02.12.1985
Efri deild: 20. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

117. mál, stjórnarskipunarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm. hefur komið inn á nokkur þau atriði sem ég vék að í minni ræðu, en þó ekki nándar nærri öll. Hins vegar er ég ekki viss um að ég hirði um að elta ólar við þau atriði eða fá frekari skýringar af hálfu 1. flm. og frsm. á þeim atriðum.

Þegar hv. þm. Ragnar Arnalds víkur að því að mörg atriði í stjórnarskrá verði fremur skýrð í lögum en annars staðar vil ég ítreka það, sem ég átti fyrst og fremst við um skýringar hugtaka, að hv. flm. leitaðist við í sínum málflutningi þótt ekki væri nema að viðra að hluta til skýringar á hugtökum. Mér dettur ekki í hug að ætlast til þess að hv. flm. setji fram skilgreiningar á einstökum efnisatriðum. Þó tel ég nauðsynlegt, ekki síst til þess að átta sig á samhengi frv., að ákveðin atriði séu nokkuð ljós. Það er einmitt þess vegna og ekki síst þess vegna sem ég spurði um nokkur atriði. Ég hefði kosið að hv. 1. flm. og frummælandi hugleiddi t.d. hér í pontu hvað væru „þéttbýlissvæði í næsta nágrenni“.

Nú hefur verið að því vikið af öðrum en mér að þetta frv. ætti að koma til umfjöllunar, sem það hefur þegar gert, og ætti að fjalla um það í nefnd, en síðan eigi það að liggja í salti. Ég geri ráð fyrir að hv. 1. flm. sé á öðru máli um það. Ég hygg að menn flytji þingmál í því augnamiði að þau nái eitthvað lengra. (RA: Þetta orð skýrir sig alveg sjálft.) Já, það má vel vera.

Enn fremur stendur hér „óveruleg áhrif til verðhækkunar“. Þetta er þannig orðað: „Við eignarnám á landi, í þéttbýli sem dreifbýli, skal almennt ekki taka tillit til verðhækkunar sem stafar af uppbyggingu þéttbýlissvæða í næsta nágrenni, opinberum framkvæmdum eða öðrum ytri aðstæðum, heldur ber að miða mat við verðmæti hliðstæðra eigna þar sem þess háttar aðstæður hafa óveruleg áhrif til verðhækkunar.“

Ég minnti á í minni fyrri ræðu atriði sem að nokkru leyti gæti talist hliðstæða í þessu efni. Ég minnti á misjafnt íbúðarverð í landinu, ekki einasta milli landshluta, milli byggðarlaga, heldur jafnvel t.d. á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þessar eignir ganga kaupum og sölum og er ekkert við því að segja. fullyrði að í mjög mörgum tilvikum nýtur einstaklingurinn við sölu á íbúð eða íbúðarhúsi verðhækkunar á sinni íbúð m.a. með tilliti til staðsetningar íbúðarinnar sem hann í sjálfu sér hefur ekkert haft með að gera. Ýmis atriði önnur geta að sjálfsögðu valdið breytilegu verði á íbúðum sem íbúðareigandinn hefur ekkert haft um að segja, t.d. uppbygging mikilvægra þjónustumiðstöðva í nágrenni við viðkomandi íbúð sem leiðir til allverulegrar verðhækkunar. Og eins og ég minntist á áðan: Hvað um mjög mismunandi verð íbúða milli byggðarlaga? - Nú víkur 1. flm. úr salnum og er þá erfiðara að ræða frv.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. fleiri orð. Ég tek undir það sem hv. þm. Haraldur Ólafsson vék að. Auðvitað verður fjallað um þetta í nefnd. Hins vegar væri æskilegra að þegar slík stórmál eru á dagskrá létu fleiri þm. til sín taka við umfjöllun þeirra. Hér er ekkert smámál á ferðinni heldur mál sem varðar að mínum dómi grundvallarréttindi manna.

Því miður eru enn ýmis atriði frv. óljós og ég hygg að þau séu óljós fyrir fleirum en mér. En ég læt þetta nægja.