03.12.1985
Sameinað þing: 24. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

112. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda skipaði fyrrv. menntmrh. Ingvar Gíslason nefnd í apríl 1982 til þess að undirbúa og skipuleggja kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands samkvæmt ályktun Alþingis um það efni frá 19. maí 1981.

Nefndin skilaði áliti í nóvember 1983. Var hún sammála um að óraunhæft væri á þessu stigi málsins að hefja sérnám í sjávarútvegsfræðum sem yrði sameiginlegt fyrir alla þó síðar gæti komið til þess. Þessi niðurstaða byggðist á því að sjávarútvegurinn hefði þörf fyrir starfslið með margs konar sérmenntun, auk þess sem fjárráð væru takmörkuð. Þess vegna taldi nefndin eðlilegra að byrja nám sem væri byggt við grunnnám í viðskiptafræði og verkfræði.

Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1985 var af hálfu Háskóla Íslands og menntmrn. lagt til að veitt yrði fé til nýrra kennarastarfa til að unnt yrði að hefja kennslu í útvegsfræðum á framangreindum grundvelli. Fé fékkst þó ekki að því sinni. Með fjárlagatillögum Háskólans fyrir næsta ár, sem studdar voru af menntmrn., var að nýju lögð fram fjárhagsáætlun vegna kennslu og rannsókna í útvegsfræðum við viðskiptadeild og verkfræði- og raunvísindadeild. Námi þessu er ætlað að ná yfir líffræði vatns og sjávar, veiðar, eldi, vinnslu og sölu afurða. Náminu yrði að stórum hluta bætt við það námsefni sem þegar er fyrir hendi í deildunum. Nýtt efni í viðskiptafræði, verkfræði og raunvísindum mundi að magni samsvara námsefni tveggja ára.

Til þess að nám í sjávarútvegsgreinum geti hafist við Háskóla Íslands á þeim sviðum sem lagt hefur verið til er af hálfu Háskólans farið fram á að ráðnir verði fimm nýir kennarar, einn við viðskiptafræðideild, tveir við verkfræðideild og tveir við raunvísindadeild, frá 1. júlí 1986, miðað við að nám hefjist strax árið 1986.

Miðað við verðlag í maí 1985 er reiknað með að kostnaður við þetta nám verði um 10 millj. kr. árið 1986 í launum og rekstrargjöldum, en stofnkostnaður vegna rannsóknatækja verði um 6 millj. kr. á ári fyrstu fjögur árin. Enn fremur þarf að útvega húsnæði fyrir verklega kennslu. Við kaup á rannsóknatækjum er reiknað með að samvinna náist um afnot af tækjum og aðbúnaði milli Háskólans og rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Nú þegar er samvinna þessara stofnana allnáin, sérstaklega milli verkfræði, matvælafræði og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Sá nauðsynlegi tækjabúnaður sem lagt er til að kaupa er ekki til á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, en reiknað er með að báðar stofnanirnar muni verða samhentar í að nota öll rannsóknatæki sameiginlega.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til nýrra kennarastarfa er bundin séu við kennslu í útvegsfræðum. Hins vegar er þar ætlað fé fyrir einni nýrri prófessorsstöðu í viðskiptadeild, í markaðsmálum, og gert er ráð fyrir fimm tímabundnum kennarastöðum sem ráðstafað verði til brýnustu þarfa að mati stjórnenda Háskólans. Eðlilegt er að kannað verði hvort nýta megi þessar stöðuheimildir að einhverju marki til að hrinda af stað kennslu í útvegsfræðum haustið 1986.