið samstarfs eða samráðs Norðurlandanna sem við Íslendingar tökum þátt í og fram kemur í þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var hér á hinu háa Alþingi 23. maí 1985. Það er 6. liður till. þar sem fyrst er fjallað um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, en síðan segir:

„Því felur Alþingi utanrmn. að kanna í samráði við utanrrh. hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Skili nefndin um það áliti til Alþingis fyrir 15. nóv. 1985.“

Hv. utanrmn. hefur að sjálfsögðu haft mál þessi til umfjöllunar. Seinna hefur gengið að vinna verkið en menn vonuðu, en engu að síður hefur utanrrn. safnað miklum gögnum og menn vinna nú sem óðast að því að skoða þau og vinna úr þeim og hafa notið aðstoðar öryggismálanefndar einnig.

Eins og fram kemur í þessum orðum er hér um það að ræða að kanna frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Svo vill einmitt til að það er verið að gera þessa dagana og þm. frá öllum þingflokkum verða á þingmannafundi um þetta efni í Kaupmannahöfn á morgun og laugardag. Þó að nefndin hafi þannig ekki beint komið frá sér áliti verður að játa að það hefur að málunum verið unnið og verður unnið næstu dagana og vona ég að menn geti sætt sig við það. Hins vegar hljótum við auðvitað að keppa að því að koma áliti frá okkur, en það er hreint ekki vandalítið verk og upplýsingarnar gífurlega miklar.