28.11.1985
Sameinað þing: 23. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

62. mál, fjárhagsvandi vegna húsnæðismála

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég sé að nokkuð er liðið á þingtíma og ég mun mjög stytta mál mitt, enda til lítils að halda hér ræðu þar sem fæstir þm. eru hér í salnum, en ég mun leggja á það áherslu að koma þessu máli til nefndar. Það mál sem ég mæli fyrir er till. til þál. um könnun á fjárhagsvanda vegna húsnæðismála sem liggur hér frammi á þskj. 64, og er 62. mál þingsins.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar fara fram könnun á fjárhagsvanda þeirra sem byggt hafa eða keypt íbúðarhúsnæði á s.l. fimm árum.

Eftirfarandi þættir skulu rannsakaðir:

A. Umfang vandans:

1. fjöldi þeirra sem skulda svo háar upphæðir að óviðráðanlegt sýnist í hlutfalli við tekjur og tekjumöguleika,

2. fjöldi þeirra sem nú þegar eru í vanskilum vegna húsnæðislána,

3. fjöldi þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með að standa í skilum á húsnæðislánum,

4. hvenær bygging hófst eða kaup áttu sér stað,

5. fjöldi þeirra sem ætla má að lendi í erfiðleikum með greiðslur húsnæðislána á næstu missirum að launum og lánskjörum óbreyttum,

6. fjöldi auglýstra og framkvæmdra nauðungaruppboða á íbúðarhúsnæði á síðustu fimm árum,

7. áhrif þróunar lánskjaravísitölu og launa á síðustu fimm árum á greiðslubyrði vegna húsnæðislána.

B. Hvaða þjóðfélagshópar eiga í mestum erfiðleikum:

1. hvaða starfsstéttir eiga í mestum greiðsluvanda vegna húsnæðislána og

2. hvaða aldurshópar,

3. hvaða þjóðfélagshópar eru líklegastir til að eiga í erfiðleikum með að afla viðunandi húsnæðis á næstu árum miðað við núverandi aðstæður,

4. hvaða tekjur eru nauðsynlegar fjölskyldu til að raunhæft sé að ætla henni að eignast hæfilegt íbúðarhúsnæði miðað við núgildandi lánskjör og greiðsluskilmála.

Félagsvísindadeild Háskóla Íslands verði falið að annast könnunina og ljúka henni fyrir 1. mars 1986. Niðurstöður verði tafarlaust lagðar fyrir Alþingi.

Ríkissjóður greiði kostnað við könnunina.“

Herra forseti. Þessu máli fylgir grg. sem ég held að segi það sem um þetta mál er að segja. Ég vil þó aðeins bæta við, vegna hinna fáu hv. þm. sem hér eru staddir, að ég tel að svo beri oft við í okkar þjóðfélagi að menn séu að tala um lausnir á vanda sem þeir hafa ekki skilgreint og skilja ekki. Það skiptir nefnilega töluverðu máli að vita hver vandinn er til þess að geta komið með tillögur til að leysa hann. Húsnæðisvandi eins er oft á engan hátt sambærilegur við húsnæðisvanda annars. Við erum öll sammála um að hverjum einasta manni beri réttur til að hafa þak yfir höfuðið og Ísland er í þeirri sérstöðu að eðlilegast er talið að hver eigi sitt húsnæði sjálfur. Ekki skal ég hafa á móti því og vel má vera að það sé Íslendingum eðlilegast, þó að hugsa mætti sér aðrar leiðir. En miðað við nýlega athugun á áhuga manna á svokölluðum búseturéttaríbúðum sýnist eignarhúsnæði sannarlega eiga meiri vinsældum að fagna hér á landi. Og við notum opinbera sjóði til þess að lána fólki til húsnæðiskaupa og þyrfti það að vera miklu meira. Hins vegar er lítið tillit tekið til þarfa þeirra sem húsin eru að byggja eða kaupa, og allt of lítil áhersla er lögð á að mínu viti að gera fólki kleift að eignast húsnæði í fyrsta sinn. Mér finnst koma til greina að hafa reglur miklu strangari um húsnæði á síðari stigum. Það er ekki nokkur vafi á því að fjölmargir okkar ágætu landa eru að byggja allt of stórt húsnæði, enda húsnæði samanlagt á Íslandi meira en nokkurs staðar annars staðar gerist.

Það sem er hins vegar alvarlegt eins og nú standa sakir er það að fjöldi manna er á gjaldþrotsbarmi og er að missa eignir sínar. Við höfum talað um þetta hér fram og aftur og er óþarfi að endurtaka það að svo hlaut auðvitað að fara þegar allt er verðtryggt í landinu nema laun manna. Hér á sér nú stað hrein eignaupptaka þar sem eignir manna lækka í verði vegna þess einfaldlega að framboð er orðið mikið og erfitt að selja fasteignir og á sama tíma hefur vaxtastefnan valdið því að menn grynna á engan hátt á skuldum sínum þó þeir borgi og borgi í sífellu.

Hvernig ríkisstj. ætlar að láta það viðgangast að fjöldi manna standi uppi eignalaus eftir margra ára strit til þess að koma yfir sig þaki er mér hulin ráðgáta, og satt að segja hef ég enga trú á því að það takist, en andvaraleysi ríkisstj. undrar mig þeim mun meira. Ég held að við þurfum að setja þetta mál í forgang og hleypa þessari könnun af stað áður en í gjörsamlegt óefni er komið, því að allar þær tillögur sem lagðar hafa verið fram eru gjörsamlega út í hött. Það skiptir í raun og veru ekki öllu máli hvort settar verða 200 millj. til eða frá í húsnæðiskerfið, það kemur nákvæmlega engum að gagni. Það er alveg ljóst og vitað að þær 150 millj. sem fóru sem aukatillag á þessu ári hafa einungis leyst til örfárra mánaða vanda örfárra húsbyggjenda og húskaupenda. Vandamálið er jafnóleyst eftir 6 mánuði eða svo.

Það er t.d. vitað að fjölskylda sem skuldar 1,2 millj., sem er ekki óalgengt, þó að hún hafi 70 000 kr. á mánuði - sem er ekki algengt jafnvel þó bæði hjón afli tekna - getur ekki staðið straum af þessum skuldum. Það er alveg vitað. Og það er hægt að reikna það ósköp einfaldlega út að á annað hundrað þús. kr. á ári vantar til þess að dæmið gangi upp. Þá getum við hugsað okkur hvernig önnur og verri dæmi líta út. Það er því alveg ljóst að hér verður að bregðast við vegna þess að fjárhagsvandi þessa fólks er ekki lengur einkamál þess. Það er ekki einkamál þess. Þetta er að verða þjóðfélagsvandi. Og til þess er Alþingi Íslendinga að bregðast við slíkum vanda.

Ég ætla ekki að fara að koma hér með frekari tölur. Við vitum öll að frá árinu 1979 er mismunur á vísitölu launa og lánskjaravísitölu orðinn sá að ef við miðum við að hvort tveggja var 100 árið 1979, þá er lánskjaravísitalan nú 119. Þetta getur auðvitað ekki gengið. Menn hafa rætt hér í löngum tölum um okur og okurkarla, en við skulum bara horfast í augu við að verstu okrararnir í þessu landi eru ríkisstj. sjálf og bankakerfið sem hún stýrir.

Ég vil leggja á það áherslu að til þess að geta komið með raunhæfar tillögur til úrbóta verðum við að fá að vita: Hvar er þessi vandi verstur? Hjá hverjum er hann verstur? Það er ekki tilviljun að ég hef lagt hér til að félagsvísindadeild Háskólans verði falið að annast þessa könnun. Það er vegna þess að ég veit að hún getur leyst þetta verkefni fyrir 1. mars. Ég hef rætt við menn þar og þeir treysta sér léttilega til að ljúka þessari könnun fyrir 1. mars. Þeir hafa nú þegar töluverðar upplýsingar af því sem hér er um beðið. Og vitaskuld er tekið fram hér í grg. að þeir hafi samvinnu og samráð við þá milliþinganefnd um úrbætur í húsnæðismálum sem nú situr og aðra þá aðila sem upplýsingar hafa er nýst gætu í könnuninni.

Ég held að ef við eigum ekki að standa frammi fyrir verulegum fólksflótta úr landinu og algjörri uppgjöf, bæði félagslega og menningarlega, þá verði að bregðast við þessu. Það er alveg ljóst að námsfólk erlendis sem hér fyrr á árum skilaði sér næstum allt til landsins er nú í stórum hópum ákveðið í því að verða kyrrt þar sem það hefur verið að læra. Fólki einfaldlega fallast hendur við að eiga eftir að koma inn í þessa svikamyllu sem hér á sér stað í húsnæðismálum og vitaskuld til þeirra launakjara sem upp á er boðið.

Maður getur rætt um þetta mál frá mörgum hliðum en ég skal reyna að stytta mál mitt eins og ég get, herra forseti. Það segir sig sjálft að hér er ekki bara um fjárhagsvandamál að ræða, hér er líka um félagslegt vandamál að ræða. Því er ekki mótmælt á geðsjúkrahúsum borgarinnar - og því tek ég svo til orða að það er orðrétt það sem yfirlæknar sögðu, sem eru almennt orðvarir menn og ekki þess fýsandi að upplýsa um sjúklinga sína af eðlilegum ástæðum - en þeir sögðu að því yrði ekki mótmælt að um verulega aukningu hefði verið að ræða á innlögnum á fólki sem brotnað hefði saman vegna erfiðleika í húsnæðismálum. Og við getum sagt okkur sjálf hvernig það vinnuálag er og sú streita sem fylgir því að vera að horfa á eftir eignum sínum á nauðungaruppboð, hver áhrif slíkt hefur á börn og unglinga og þvílíka vanrækslu það hefur í för með sér á litlum börnum. Því það getur hver sagt sér sjálfur að þegar foreldrar vinna fram á nætur eru það börnin þau sem borga brúsann. Og það er auðvitað fullkomið ábyrgðarleysi af hinu háa Alþingi að vera ekki fyrir lifandi löngu búið að bregðast við þessu ástandi eins og það er í dag.

Herra forseti. Ég get ekki séð að þetta mál sem hér liggur fyrir sé í eðli sínu flokkspólitískt. Ég held að það hljóti að vera hagur allra landsmanna og Alþingis alls að eitthvað vitrænt og raunhæft verði gert í þessum málum. Það hlýtur að vera hverjum alþm. ljóst að þetta ástand getur ekki haldið áfram eins og nú horfir, því að þá er sýnt að hundruð manna í landinu, hundruð fjölskyldna hreinlega missa húsnæði sitt sem oft er afrakstur margra ára mikillar vinnu og þrotlausrar tekjuöflunar. Ég vil því, herra forseti, óska eftir því að þetta mál fari til hv. félmn. Sþ. og skora á nefndarmenn þar að greiða fyrir því að það verði afgreitt fljótt svo að þessi könnun geti farið í gang og henni skilað inn til hins háa Alþingis fyrir 1. mars á næsta ári.

Ég held að öll þau úrræði sem hingað til hafa verið borin fyrir okkur, og eru raunar ekki mörg, þau séu að mestu leyti byggð á litlum, röngum eða engum upplýsingum. Og ég tel að það sé ekki vænlegt að koma með tillögur til úrbóta sem byggðar eru á svo lítt rannsökuðum grunni.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.

Umr. (atkvgr.) frestað.

1