02.12.1985
Neðri deild: 22. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

152. mál, stöðvun okurlánastarfsemi

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stöðvun okurlánastarfsemi. Þetta er 152. mál á þskj. 166. Frv. þetta er flutt, eins og reyndar segir í grg., til að setja þegar í stað skorður við ört vaxandi okurlánastarfsemi. Að hluta til eru hér á ferðinni tillögur sem Alþb. hefur áður flutt á hv. Alþingi, t.d. ákvæðin um nafnskráningu skuldabréfa og eftirlit á þessu sviði og má í því sambandi minna á frv. okkar þm. Alþb. í Nd. á síðasta þingi um verndun kaupmáttar og viðnám gegn verðbólgu o.fl.

Þetta frv. er einnig lagt fram í kjölfarið á þeirri miklu umræðu sem fram fór hér á hv. Alþingi að forgöngu okkar Alþýðubandalagsmanna fyrir skömmu um vaxtamál og okurvexti og okurlánastarfsemi o.fl. í þeim dúr. Þá gafst tækifæri til að spyrja hæstv. ríkisstj. um fyrirætlanir hennar í þessum málum og í ljós kom að engar aðgerðir voru á næsta leiti frekar en ráðherrar hér í hv. þingdeild í dag, herra forseti, af hálfu hæstv. ríkisstj. Þetta teljum við flm. frv. óviðunandi, eins og ég tel það óviðunandi, herra forseti, að hér skuli engir hæstv. ráðherrar vera viðstaddir á fundi deildarinnar. Þess vegna leggjum við þetta frv. fram nú þegar í stað og leggjum á það áherslu að gangur þess hér í gegnum þingið verði greiður.

Við viljum sem sagt að sett verði þegar í stað lög sem tryggi að þessi viðskipti lúti ákveðnum lágmarksreglum og lög sem auðveldi eftirlit með hvers kyns skuldabréfaeða verðbréfaviðskiptum, en slík lög eru eins og alkunnugt er ekki fyrir hendi í dag. Þar af leiðandi er öll þessi starfsemi án nokkurrar lagastoðar og gerir það þeim aðilum sem ella gætu hugsanlega haft eftirlit á þessu sviði ókleift að gera svo.

Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, herra forseti, jafnmiklar umræður og orðið hafa þegar um ástand þessara mála. Við flm. leggjum, eins og ég sagði áðan, áherslu á að málið fái hér sem greiðastan framgang og sem fyrst megi á það reyna hvort eða hvað hv. Alþingi er tilbúið að leggja af mörkum í þessum efnum. Ég mun nú renna yfir einstakar greinar frv., herra forseti, og geta helstu skýringa þar við.

1. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta: „ÖII skuldabréf, sem gefin eru út eftir gildistöku laga þessara, skulu skráð á nafn og nafnnúmer. Handhafaskuldabréf útgefin fyrir gildistöku laganna skulu skráð á nafn á næsta gjalddaga eftir að lög þessi taka gildi.“

Í athugasemdum við 1. gr. segir: „Greinin er nokkurn veginn samhljóða 2. tölul. 9. gr. frv. þingmanna Alþb., um verndun kaupmáttar o.fl., sem flutt var snemma á síðasta þingi og gerði ráð fyrir því að öll skuldabréf yrðu framvegis skráð á nafn og handhafaskuldabréf þar með afnumin. Þetta efnisatriði er hér með endurflutt. Jafnframt er lagt til að þau handhafaskuldabréf, sem nú eru í umferð, verði skráð á nafn næst þegar greitt er af þeim eftir gildistöku laga þessara.“

Í 2. gr. segir: „Þegar veðskuldabréfi er þinglýst skal fógeti senda viðkomandi skattstofum upplýsingar um skuldabréfið, kaupanda þess og seljanda.“

Og þetta er eins og skilja má ákvæði sérstaklega sett inn til þess að skattstofur landsins fái tafarlaust allar upplýsingar um ný skuldabréf, um kaupendur og seljendur. Þar með á skattyfirvöldum í landinu að vera kleift að fylgjast með þessum viðskiptum, fylgjast með bréfum og krefja eigendur þeirra á hverjum tíma um allar upplýsingar varðandi tekjur af þessum bréfum. Þetta ákvæði er forsenda þess að hægt sé að skattleggja vaxtatekjur eða tekjur af slíkum viðskiptum, auk þess sem það er veigamikill liður í öllu skatteftirliti að þessi viðskipti séu uppi á yfirborðinu.

Í 3. gr. segir: „Þeir, sem starfrækja verðbréfamiðlun eða fasteignasölu, skulu hafa sérstök leyfi til starfseminnar. Leyfi til verðbréfamiðlunar skulu gefin út af viðskiptaráðuneyti en leyfi til fasteignasölu af félagsmálaráðuneyti. Leyfin skulu gilda til tveggja ára í senn.“

Um 3. gr. segir í skýringum: „Gert er ráð fyrir því að til þess að starfrækja verðbréfamiðlun og fasteignasölu þurfi leyfi frá viðkomandi ráðuneytum og séu þau aðeins gefin út til tveggja ára í senn.“

Þetta er svipaður háttur og hafður er á í nálægum löndum þar sem öll slík starfsemi er háð leyfum og okkur þykir eðlilegt að í þessu tilfelli sé það viðkomandi ráðuneyti, viðskrn. og félmrn., sem fylgist með þessari starfsemi og gefi út leyfi og endurnýi þau síðan á tveggja ára fresti ef ástæða þykir til. Það er eðlilegt að leyfin séu gefin út til takmarkaðs tíma. Það má deila um það hvort það ætti að vera eitt, tvö, þrjú ár eða eitthvað af því tagi.

Í 4. gr. segir: „Bankaeftirlitinu er heimilt að rannsaka fjárhag og rekstur þeirra aðila sem leyfi hafa hlotið til verðbréfamiðlunar skv. 3. gr. Form viðskiptaskjala, sem fela í sér skuldbindingar og geta gengið kaupum og sölum hjá verðbréfamiðlunum, skulu hafa hlotið samþykki bankaeftirlitsins. Félmrn. skal setja sambærilegar reglur um fasteignasölur og getur ráðuneytið samið við bankaeftirlitið um eftirlit með þeim.“

M.ö.o.: Bankaeftirlitið tæki sjálfkrafa upp og fengi eftirlit með þeim aðilum sem leyfi hlytu frá viðskrn. og félmrn. gæti samið um slíkf hið sama.

Í skýringum við 4. gr. segir: „Með ákvæðum þessarar greinar verður bankaeftirlitinu heimilt að hafa reglulegt eftirlit með þeim fyrirtækjum sem hér um ræðir. Þá er gert ráð fyrir því að form skuldabréfa og annarra skuldaviðurkenninga verði samþykkt af bankaeftirlitinu. Sambærileg regla hefur verið lögleidd í grannlöndum okkar.“

Hér er um tiltölulega einfalt ákvæði en mjög þýðingarmikið að ræða, þ.e. að engin form skuldabréfa eða annarra viðurkenninga, sem gengið geta kaupum og sölum, skuli teljast lögleg nema þau hafi áður fengið samþykki og viðurkenningu bankaeftirlits. En þessu er ekki til að dreifa í dag og nánast má gefa út slík bréf eða slíkar skulda- eða viðskiptaviðurkenningar á hvaða sneplum sem vera skal. Það er auðvitað ótækt og gefur auga leið að allt eftirlit er mun auðveldara ef hér er um stöðluð og samræmd skuldabréfaform að ræða.

Í 5. gr. segir: „Skuldabréf, sem ekki eru í samræmi við ákvæði laga þessara, eru ógild. Á nafnlausum bréfum verða því ekki reistar innheimtukröfur af neinu tagi.“

Þetta miðar þá við þann tíma þegar skuldabréf hafa komið til innborgunar eftir að lög þessi hafa tekið gildi, þá skulu þau frá og með þeim tíma vera skráð á nafn eða ógild ella.

Í skýringum við 5. gr. segir: „Sett er inn í frv. öryggisákvæði um að skuldabréf eða hliðstæð kröfubréf falli úr gildi ef þau fullnægja ekki skilyrðum þessara laga. Þar með verða ekki reistar innheimtuaðgerðir. fjárnám, lögtök né nauðungaruppboð á grundvelli slíkra bréfa.“

Með tilliti til þess að mikill fjöldi bréfa er í gangi án þess að fullnægja skilyrðum þessa frv., ef að lögum yrði, þá er nauðsynlegt að setja slíkt ákvæði til að kveða upp úr um það að slík bréf teldust ólögleg. frá og með þeim tíma sem þau hafa komið inn til afborgana, yrðu þau ekki skráð á nafn í það skipti.

Í 6. gr. segir: „Bankar og innlánsstofnanir. svo og verðbréfafyrirtæki og fasteignasölur sem hlotið hafa leyfi skv. 3. gr., skulu senda skattstofum allar upplýsingar um kaup og sölu verðbréfa og greiðslur inn á verðbréf fyrir 20. janúar ár hvert fyrir viðskipti næstliðins ár.“

Þetta er hliðstætt ákvæði því sem er í 2. gr. og lýtur að skatteftirliti og til að auðvelda allt skatteftirlit með starfsemi verðbréfa, fyrirtækja og fasteignasala.

Í skýringum við 6. gr. segir: „Ákvæði greinarinnar miða að því að auðvelda allt skatteftirlit með starfsemi verðbréfafyrirtækja og fasteignasala. Þannig verður þeim skylt að gera skattyfirvöldum grein fyrir öllum viðskiptum sínum. Hið sama gildi um banka og þar með felld niður bankaleynd að hluta til. Ástæðan til þess að fasteignasölur eru hafðar með í lagafrv. þessu er sú að þær gefa út og ganga frá skuldabréfum í stórum stíl. Verði þetta frv. samþykkt eiga þessir aðilar að senda frá sér skrá yfir viðskiptamenn sína til skattstofanna á svipaðan hátt og nú gerist með launamiða.“

Í 7. gr. segir: „Nú selur aðili skuldabréf og skal hann þá tilkynna um söluna og nafn kaupanda bréfsins til viðkomandi skattstofa. Vanræki seljandi skuldabréfs að tilkynna söluna skal hann bera skatt af þeim tekjum sem bréfið gefur af sér.“

Um 7. gr. segir: „Lögð er sú skylda á eigendur skuldabréfa að þeir tilkynni skattstofum um sölu bréfanna. Vanræki seljandinn að tilkynna söluna ber hann skaðann í formi skatta sem honum er gert að greiða af þeim tekjum sem bréfið skilar af sér.“

Og 8. grein: „Seðlabankinn skal birta reglulega tilkynningu um leyfilega hámarksvexti í lánsviðskiptum. Berist bankaeftirlitinu upplýsingar um að einhver aðili taki hærri vexti en Seðlabankinn leyfir eða afföll af skuldabréfum skal bankaeftirlitið tafarlaust rannsaka málið og taka afstöðu til þess hvort viðkomandi skuli halda starfsleyfi sínu áfram. Ráðherra getur þá, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, svipt hann starfsleyfi án frekari viðvörunar.“

Um 8. grein segir í skýringum: „Nú ríkir algjör óvissa um vexti og þar með réttarstöðu fólks á peningamarkaðnum. Hér er lögð sú lagaskylda á Seðlabankann að hann gefi út tilkynningu um hámarksvexti. Ef bankaeftirlitinu berast upplýsingar um vaxtatöku eða afföll umfram leyfilegt hámark skal eftirlitið án tafar hefja rannsókn málsins. Telji bankaeftirlitið ástæðu til skal það leggja til við ráðherra að viðkomandi aðili verði sviptur starfsleyfi. Ráðherra getur þá, ef honum sýnist svo, afturkallað starfsleyfið án viðvörunar.“

Hér eru tiltölulega ótvíræð ákvæði um réttarstöðu bankaeftirlitsins og reyndar valdsvið ráðherra í viðkomandi tilfellum.

9. gr. er svohljóðandi: „Bankaeftirlitið getur frá og með gildistöku laga þessara, og þrátt fyrir lög um Seðlabanka Íslands, starfað sem sjálfstæð stofnun og án þess að leita leyfis Seðlabankans fyrir aðgerðum sem byggjast á lögum þessum. Heyrir þá bankaeftirlitið beint undir viðskrh.“

Um 9. gr. segir í athugasemdum: „Lögin um Seðlabanka Íslands kveða á um starfsskyldur bankaeftirlitsins. Þar er eftirlitið sett undir bankastjórn Seðlabankans. Hér er gert ráð fyrir því að þrátt fyrir þessi lagaákvæði um Seðlabankann eigi bankaeftirlitið að vera sjálfstæð stofnun að því er tekur til starfsemi sem byggist á lögum þessum. Þarf bankaeftirlitið ekki að leita samþykkis bankastjórnar Seðlabankans við aðgerðum sem það telur nauðsynlegar og samrýmast ákvæðum laganna.“

Þetta skýrir sig sjálft, herra forseti, og þarf ég ekki að hafa fleiri orð um það.

Síðan segir í 10. gr.: „Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.“ Og þarfnast það ekki skýringa.

11. og síðasta gr. frv. er svohljóðandi: „Lög þessi öðlast þegar gildi en skulu endurskoðuð fyrir árslok 1986. Skal þá viðskrh. leggja nýtt frv. fyrir Alþingi að fenginni reynslu af lögum þessum.“

Og í skýringum við 11. gr. segir: „Gert er ráð fyrir því að lögin gildi aðeins um skamma hríð óbreytt enda komi önnur lagaákvæði og fyllri þegar reynsla liggur fyrir af lögum þessum.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir öðrum viðurlögum en þeim sem almenn hegningarlög kveða á um. Sjálfsagt er að Alþingi athugi við meðferð málsins hvort rétt sé að ganga lengra varðandi viðurlög við brotum á lögum þessum.“

Herra forseti. Ég vil leggja sérstaka áherslu á 11. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að lög þessi, ef verða, skuli endurskoðuð fyrir árslok 1986 og þá í ljósi reynslunnar af framkvæmd þeirra og með hliðsjón af öðrum atriðum sem menn vilja taka tillit til við framtíðarskipan þessara mála. Ég er reyndar nokkuð sannfærður um það, herra forseti, að efnisinntak þessa frv. mun verða gilt til lengri tíma, miklu lengur en þetta frv. kynni að vara, og ég byggi það á því að hér er í flestum tilfellum um hliðstæð ákvæði að ræða, t.a.m. um leyfisbindingu og eftirlit, og eru í gildi þegar hjá nálægum þjóðum.

Ugglaust munu einhverjir finna á þessu agnúa, þessari framkvæmd, og telja á þessu ýmis tormerki. Því má svara til að ástæðulaust er að ætla að það geti tekist alveg fyrirhafnarlaust að koma á eftirliti og tryggja að ákveðnum lágmarksreglum sé framfylgt á þessu sviði þar sem engar hafa verið fyrir. Það væri mikil bjartsýni ef menn héldu að slíkt gæti tekist án einhverra örðugleika. En það er samdóma álit þeirra sérfróðu aðila sem við höfum leitað til, flm., í sambandi við vinnu að þessu frv. að allt sé þetta nú framkvæmanlegt og hægt og fyrst og fremst spurning um vilja, um vilja til þess að grípa til ráðstafana en ekki um það hvort það sé framkvæmanlegt eða gerlegt. Það á sér ugglaust einhverja formælendur, þó þeir séu kannske ekki staddir hér, herra forseti, að hafa þennan arfahaug bara óbreyttan eins og hann er og setja engar reglur og engin lög um þessi viðskipti yfirleitt og hafa þetta sem sagt án allrar lagastoðar og eftirlitslaust. En hinir eru vissulega margir, og miklu fleiri að mínum dómi, sem sjá nauðsyn þess að koma hér á reglum og eftirliti og tryggja eftirlitsaðilum, bankaeftirliti eða skattyfirvöldum, aðgang að upplýsingum og það mun frv. þetta alveg tvímælalaust gera verði það að lögum. Ég hygg að staða bankaeftirlits og skattyfirvalda yrði sterk skv. lögum þessum til að afla upplýsinga og hafa á reiðum höndum allar upplýsingar á hverjum tíma um þessi viðskipti, yrði frv. þetta að lögum og gætu þessir aðilar starfað í krafti þeirra.

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð mín fleiri m.a. í ljósi þess sem ég sagði hér í upphafi að við flm. leggjum mikla áherslu á það að þetta mál fái greiðan framgang hér í þinginu og því ekki ástæða til að tefja það mjög með miklum málalengingum í framsögu. Við rökstyðjum þessa ósk okkar og þennan áhuga okkar á því að frv. vegni hér vel með því að úti í þjóðfélaginu ríkir ófremdarástand og þetta frv. er lagt fram og það er ætlað til þess að bæta þar úr. Það er sannfæring okkar að það mundi gera svo ef það yrði að lögum og þá helst sem allra fyrst.

Það verður án efa eftir því tekið hvernig þessari tilraun okkar reiðir af eða þá hvort eitthvað annað lítur hér dagsins ljós á hv. Alþingi sem gengur til sömu áttar. Að lokinni umræðunni, herra forseti, legg ég svo til að frv. þessu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.

Umr. (atkvgr.) frestað.