28.11.1985
Sameinað þing: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

17. mál, fylkisstjórnir

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér er til umræðu um að gert verði frv. til stjórnarskipunarlaga og um fylkisstjórnir er allrar athygli verð, og ég get tekið undir og hef reyndar tekið undir þær hugmyndir sem þar er að finna um aukna sjálfsstjórn og valddreifingu í landinu með ákveðnum hætti.

Ég flutti á síðasta þingi ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þáltill. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga. Þegar þessi mál eru borin saman, sem hér eru til umræðu, er vissulega á þeim nokkur munur og talsverður munur þar sem í þeirri þáltill., sem ég mælti fyrir fyrr á þinginu og var 3. mál þessa þings, er tekið víðtækar á ýmsum þáttum og hugmyndin um valddreifingu tengd nauðsyninni á nýrri byggðastefnu, nýrri stefnumörkun í byggðamálum til að koma í veg fyrir þann fólksflótta utan af landi hingað til höfuðborgarsvæðisins fyrst og fremst, sem er í fullum gangi og vaxandi síðustu ár, og að íbúum landsbyggðarinnar verði tryggð eðlileg hlutdeild í þeim arði sem þeir leggja til þjóðarbúsins.

Ég er þeirrar skoðunar, og það er engin frágengin skoðun í mínum flokki út af fyrir sig, mál eru þar á umræðustigi, að til þess að spyrna við þeirri óheillaþróun sem í fullum gangi er þurfum við ný tök á stjórnsýslunni í landinu og aðsetri og uppruna valds. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stofnun nýs stjórnsýslustigs milli ríkis og sveitarfélaga geti verið mjög mikilvægt tæki í því sambandi ef vel tekst til um útfærslu á slíku stjórnsýslustigi.

Í þeirri þáltill. sem ég flutti ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e. á síðasta þingi og aftur í haust gerum við ráð fyrir að komið verði á meiri valddreifingu en nú er með því að flytja heim í héruð verkefni og ákvarðanir til lýðræðislega kjörinna stjórna og til sveitarfélaga um leið og þeim verði tryggðir nýir og sjálfstæðir tekjustofnar. Í till. okkar er lögð mikil áhersla á varðandi slíkar stjórnir - hvort menn kalla þær héraðsstjórnir eða fylkisstjórnir er spurning um orð má segja - að grundvallarnauðsyn sé að þær séu lýðræðislega kjörnar í beinum kosningum á viðkomandi svæði. Það er meginhugsun hjá okkur flm. þess máls að fjármagn fylgi slíkum aðgerðum, tekjustofnar verði tryggðir. Við erum fyrst og fremst að tala um að verkefnin flytjist frá ríkisvaldinu út um landið. Megináherslan er lögð á það í okkar till. að það verði um dreifingu á valdi og verkefnum að ræða sem nú eru í höndum ríkisins. Hitt getur einnig verið til álita og hlýtur að verða það, ef og þegar slíkt stjórnsýslustig verður stofnað, að sveitarfélögin vísi ákveðnum verkefnum, sem falla til sem samstarfsverkefni innan viðkomandi svæðis, til hinna nýju héraðsstjórna eða fylkisstjórna, hvað sem menn kjósa að kalla slíka yfirstjórn.

Við höfum í umræddu þingmáli, sem ég leyfi mér að tengja við umræðu um þetta mál lítillega, bent á tiltekna málaflokka sem þarna sé eðlilegt að flytja þannig út til héraðsstjórna, sem við köllum svo, og nefnum þar dæmi eins og húsnæðismál, almannatryggingar, skipulagsmál, menntamál og byggðamál og eigum þá við málefni Byggðastofnunar og það fjármagn sem gert er ráð fyrir að dreifa til sérstakra byggðaráðstafana í landinu, að því verði ekki skipt í miðstýrðri stofnun undir stjórn eins og nú hefur verið sett yfir Byggðastofnun, heldur verði slík dreifing fjármagns til byggðamála og styrktar byggðar í landinu verkefni slíkra héraðsstjórna eftir því sem við getur átt. Við gerum ráð fyrir að þessar héraðsstjórnir fái ákvörðunarvald í málum sem varða viðkomandi svæði og þar á meðal skiptingu fjármagns sem Alþingi veitir nú til tiltekinna málaflokka, eins og fræðslumála, samgöngumála og heilbrigðismála svo dæmi séu tekin um málaflokka þar sem hið opinbera, ríkisvaldið, leggur til fjármuni, að vísu í allt of skornum skammti og í minnkandi mæli nú hin síðustu ár.

Héruð í þeirri mynd sem hér er verið að tala um eða fylki geta vissulega einnig orðið ráðgefandi vald í ýmsum málum sem sameiginleg eru með ríki og sveitarfélögum, en ég legg áherslu á það sjónarmið mitt að hér er fyrst og fremst um það að ræða að flytja verkefni frá ríkisvaldinu út til héraða, út til svæðisstjórna.

Spurningin um fjármagn hlýtur að vera uppi í þessu samhengi og ég hef vísað til margra möguleika til að færa til tekjustofna frá hinu opinbera út til slíkra sjálfstæðra eininga og að bæta við nýjum tekjustofnum þar sem tekið verði tillit til verðmætasköpunar á viðkomandi svæðum og með þessum hætti verði flutt fjármagn í auknum mæli út til landsbyggðarinnar þar sem undirstöðuverðmæti í þjóðarbúskap okkar nú falla til, verðmæti sem í allt of ríkum mæli sogast nú inn í hið miðstýrða kerfi á höfuðborgarsvæðinu og þó ekki síður til þjónustuverkefna, bæði opinberra aðila og einkaaðila, á þessu svæði.

Spurningin um viðgang landsins alls, og ég er ekki hér að mæla gegn viðgangi höfuðborgarinnar og næsta nágrennis í eðlilegum mæli, er um það hverjir eru farvegir fjármagnsins. Hún er um það hver verður atvinnuþróunin í framtíðinni í einstökum landshlutum og landinu sem heild, hvar á sér stað nýsköpun í atvinnumálum. Og hún er ekki síst spurningin: Hvar vex upp þjónustustarfsemin, viðskipti, verslun, opinber stjórnsýsla og annað sem við tengjum við þjónustustarfsemi, hvar vex hún í framtíðinni? Hvar fellur hún til?

Hvar verða þau störf til sem nú eru vaxtarbroddurinn í nýjum störfum og að flestra mati verða það áframhaldandi. Það mun ráða úrslitum um þróun byggðar í landinu a.m.k. á næstu áratugum og svo langt sem við fáum séð.

Eins og stendur, litið til síðustu átta ára eða svo sem við höfum tölulegt yfirlit yfir, falla til níu störf í þjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu á móti u.þ.b. einu starfi sem fellur til í þjónustustörfum utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkt er misvægið í sambandi við þennan vaxtarbrodd í nýjum störfum og viðfangsefnum í okkar þjóðfélagi. Menn sjá í hversu hrópandi ósamræmi það er við þá verðmætasköpun í undirstöðugreinum sem til fellur í okkar landi.

Ég ætla hér ekki, herra forseti, að hafa mörg fleiri orð um þau mál sem hér eru til umræðu en ég tel þau sannarlega umræðuverð, tímabært umræðuefni fyrir Alþingi. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu um þjóðfélagsþróun hér í landinu í framtíðinni hver verður niðurstaðan úr þeirri umræðu sem nú er í gangi.

Ég er ekki á neinum stífum gormum í sambandi við útfærslu í einstökum atriðum varðandi þetta mál. Þar geta menn hugsað sér tilhögun af ýmsu tagi, t.d. varðandi markalínu milli héraða eða fylkja og varðandi einstaka tekjustofna og annað sem snertir þær hugmyndir sem menn gera sér um uppbyggingu slíkra eininga. En ég tel þó að vænlegast til að koma þessum málum í höfn fyrr en seinna sé að tengja héruðin, fylkin, við núverandi kjördæmi í landinu eftir því sem hægt er að ná samkomulagi um. Ég tel að í rauninni geti núverandi kjördæmaskipan verið grundvöllur slíkra eininga nema í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi þar sem nokkuð augljóst er að annað fyrirkomulag væri skynsamlegra, að sameina höfuðborgarsvæðið í þeirri merkingu sem menn almennt ræða um það og taka Reykjanes eða Suðurnes sér sem einingu vegna þeirrar sérstöðu sem það svæði hefur að mörgu leyti. Menn geta svo rætt og velt fyrir sér, sem áhuga hafa á þessum hugmyndum, hvort æskilegt og nauðsynlegt sé að deila höfuðborgarsvæðinu sem slíku upp í slíkar einingar til að auka áhrif og vald fólksins umfram það sem ella væri í því mikla þéttbýli á íslenskan mælikvarða sem hér er á Reykjavíkursvæðinu.

Ég er með þessum jákvæðu orðum í garð þeirra hugmynda, sem mælt er fyrir í þessari þál. og ég hef tekið undir í þingmálum, ekki að gefa einkunn einstökum útfærsluatriðum í grg. með þessari tillögu eða orðum sem þar standa sem mörg eru umdeilanleg út af fyrir sig og eiga kannske ekki endilega erindi inn í þetta efni. Ég sé að í sambandi við fylkjaskipulag er tæpt á mörgum hugmyndum og í aðra átt en ég hef hér nefnt um stærð svæða, a.m.k. varðandi það sem líta verður á sem aðalhugmynd flm. um fjögur svæði, þó að nefnd séu dæmi um annað sem möguleika.

En ég tek að endingu undir það, sem hér hefur komið fram, að mikil nauðsyn er á því að umræða um þessi mál haldi áfram og menn leiti möguleika á samstöðu, ásættanlegri niðurstöðu, í sambandi við þessi mál. Þær vanburða hugmyndir, sem komu fram í frv. ríkisstj. til sveitarstjórnarlaga, eru þess efnis að þær hafa lítinn byr fengið hér í umræðum á Alþingi a.m.k. og engan veginn þannig að ég geti undir þær tekið, hugmyndirnar um héruð í IX. kafla þess frv. Það þarf að taka með allt öðrum hætti á þessum málum, lýðræðislegum hætti, sem ekki er gert þar í sambandi við þær hugmyndir um héruð sem leysa eigi sýslur af hólmi og fram koma í því frv.